Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 01:36:56 (3873)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég óskaði eftir því áðan í þingskapaumræðu að hæstv. forsrh. yrði við og vil þakka hæstv. forsrh. fyrir að vera kominn í salinn. Ég óskaði eftir því að hv. 5. þm. Norðurl. v. yrði hér við þar sem

nú er kominn nýr dagur. Afmælisfriðhelgi virðum við að sjálfsögðu en eftir slíkan dag kemur nýr vinnudagur, að sjálfsögðu einnig hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. En eins og allir vita er hann formaður efh.- og viðskn. Þessu vil ég koma á framfæri strax í upphafi ræðu minnar. ( Forseti: Forseti trúir því að hv. 2. þm. Vestf. hafi skilning á því að hv. 5. þm. Norðurl. v. er ekki hér. Hins vegar er hér varaformaður efh.- og viðskn., hv. 11. þm. Reykn., sem er tilbúinn að vera við umræðuna og svara ef einhverjar spurningar koma frá hv. þm. sem hann vill bera til varaformanns nefndarinnar. Treystir forseti því að hv. þm. hafi skilning á þessu.)
    Hæstv. forseti. Það er nú eins og að fara fram á að ég hengi bakara fyrir smið ef ætlast er til þess að ég fari að ráðast á hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, 11. þm. Reykn., þegar ég þarf að eiga orðastað við hv. þm. Vilhjálm Egilsson. Sé það upplýst af forsetastóli að hann verði fertugur tvo daga í röð á þessu ári, þá skal ég ekki eyða meiri tíma í það að ræða það mál. En það má með ólíkindum heita ef svo stendur á hjá manninum.
    Ég hef hlustað á hæstv. fjmrh. standa hér upp í andsvörum. Hann er búinn að gera það af og til í allan dag. Það merkilega við þessi andsvör er að þau byrja á sama veg og enda á sama veg. Þetta minnir á það í gamla daga þegar ég var að glíma við grammófóninn heima og var að spila plöturnar. Sumar voru orðnar gamlar og nálin festist, fór sama hringinn aftur og aftur og það var náttúrlega tilviljun hvaða texti dundi á þar til ég hafði fært nálina úr stað. Í fáum orðum er boðskapur fjmrh. þessi: Við sem höfum vinnu eigum nú að taka á okkur skattbyrðar til þess að fjölga störfum í landinu til þess að þeir sem ekki hafa vinnu fái vinnu. Þetta er boðskapur hæstv. fjmrh. Þetta er góður boðskapur. Hann er drengilegur og sannkristinn. Það furðulega er hvers vegna Þjóðhagsstofnun hefur ekki frétt af þessu. Þjóðhagsstofnun hefur látið þau boð út ganga að gert sé ráð fyrir meira atvinnuleysi á næsta ári en árinu í ár. Getur hugsast að Þjóðhagsstofnun fylgist ekkert með góðum vilja hæstv. fjmrh.? Rengir Þjóðhagsstofnun orð hæstv. fjmrh.? Hvers vegna er Þjóðhagsstofnun núna í svartasta skammdeginu að halda því fram að atvinnuleysi á næsta ári verði meira en á þessu ári þegar alþjóð veit að hæstv. fjmrh. er að leggja á mestu skatta í sögu lýðveldisins til þess að bjarga málinu? Er ekki nóg sem hvílir á hæstv. fjmrh. þó að Þjóðhagsstofnun sé ekki farin að ráðast á hann opinberlega með þessum hætti? Eru engin takmörk fyrir því hvað embættismenn þessa lands láta sér detta í hug? Eða er kannski tilfellið að hæstv. fjmrh. hafi sagt Þjóðhagsstofnun í trúnaði að ekkert útlit væri fyrir það að þessir peningar færu í þessa hluti, þeir ættu að fara í annað?
    Það hefur verið sagt úr þessum ræðustól að búið sé að ráða einn starfsmann til Brussel upp á 800 þús. kr. á mánuði. Það þarf nú að taka nokkuð marga fyrir með 70 þús. á mánuði og skattleggja þá til að á slíkri upphæð.
    Ein af merkari bókum sem er í jólabókaflóðinu núna heitir ,,Mamma, ég var kosinn.`` Eigum við kannski von á því að fyrir næstu áramót birtist bók sem heitir ,,Mamma, ég var ráðinn`` því að allir vita að það er greitt um 25% hærra kaup úti í Brussel en í stjórnarráðum aðildarríkjanna að Efnahagsbandalaginu? Það væri ekki dónalegt ef margir gætu sagt móður sinni fyrir næstu jól: Mamma, ég var ráðinn.
