Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:22:38 (3898)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Í rúma tvo áratugi hefur ekki verið lagður söluskattur og síðar virðisaukaskattur á orku til húshitunar. Fyrir því eru gild rök vegna þess hversu breytilegur þessi kostnaður er eftir landsvæðum. Með þessari tillögu er verið að leggja auknar byrðar á þá sem mestan kostnað bera fyrir og auk þess eru þær byrðar misjafnlega þungar. Með þessari tillögu hefur ríkisstjórnin sýnt þjóðinni hvað hún meinar með loforðunum um lækkun húshitunarkostnaðar. Stjórnarandstaðan mótmælir þessari tillögu og mun greiða atkvæði gegn henni.