Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:19:51 (3897)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að sú ákvörðun síðustu ríkisstjórnar að fella niður virðisaukaskatt af bókaútgáfu hefur haft stórfelld jákvæð áhrif á bókaútgáfu og reyndar menningarstarfsemi almennt á Íslandi, ekki aðeins á sviði ritlistar og bókaútgáfu. Nú er gert ráð fyrir að taka upp virðisaukaskatt á bókum og tímaritum og taka inn af því mörg hundruð millj. kr. Mér telst svo til að sú innheimta í ríkissjóð á bókum og bókaútgáfu, sem hér er gert ráð fyrir, jafngildi því að strika út fjárveitingar úr ríkissjóði, sérstaklega til eftirfarandi liða:
    Til Kvikmyndasjóðs. Allur liðurinn Listir, framlög er strikaður út. Listskreytingasjóður er strikaður út. Allt framlagið til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og allt fram lagið til Þjóðleikhússins.
    Með öðrum orðum er gert ráð fyrir að menningarstarfsemin sjálf fjármagni framvegis alla þessa liði. Þetta jafngildir því að það sé verið að strika út framlög til þessara mikilvægu menningarþátta. Við hljótum að mótmæla þessu, virðulegi forseti, ekki síst á þeim tímum þegar gert er ráð fyrir því af núv. ríkisstjórn að stóraukin verði samskipti við erlenda aðila með ýmsum hætti og þá ríður á að menningarstarfsemin í landinu sé sem allra öflugust. Hér er með öðrum orðum uppi tillaga af hálfu ríkisstjórnarinnar um að veikja

grundvallarforsendur íslenskrar menningar, vaxtarmöguleika hennar og getu. Þess vegna hljótum við að sameinast um að segja nei og áskiljum okkur rétt til þess að beita okkur fyrir því á síðari stigum að taka það upp á ný að þessi þáttur menningarstarfseminnar verði ekki látinn greiða óbeina skatta.