    En alvaran á Íslandi virðist vera orðin mikil. Hér er ég með frétt úr Dagblaðinu frá föstudeginum 18. des.: ,,Héraðsdómur Reykjaness í máli byggingarverktaka sem stefndi tæknifræðingi. Dæmdur til fébóta fyrir að leggja rangt saman.`` Það er ekkert sem heitir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tæknifræðingur í Hafnarfirði hefur verið dæmdur til að greiða byggingarverktaka tæpa 1 millj. kr. í bætur vegna samlagningarskekkju í tilboði sem tæknifræðingurinn tók að sér að gera fyrir hinn á árinu 1988. Upphæðin sem hann var dæmdur til að greiða nam þó ekki nema litlum hluta af upphaflegri kröfu byggingarverktakans. Málið kom upp eftir að verktakinn tók að sér að byggja iðnaðarhús í Hafnarfirði. Dóminn kváðu upp Már Pétursson, héraðsdómari á Reykjanesi, og meðdómsmennirnir dr. Ragnar Ingimarsson og dr. Maggi Jónsson arkitekt.``
    Ég veit ekki til --- það er vafalaust þekkingarleysi mitt --- að menn hafi áður verið dæmdir í sekt upp á 1 millj. fyrir að leggja rangt saman. En þetta hlýtur að vera nokkuð sem hæstv. fjmrh. er búinn að koma á framfæri til undirmanna sinna í ráðuneytinu, til starfsmanna í Þjóðhagsstofnun og efnahagssérfræðinga ríkisstjórnarinnar að svo geti farið að menn verði dæmdir fyrir margföldun, fyrir deilingu og fyrir frádrátt nema ráðherrann taki sig til og bjóði bara verkið út þannig að hann geti á einfaldan hátt saksótt þá aðila sem valda því ef nú verður vitlaust reiknað. --- Ég sé að hæstv. fjmrh. er þegar farinn í símann til þess að tilkynna undirmönnum sínum að nú sé ákvörðun tekin um að þeir verði allir lögsóttir ef þeir hafa lagt vitlaust saman, margfaldað vitlaust eða deilt vitlaust. Hér duga engin vettlingatök.
    En þá er það spurningin, verður þetta líka látið gilda um efh.- og viðskn. þingsins og væri nú ekki heiðarlegra ef hv. 5. þm. Norðurl. v. fengi að vita af þessu? Nei. Við köllum menn, sem gera mistök, til ábyrgðar fyrir dómstólakerfi þessa lands. En ráðherrar landsins eru svo vel varðir að það þarf meirihlutasamþykkt á Alþingi fyrir því að það megi stefna þeim fyrir landsdóm hvaða mistök sem þeir gera.
    Hæstv. fjmrh. á merka sögu á Alþingi Íslendinga. Hann hefur barist gegn skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði allan þann tíma sem hann hefur verið í stjórnarandstöðu, flutt gagnmerkar ræður um málið, hlotið óspillt lof út um alla Reykjavík, út um hinar dreifðu byggðir. Ég segi ekki að hann hafi verið borinn á höndum sér af ákveðnum hópum í þessu samfélagi. Nú segir hann aftur á móti: Ég er búinn að leggja niður aðstöðugjaldið. Nú er allt í lagi að hafa skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. En er þá málið svona einfalt? Frammi fyrir hvaða vanda stendur borgin Reykjavík í dag? Vita menn það eða gera þeir sér

ekki grein fyrir því? Hún stendur frammi fyrir þeim vanda að hún er í samkeppni við aðrar verslunarborgir í Evrópu og ef hún stendur sig ekki í samkeppninni, ef hún verður undir, þá minnka tekjurnar sem hæstv. fjmrh. fær í kassann. Verslunarstétt Íslands er búin að vara hæstv. fjmrh. við. Hann fær engan skatt af skrifstofunum í Glasgow, Dublin eða á öðrum stöðum þar sem innkaupin fara fram. Ef við bíðum eftir hruni í þessum efnum, þá minnka tekjur ríkissjóðs enn. Því miður er það svo að hafi einhvern tíma verið nauðsyn í þessu landi að leggja skattinn af til þess að tapa ekki versluninni út úr landinu þá er það í dag vegna þess að munurinn á flugfari til Egilsstaða og á flugfari til meginlandsins hefur aldrei í sögunni verið minni og þetta veit hæstv. fjmrh. mætavel. Þetta veit formaður efh.- og viðskn., þetta veit varaformaður efh.- og viðskn. en engu að síður er horft á þá staðreynd að ganga þannig frá málum að íslenska verslunin hefur ekki samkeppnisstöðu við þá verslun sem hún þarf að keppa við. Er svo komið fyrir flokknum, sem barðist hvað harðast fyrir seinustu kosningar undir merkinu að þeir ætluðu að lækka skattana, að ég tel að aðeins þrír hv. þm. í Sjálfstfl. muni greiða atkvæði gegn þessum skatti.
