Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 01:34:35 (3871)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það skal vera örstutt. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við skoðanir hv. þm. á aðgerðunum og einstökum þáttum aðgerðanna sem hv. þm. nefndi í sinni ræðu. Þar greinir okkur á og það hefur þegar komið vel fram. Ég vil einungis geta þess af því að mér finnst nauðsynlegt að það komi fram í framhaldi af hennar máli að þegar litið er á heildina varðandi ferðaiðnaðinn og ferðamannaþjónustuna, þá bætir hluti hennar stöðu sína og það er veitingareksturinn. Með því að fella niður aðstöðugjald og tryggingagjald, þá verkar það til bóta fyrir veitingareksturinn upp á 200 millj. kr. Þegar allt er saman talið, eins og fram kemur frá Þjóðhagsstofnun, er einungis um 50 millj. skattaukningu að ræða og er þá ekki tekið tillit til áhrifa gengisfellingarinnar. En eins og allir sjá og vita þá er þetta útflutningsgrein á vissan hátt og þegar verð er auglýst á íslenskum vörum koma út færri einingar í erlendri mynt, einkum og sér í lagi þeirri sem ekki var felld jafnhliða íslensku myntinni. Þetta finnst mér rétt að komi fram til þess að fylla út þá mynd sem varðaði ferðamannaþjónustuna, en ég er sammála skoðun hv. þm. um það að ferðamannaþjónustan er mikilvægur vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs.