Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 02:34:41 (3874)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er afskaplega erfitt að spá fyrir af nokkurri nákvæmni um atvinnuleysi eins og menn vita og í sumum löndum varast menn að gera það. Til að mynda eru í Noregi ekki gefnar út slíkar tölur. Alþýðusambandið spáði fyrir ekki margt löngu síðan að atvinnuleysi kynni að verða 20--25% ef engar aðgerðir kæmu til. Eftir þessar aðgerðir er enginn að tala um þess háttar tölur. Það er auðvitað mergur máls. Menn eru að tala um að atvinnuleysi getið verið á bilinu 3--4,5%. Þetta er innan skekkjumarka. Menn eru

að tala um að atvinnuleysi verði hér miklu, miklu minna en í nálægum löndum, sem betur fer, en engu að síður meira en við kjósum að það verði. En ég lít þannig á að þessar aðgerðir séu fyrsta skref til þess að sporna við slíkum þáttum.
    Ég vek athygli á því að menn tala eins og hv. þm. gerði um skattahækkanir og las þar upp úr vikublaði sem komið er út um það efni. Þar var því miður forðast að draga frá skattalækkanir á móti sem auðvitað er nauðsynlegt að gera.
    Við vitum hins vegar, og það er meginefnið sem kom fram hjá Alþýðusambandi Íslands, að meðan jafnmargir í landinu sleppa við að borga sinn hluta af skattheimtu landsins, þá verða skattar hærri. Það er auðvitað brýnasta verkefnið að ná til skattsvikara. Ef 10 þúsund manns stela undan skatti 1 millj. til að mynda, sem er að vísu gríðarlega há upphæð, þá eru það 10 milljarðar kr. Sumir giska á að slíkum upphæðum sé stolið undan skatti. Það eru þess vegna skattsvikararnir í landinu sem halda uppi skattstiginu og það er brýnasta verkefnið að ná til slíkra aðila.