    Íslenska ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því að umsvifin í samfélaginu eru að dragast saman. Ef umsvifin í samfélaginu dragast saman áfram á næsta ári þá verður ríkisstjórnin enn fjær því að ná endum saman í útgjöldunum. Í Bandaríkjunum er halli á ríkissjóði. Bandaríska þjóðin kaus mann til forustu sem er ákveðinn í því að auka veltuna í Bandaríkjunum og þegar hefur orðið milli 15--20% aukning í bílasölu í Bandaríkjunum. Vextirnir eru hafðir lágir í Bandaríkjunum. Það fyrsta sem hæstv. fjmrh. gerði þegar hann tók við, og það var hluti af efnahagsstefnu hæstv. núv. forsrh., var að keyra vextina upp og það var banabiti þeirrar efnahagsstefnu sem fór af stað. Þeir voru að koma í veg fyrir það að þeir fengju peninga í ríkiskassann. Þeir voru að draga saman umsvifin í íslensku samfélagi. Þeir voru að grafa sína eigin gröf vegna þess að íslenska ríkið lifir á veltunni, það lifir á umsvifum hins íslenska samfélags.
    Hér kom inn á Alþingi Íslendinga varaþingmaður í haust, varaþingmaður að austan. Hann lagði eina skriflega fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmrh. Með leyfi forseta vil ég lesa hér upp það merka svar sem kemur og kynna textann. Fyrirspurnin var frá Hermanni Níelssyni um gjaldþrot fyrirtækja. (Gripið fram í.) Ég heyri að sumir hafa heyrt þennan texta áður og sumir margoft. Í svarinu kemur fram að yfir 540 fyrirtæki hafi verið úrskurðuð gjaldþrota á því tímabili sem um var spurt en það athyglisverða við þetta er það að dómsmrn. íslenska treystir sér ekki til þess að svara fsp. Það svarar ekki skriflegri fyrirspurn um málið heldur segir aðeins:
    ,,Upplýsingar um lýstar kröfur liggja ekki fyrir enda tíðkast ekki að málaskrár séu svo ítarlegar að rekja megi lýstar kröfur með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.``
    En þar að auki kemur fram í svarinu að þeir vita ekki hvar 56 fyrirtæki af þessum 540 voru skráð. Það má með ólíkindum heita ef þau hafa verið skráð uppi á jöklum eða úti á sjó. Ég hélt að lægi nokkuð ljóst fyrir með hreppabörn og fleira á Íslandi. En liðirnir sem ekki fæst svar við eru:
    Hve háar upphæðir var um að ræða í hverju sveitarfélagi og í heild yfir landið í lýstum kröfum?
    Hvernig skiptust lýstar kröfur á milli opinberra sjóða, banka og fyrirtækja, hve mikið tapaðist og hvernig skiptust töpin á milli sveitarfélaga?
    Ekkert svar. Hvernig samfélag erum við komnir inn í? Eru menn hættir að halda skrár yfir það sem gerist í landinu? Einu sinni voru til annálaritarar sem vöktu við kertaljós til að skrá niður staðreyndir. Núna láta menn sig engu skipta hvað er að gerast. Vita menn ekki hvað gerist ef gjaldþrota fyrirtæki greiðir ekki skuldir sínar? Það sem gerist er einfaldlega það að menn sem áttu með réttu peninga hjá öðrum fá þá ekki greidda og verið er að hægja á öllum umsvifum í samfélaginu. Ekki einu sinni er skráð hvaða upphæðir er verið að taka af mönnum með þessum hætti. Hvað er að gerast? Það er ekki haldin skrá yfir þetta.
