Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 02:37:39 (3876)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Þetta sem hv. þm. sagði nú síðast er auðvitað hárrétt hjá honum. Ég vek athygli á því að ríkisstjórnin hefur einmitt verið gagnrýnd fyrir það að vilja ekki hækka hátekjuskattana enn þá meira og jafnvel hafa hærri prósentu á þeim sköttum og ekki launatengja ýmiss konar gjöld í enn þá ríkari mæli en gert hefur verið. Það er vegna þess að ríkisstjórnin óttast einmitt þetta sem hv. þm. nefndi réttilega að jaðarskattar geti orðið svo háir, og það hefur orðið reynslan erlendis, að þeir verði beinlínis vinnuletjandi. Þessu þurfa menn auðvitað að gæta vel að. En meginverkefnið hlýtur að vera það að koma böndum yfir þá aðila sem svíkja undan skatti, jafnvel stórar upphæðir, og stuðla þannig að því að skattstigið á Íslandi verði hærra. Það eru þessir aðilar sem eru verstu óvinir lágtekjufólksins og slíkum aðilum þurfa menn auðvitað að koma böndum yfir.