Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:13:15 (3895)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Við erum hér komnir að þeim kafla þar sem kveður á um hækkun á virðisaukaskatti eða að taka upp nýtt 14% skattstig, m.a. á ferðaþjónustu. Að mati okkar í minni hluta efh.- og viðskn. leiða þær breytingar á virðisaukaskatti sem fyrirhugaðar eru til aukinnar óvissu í atvinnumálum. Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að breytingin muni ekki skila þeim tekjuauka sem ætlunin er, m.a. vegna minnkandi umsvifa í atvinnulífinu og við höfum reyndar fengið staðfestingu á þeirri skoðun okkar með úttekt Þjóðhagsstofnunar.
    Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu mun leiða til samdráttar í atvinnugreininni og fækka störfum á tímum vaxandi atvinnuleysis. Það er óskynsamleg ráðstöfun að stöðva þannig helsta vaxtarbrodd í íslensku atvinnulífi. Það er vaxandi samkeppni um ferðamenn í heiminum, en þessi unga atvinnugrein Íslendinga hefur átt við byrjunarörðugleika að stríða.
    Í umsögnum um málið kemur eftirfarandi fram, m.a. frá VSÍ.
    ,,Það væri grátbroslegt framlag stjórnvalda til atvinnuuppbyggingar og í reynd sértæk skattheimta á það sem menn vona nú að geti orðið vaxtarbroddur í atvinnumálum framtíðarinnar. Þessi skattheimta má ekki ganga fram eins og boðið er því hækkun á borð við tveggja ára verðbólgu í OECD hlýtur að leiða til kyrkings í atvinnugreininni.``
    Í umsögn Félags íslenskra ferðaskrifstofa segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Því harmar Félag íslenskra ferðaskrifstofa að um leið og áralöng barátta ferðaþjónustu á Íslandi fyrir jafnræði gagnvart öðrum gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum hvað varðar aðstöðugjöld og tryggingargjöld er að bera árangur er sá ávinningur samtímis dreginn til baka og gott betur með álagningu virðisaukaskatts.``
    Og áfram segir, með leyfi virðulegs forseta, í umsögn Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda:
    ,,Á haustmánuðum fóru fram viðræður við fulltrúa stjórnvalda um það hvernig hægt væri að bæta rekstrarskilyrði ferðaþjónustu í síaukinni samkeppni á alþjóðavettvangi. Það er því mikið áfall fyrir ferðaþjónustuna að svarið skuli vera aukin skattheimta.``

    Með tilliti til þessa mun ég greiða atkvæði gegn þessari hækkun á virðisaukaskattinum.