    Einn af þeim mönnum sem ég vissi fyrir mörgum árum að hafði mikil áhrif á skoðanamyndun Íslendinga vegna umsvifamikillar útgáfustarfsemi var Magnús Hreggviðsson. Hann er nú stjórnarformaður Fróða og formaður Samtaka útgefenda tímarita, SÚT. Hann er einn af þeim sem hefur stutt Sjálfstfl. lengi. Hann er einn af þeim sem í prentuðu máli hefur trúlega komið meiri boðskap á framfæri fyrir því að heilbrigt einkaframtak eigi rétt á sér. Hann hefur verið metnaðarfullur í útgáfu þeirra tímarita sem hann hefur staðið að. Nú stendur hann frammi fyrir því að ef Íslendingur kaupir tímarit frá Bretlandi þá er ekki greiddur virðisaukaskattur ef tímaritið er keypt í áskrift, en ef tímarit er keypt af honum þá verður greiddur af því virðisaukaskattur. Þetta þýðir það að ef hann vill keppa þá verður hann að flytja útgáfustarfsemi sína úr landi. Svo einfalt er málið. Því ef rit hans eru í áskrift og koma gegnum póstinn frá Bretlandi, Danmörku eða Svíþjóð þá borgar hann ekki virðisaukaskattinn. Vandamálið hjá þessum manni er aftur á móti allt annað. Hann hefur starfsmenn í vinnu á Íslandi, stóran hóp manna og hann stendur frammi fyrir því að þurfa að segja við stóran hluta þessara starfsmanna ef þetta verður gert: Því miður verð ég að segja ykkur upp. Ef þið flytjið úr landi þá getur verið að ég geti látið ykkur hafa atvinnu.
    Ég hélt einu sinni að í fremstu víglínu hjá Sjálfstfl. færu ekki aðrir menn en þeir sem væru bisnissmenn eða hefðu komið nálægt atvinnurekstri. Hæstv. fjmrh. segir hér í stólnum: Ég þekki til úti á landi, ég vann úti á landi. Það var nú svo. Ég er með tímaritsgrein sem heitir ,,Árangur eftir ríkisstjórnum`` og þar er m.a. stutt verklýsing æviferils hvers og eins ráðherra. Með leyfi hæstv. forsrh. og leyfi hæstv. forseta ætla ég að fá að lesa upp verklýsingu á æviferli forsrh. og fjmrh. til þess að menn átti sig á því hvort þarna séu þeir bisnissmenn á ferðinni með reynslu í einkageiranum sem flestir trúa að sé til staðar.
    ,,Davíð er fæddur 17. jan. 1948 í Reykjavík. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1970 og

lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1976. Á námsárum sínum í háskólanum má segja að hann hafi komist mest í tæri við einkageirann. Hann var skrifstofustjóri Leikfélags Reykjavíkur 1970--1972. Þingfréttaritari Morgunblaðsins 1973--1974. Starfsmaður Almenna bókafélagsins 1975.
    Hann varð skrifstofustjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur á árunum 1976--1978 og framkvæmdastjóri þess frá 1978--1982. Frá 1982--1991 var hann borgarstjóri í Reykjavík. Síðan 30. apríl 1991 hefur hann verið forsrh.
    Þess má geta að Davíð var fyrst kjörinn í borgarstjórn árið 1974 þegar hann var í lögfræðinámi við Háskóla Íslands.
    Niðurstaðan er þessi: Davíð hefur unnið hjá hinu opinbera frá því hann lauk námi í lögfræði 1976, eða í 16 ár.`` ( ÖS: Af hverju ertu að þreyta fólk með þessu?) Hér hefur aðeins einn maður látið í það skína að hann væri þreyttur og var nú að ganga í salinn. Mig undrar það ef komin er uppgjöf í hv. 17. þm. Reykv. sem er ekki vanur að kveinka sér. Þessar upplýsingar eru á þann veg að það er sagt að hann hafi mest komið í nágrenni við einkaframtakið þegar hann var í háskólanum.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt líka að fara yfir starfsferil hæstv. fjmrh., sérstaklega vegna þeirra ummæla að hann lýsti því yfir að hann hefði þekkt til úti á landi, unnið úti á landi ef ég heyrði þetta rétt.
    ,,Friðrik Sophusson er fæddur í Reykjavík 18. okt. árið 1943. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1972. Á námsárum sínum í háskólanum vann hann sem stundakennari í gagnfræðadeild Hlíðaskóla í Reykjavík.
    Að loknu lögfræðinámi 1972 varð Friðrik framkvæmdastjóri Stjórnunarfélags Íslands og gegndi því starfi til ársins 1978 þegar hann varð þingmaður Reykvíkinga. Frá 1978 hefur Friðrik gegnt þingmennsku og þegið laun frá ríkinu. Hann var iðnrh. í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar 1987--1988. ( Gripið fram í: Hvar hefur þú unnið?) Frá 30. apríl 1991 hefur hann verið fjmrh.
    Niðurstaðan er sú að Friðrik hefur meiri hlutann af starfstíð sinni unnið hjá ríkinu, eða í 14 ár. Í einkageiranum, hjá Stjórnunarfélagi Íslands, hefur hann hins vegar unnið í 6 ár. Samtals á vinnumarkaði í um 20 ár.``
    Hvergi í þessum texti er getið um þessi miklu störf úti á landi. Hins vegar veit ég að hæstv. fjmrh. átti tengdir vestur á firði og þar var vel rekið útvegsfyrirtæki sem þoldi það að hafa hann sem afleysingaraðila á sumrin af og til þannig að ég veit að hann hefur komið vestur á firði.
