Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:39:10 (3909)

     Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Það fara fram hér ákaflega strákslegir ef ekki ómerkilegir tilburðir til þess að drepa þessu máli á dreif. Afstaða manna liggur alveg ljós fyrir, stjórnarandstaðan er andvíg þessari skattlagningu, hún er andvíg 24,5% virðisaukaskatti á bækur og hún er líka andvíg 14% virðisaukaskatti á bækur og getur því sannfæringu sinni samkvæmt ekki greitt atkvæði öðruvísi en gegn greinum í þessu frv. sem fela í sér skattlagningu, hvort sem prósentan er þar lægri eða hærri. Þetta ættu þingreyndir menn að skilja. Við vitum að hæstv. forsrh. er reynslulaus og fyrirgefum honum þess vegna barnaskapinn og misskilninginn, en það er öllu lakara að reyndari menn eins og hæstv. fjmrh. skuli hafa þetta í flimtingum.
    Ég bendi líka hv. formanni þingflokks Sjálfstfl. á það að hér er verið að vinna með málið á Alþingi. Það er ekki orðið að lögum og eftir er 3. umr. Færi svo að þessi grein félli en hin stæði sem áður var samþykkt þá væri enn tækifæri til að rétta málið af. Það mætti hugsa sér að skattlagningin gæti orðið einhver önnur prósenta eða félli alveg niður.
    Hitt er svo mér nokkurt umhugsunarefni að það skuli vera svona létt yfir stjórnarliðinu og hæstv. ráðherrum við einmitt þessar atkvæðagreiðslur. Það skuli vera þeim slíkt gleðiefni, hæstv. ráðherrum, að vera að reisa sér þessa níðstöng í íslenskri menningarsögu að leggja nú á nýjan leik virðisaukaskatt á bækur að þeir hafi það í flimtingum og séu hér glottandi með strákslegar athugasemdir einmitt við þá atkvæðagreiðslu.