Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:29:15 (3901)

     Geir H. Haarde (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. hv. síðasti ræðumaður var ekki nema að litlu leyti að fjalla um þá atkvæðagreiðslu sem fram undan er varðandi 43. gr. Hann var í raun og veru að óska eftir fundarhléi í miðri atkvæðagreiðslu. Ég tel að það sé algjörlega ástæðulaust að gera það. Það er rétt sem hann sagði sjálfur, hv. þm. Ólafur

Ragnar Grímsson, að með þeirri samþykkt sem hér var gerð fyrir stundu hefur verið ákveðið í þessu frv. að taka upp virðisaukaskatt á þá liði sem þar var um að ræða. Ef 43. gr. verður ekki samþykkt þá fellur fullur skattur, 24,5%, á þá liði. Það er því alveg skýrt að með því að afgreiða þessa grein, 43. grein, kemur til framkvæmda sú tillaga að skatturinn þarna verði 14%. Þeim sem er annt um þessar greinar, eins og okkur er væntanlega öllum, ætti því að vera það ljóst að þar er um að ræða stuðning við þessar greinar frá þeirri stöðu sem málið er í nú á þessu augnabliki. Ég held að það sé skynsamlegt að ljúka þeirri atkvæðagreiðslu sem fyrst og tryggja 14% skatt í staðinn fyrir 24,5%.