    En það er aftur á móti hæstv. félmrh. sem hefur unnið í einkageiranum. Það blasir við. Ég hygg að forvitnilegt væri að skoða að það er merkt með gulu sem bara hefur verið unnið í opinbera geiranum en með grænu sem hefur verið unnið í einkageiranum --- og grænn er að sjálfsögðu litur Framsfl. En tveir af ráðherrum vors lands, af sjálfstæðismönnum, eru bara gulir, örlar ekki fyrir einni einustu grænu doppu. Og það er einn af ráðherrum Alþfl. sem er bara gulur. Aftur á móti verður að segjast eins og er að hæstv. félmrh. veit hvað hinn harði einkageiri er og það veit líka hæstv. sjútvrh. sem reyndar kynntist honum sem ritstjóri á dagblaði.
    Ég held nefnilega að þetta sé dálítið umhugsunarefni vegna þess að menn hafa fengið þá mynd af Sjálfstfl. og efnahagsstefnunni að þetta væri flokkurinn sem væri að vinna fyrir einstaklingsframtakið í landinu, að ég tali nú ekki um það sem kom fram hjá hv. þm. Inga Birni Albertssyni, hv. 5. þm. Reykv., sem vissulega sópaði fylgi að flokknum í Reykjavík í seinustu alþingiskosningum. Honum var brugðið þegar hann flutti ræðu sína hér í stólnum. Hins vegar er hv. þm. karlmenni og þorði að segja það sem honum bjó í brjósti og það er ekkert vafaatriði að slíkir þingmenn munu hafa traust íslenskrar þjóðar.
    Hann minnti flokksbræður sína á það hvað hafði verið sagt fyrir kosningar og hvað var sagt í dag. Hann bað hæstv. fjmrh. að svara aðeins einni spurningu. Hann bað hann að segja sér hvernig maðurinn með 70 þús. kr. mánaðarlaunin gæti risið undir þeim byrðum sem verið væri að leggja á hann. Og hann lofaði að styðja þetta frv. ef hæstv. fjmrh. svaraði þeirri spurningu. Það getur vel verið á þeim klukkutímum sem eftir lifa þar til þetta frv. verður borið undir atkvæði að hæstv. fjmrh. segi hv. 5. þm. Reykv. þetta. En úr þessum ræðustól kom svarið ekki. Þar var gamla platan, sem ég minntist á áðan, um aðgerðirnar til að koma í veg fyrir atvinnuleysið sem Þjóðhagsstofnun hefur ekki frétt af. Hins vegar fannst mér mjög undarlegt þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, 11. þm. Reykn., taldi að þessi ræða væri flutt á röngum stað.
    Ég hef hugsað mikið um þessi orð í kvöld. Hvar á stjórnmálamaður, sem á sæti í efh.- og viðskn. þingsins, skrifar undir álit með fyrirvara og þarf að gera grein fyrir því í hverju fyrirvari sá er fólginn, að flytja ræðu sína ef hann á ekki að flytja hana úr þessum stól? Ég tel að hv. 11. þm. Reykn. skuldi þinginu svar við því. Er svo komið fyrir Alþingi Íslendinga að menn telji að þar eigi ekki að segja frá því sem er að gerast? Eru menn virkilega að halda því fram að það eigi í áróðri út um borgina og landið að dreifa einhverju til að reyna að slæva dómgreind almennings í stað þess að segja sannleikann úr þessum stól um það sem verið er að gera? Hvað var það sem hv. 5. þm. Reykv. var í reynd að segja úr þessum stól? Hann var að segja það að hann vissi ekki hvernig menn gætu leyst eða borið þær byrðar sem verið væri að leggja á þá. Hvað gerist ef einstaklingur getur ekki borið þær byrðar sem verið er að leggja á hann af hinu opinbera? Það byrjar með því að Gjaldheimtan sendir honum bréf. Ef viðkomandi einstaklingur á einhverjar eignir er næsta stigið að þær eru auglýstar á nauðungaruppboði á síðum Morgunblaðsins og þriðja er að uppboðið fer fram. Það er það sem gerist ef byrðarnar, sem lagðar eru á fólkið í landinu, eru meiri en það

fær risið undir. Svo einfalt er það mál. Það mega vera nokkuð góð markmið sem menn hafa ef þeir telja að þetta sé réttlætanlegt.
    En svo kemur annað inn í dæmið. Húsnæðisstofnun ríkisins hefur ráðið í þjónustu sína leiðbeinendur sem hafa sagt fólki hve hátt lán það gæti tekið og greitt. Menn hafa verið að greiða 10--20% eða 25% af útborgunarverði í íbúðum og tekið hitt að láni. Það hefur verið reiknað út að þeir ættu að geta staðið við þessar greiðslur. Ef hægt er að dæma tæknifræðinginn til að borga 1 millj. kr. í bætur fyrir að leggja vitlaust saman hvað er þá hægt að dæma sérfræðinga Húsnæðismálastofnunar til þess að borga mikið ef þetta þýðir ekki aðeins að þeir tapi íbúðinni sem þeir voru búnir að kaupa heldur tapi líka 25% af útborgunarverðinu sem þeir áttu að greiða? Menn þurfa að vera doktorar í fleiru en fisksjúkdómum og slíku ef þeir eiga að geta svarað þessu. En kannski finnst mönnum þetta ekkert alvarlegt mál.
    Ég trúi því að margt alþýðufólk í landinu trúi á sérfræðinga, veigri sér við að reikna, trúi á tölvurnar. Það settist fyrir framan þessa sérfræðinga. Það var búið að segja því að það ætti að fá leiðbeiningarnar þarna. Þetta væru menn sem kynnu að reikna. Og það fór að ráðleggingunum. Hvar er ábyrgðin? Er ekki tími til kominn að menn geri upp við sig að það verður að vera einhver ábyrgð í því sem verið er að gera?
    Ég er búinn að vera hér á Alþingi Íslendinga frá 1979. Nánast á hverju einasta þingi koma ný og ný frumvörp um húsnæðismálin. Á skrifstofu minni er ég með bréf frá manni sem átti lánsloforð samkvæmt gamla kerfinu. Hann var settur út af sakramentinu þar vegna þess að ákveðið var að hætta við að standa við loforðið. Hann er gjaldþrota í dag vegna þess tiltækis. En það var ekki það sem honum fannst sárast heldur hitt að hann hafði beðið vin sinn að skrifa upp á persónulegar skuldbindingar, og hann vissi að þær skuldbindingar mundu falla á hann. Hann gerði þetta eftir að hann var búinn að fá loforð um það að fá lán frá Húsnæðisstofnun, að vísu með því fororði ef lögunum yrði ekki breytt. Ég veit ekki hvaða fororð sérfræðingarnir settu inn í textann varðandi leiðbeiningarnar um kaupin. Var sett það fororð inn að það væri byggt á því að það kæmu ekki verri ríkisstjórnir yfir Ísland en sætu þegar sérfræðingarnir leiðbeindu? Hver ber ábyrgð á þessu? Er nokkuð skrýtið þó að menn vilji að þessi umræða fari fram um svarta nótt?
    Í Vikublaðinu, 17. des., með leyfi hæstv. forseta, greinir frá jólaskattinum. ,,Jólaskattarnir eru 7,6 milljarðar`` stendur í því blaði. Af því að menn hafa mest lesið upp úr Morgunblaðinu þá leyfi ég mér til tilbreytingar að lesa upp örstuttan pésa, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fyrir síðustu kosningar sagði Davíð Oddsson, formaður Sjálfstfl.: ,,Við getum lækkað skattana en samt sem áður geta tekjur ríkisins vaxið alveg eins og gerst hefur hjá Reykjavíkurborg.````
    Auðvitað vildu menn kjósa slíkan mann, mann sem ætlaði að láta tekjur ríkisins vaxa en skattana lækka. Hann sópaði að sér atkvæðum, myndarlegur maður, kom vel fyrir, glaðlegur og meira að segja gamansamur, átti til að segja skemmtilega hluti og koma mönnum á óvart. En þetta atriði að ætla að lækka skattana og auka tekjur ríkisins var slíkt undralyf að það væri ekkert skrýtið þó að menn væru reiðubúnir að kjósa þennan mann sem í dag er hæstv. forsrh. Jólagjöf ríkisstjórnarinnar lítur svona út, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nú eru stjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Alþfl., að hrinda í framkvæmd skattahækkunum sem nema alls 7,6 milljörðum kr. og hækka til að mynda beina skatta um 31%.`` --- Hinir beinu skattar eru skattarnir sem koma mest við launafólk.
    ,,Skattahækkanirnar koma mjög hart niður á barnafólki, húsnæðiskaupendum, sjúklingum, ellilífeyrisþegum og öryrkjum og tekjujöfnunaraðgerðum til þess að verja kaupmátt láglaunafólks er ekki beitt.``
    Jólagjöf ríkisstjórnarinnar í ár er svona:
    ,,Beinir skattar 3,1 milljarður, virðisaukaskattur 1,8 milljarðar, bensíngjald 350 millj., barnaskattur 500 millj., vaxtaskattur (1994) 500 millj., meðlagshækkun 715 millj., hækkun tannlækna-, lyfja- og lækniskostnaðar 600 millj.``
    Er nokkuð skrýtið þó að menn spyrji: Var til einn einasti maður í hópi stuðningsmanna þessarar ríkisstjórnar sem kaus hana fyrir síðustu kosningar sem bjóst við þessum jólaglaðningi? Ég held að ekki hafi verið til einn einasti maður í þeirra liði sem bjóst við þessu. En það þarf vissulega árræði til að leggja þetta til.
    Hér var sýndur kosningapési frá Alþfl. Þar lýsti vafalaust ágætur maður því yfir --- það var mynd af honum í pésanum --- að hann kysi Alþfl. af því að hann mundi ekki hækka tekjuskattinn. Og hv. 11. þm. Reykn. sagði í sæti sínu: Hann skilur okkur. En veit hv. 11. þm. Reykn. hvað þeir blekktu marga til þess að kjósa Alþfl. út á traustið sem þeir höfðu á þessum gamla manni? Það hefði ekki þýtt fyrir Alþfl. að setja mynd af Jóni Baldvini Hannibalssyni, hæstv. utanrrh., og láta hann lýsa þessu yfir. Því hefði enginn trúað. En þessum manni treysti hinn almenni maður og þess vegna var myndin höfð af honum. Er drengilegt að blekkja menn svona? Beita þessum blekkingum til að koma málunum áfram? Ná völdum með blekkingum? Hvernig skyldi þessum manni líða í dag? Það getur vel verið að það sé rétt hjá hv. 11. þm. Reykn. að hann skilji þá sem eru að gera þetta. En hvernig skyldi honum líða berandi ábyrgð á því hvað hann blekkti marga með þessu? Það er nefnilega svo merkilegur hlutur að í Sandkorni í Dagblaðinu 18. des. 1992 er mynd af formanni fjárln., hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, hv. 6. þm. Reykn. Og með leyfi forseta, af því að ég tel að þar sé rétt frá sagt vil ég lesa upp það sem er aðalatriðið í þessu:
    ,,Meiri hluti fjárln. Alþingis á í miklum erfiðleikum með að koma saman nýtilegu fjárlagafrv. Þeim hefur ekki öllum liðið vel, meirihlutamönnunum, við að skera niður velferðarkerfið og hækka skatta eins og

þeir hafa þurft að standa í undanfarnar vikur. Formaður nefndarinnar er gamli verkalýðsforinginn Karl Steinar Guðnason. Honum líður afar illa yfir þessu og getur ekki leynt því í samtölum við menn. Hann stynur þungan yfir niðurskurðinum.``
    Hér kemur að vísu athugasemd á eftir sem skiptir ekki máli. Kjarni málsins er sá að þessum manni líður illa. Það stórsér á honum. Ég hygg að hann hafi elst jafnmikið á þessu hausti og seinustu 10 árum sem ég hef fylgst með honum. En það fer fyrir honum eins og fleirum. Hann vill ekki kosningar. Hann langar ekki að labba aftur til mannsins sem myndin var af í pésanum og segja við hann: Fáum við ekki að hafa mynd af þér aftur í næsta kosningapésa? Við veljum annað sem við látum þig segja.
    Ég veit að hv. 17. þm. Reykv., sem er lærðasti þingmaður Alþfl., ég þori ekki að fullyrða hvort hann er lærðasti þingmaður þingsins, hefur aflað sér mjög mikillar þekkingar á sáralitlu sviði, pínulitlu sviði sem myndar spíss upp í loftið. En þar nær hann langt. Ég segi ekki að hann nái út að ósonlaginu, en það vantar ekki mikið á.
    En svo eru aðrir sem vita mjög lítið um mjög mikið. Það eru þeir sem hafa hina svokölluðu breiðu alþýðumenntun. Þar er ekki um neina stóra fjallatoppa upp í loftið að ræða heldur samfellda þekkingu niður við grasrótina. Og það lygilega er að það er einmitt sá hópur sem virðist skynja miklu betur hvað er að gerast. Það getur vel verið að það sé hægt að spyrja hæstv. heilbrrh. og hæstv. iðnrh. hvað sé að gerast í háloftunum, í það minnsta hæstv. heilbrrh. En hv. 17. þm. er þar hátt fyrir ofan í sólskini því að sólin heldur sig fyrir ofan skýin á þessum tíma árs og hann heldur gleði sinni að sjálfsögðu þó að hérna niður við yfirborðið gangi yfir hin myrku él.
    Ég verð að segja eins og er að það er merkilegt að upplifa það að Alþfl., sem var flokkur verkamanna, safnaði eignum, eignaðist Alþýðublaðið og gat gefið það út. Allt þetta gekk nokkuð vel á meðan venjulegir menn sem höfðu litla þekkingu á miklu sátu við stjórnvölinn, en þegar hinir tóku við sem gnæfðu hátt upp, þá fóru allar eigur flokksins út og suður. Og það er dálítið keimlíkt að þetta virtist líka hafa gerst hjá Framsfl. á svipaðan hátt. Þau tíðindi gerðust fyrir seinustu alþingiskosningar að einn af þessum stórséníum sem gnæfði hátt upp og hafði verið settur til þess trúnaðar af verkamönnum í Reykjavík að sjá um félagsskap sem þeir höfðu stofnað og komið upp, KRON, tók við félaginu með mjög góða eiginfjárstöðu, sigldi því með ævintýralegum hraða yfir landamæri lífs og dauða, fékk uppáskrift stórmenna hins íslenska samfélags um að þarna væri maður sem ætti að fara á þing ( ÖS: Hvernig fóruð þið með SÍS?) og gerðist svo ráðgjafi hæstv. utanrrh. ( ÖS: Hvernig fóruð þið með SÍS?) Og hér er spurt úr háloftunum af manni sem hefur ekki fylgst með í hinum jarðneska heimi niður við grasrótina: Hvernig fóruð þið með SÍS? Við fórum m.a., hv. þm., í samstarf við þennan fulltrúa og rákum mjög stóra verslun skilst okkur, félagshyggjumenn í landinu. En það þarf enginn að óttast SÍS í dag. ( ÖS: Hvernig fóruð þið með NT? Hvernig fóruð þið með eigur Framsfl.?) En það gæti farið svo, hv. 17. þm. Reykv., að það þurfi að gera grein fyrir framlaginu sem kom frá norsku verkamönnunum til Alþfl. Peningunum sem komu frá Noregi og aldrei hefur verið gerð grein fyrir hvaðan komu og vonlaust að nokkur maður trúi því að það sé svo ómerkilegt bókhald hjá norsku verkalýðshreyfingunni að það sé hægt að skrifa framlag til Alþfl. á Íslandi og lesa slíkt upp á fundi. Nei, það er nefnilega með þá peninga eins og fleiri sem komið hafa að menn vilja hafa eitthvað fyrir snúð sinn og mér sýnist í dag að verið sé að heimta gjaldið til baka.
    Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. þeirrar einu spurningar sem íslensk þjóð vill fá svar við á þessari stundu: Telur hann að Þjóðhagsstofnun sé að segja satt þegar hún spáir meira atvinnuleysi á næsta ári, þegar hæstv. fjmrh. segir að þessar byrðar séu lagðar á til að tryggja að það verði ekki atvinnuleysi? Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Hvor hefur rétt fyrir sér í þessu?
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort það megi treysta því, ef hann verður í stjórnarandstöðu á næstunni, að hann greiði atkvæði gegn skattinum, að hann greiði atkvæði með kaupmannastéttinni gegn skattinum á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.
    Þessar tvær spurningar vil ég leggja til þessara manna, hæstv. ráðherra vors lands.
    Við hæstv. iðnrh., sem á hrós skilið fyrir það að hafa sýnt Alþingi þá virðingu sína að sitja hér betur en aðrir hæstv. ráðherrar, vil ég segja það eitt að þó að það hefði verið gaman að ná þeim árangri að koma hér upp stóru álveri og fjölga störfum, þá held ég að hæstv. iðnrh. verði líka að hafa þrek til að snúa sér að hinum smærri verkefnum, að verja íslenskan iðnað þannig að flóttinn verði ekki jafnhraður og undanfarið. Menn tala um 1.000--2.000 störf sem tapast hafi. Við verðum að heimta þessi störf til baka.
    Hæstv. forseti. Ég tel að ef þeir þrír ráðherrar sem nú eru í salnum hefðu setið hér í allt kvöld væri lítið eftir af þessari umræðu. En því miður óttast ég að það geti farið svo að hún lengist ef svo fer sem horfir að ráðherrar telji að það sé ekki þess virði að staðaldri að hlusta á þingmenn af því að þeir séu í stjórnarandstöðu, af því að þeir séu leiðinlegir og uni illa því sem verið er að leggja til.