Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 13:44:13 (3910)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ef af þessari skattlagningu verður sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á Alþingi áforma nú munu dýrustu fargjöld í innanlandsflugi miðað við núverandi verðlag og að álagðri þessari skattlagningu fara yfir 20.000 kr. Dýrasta rútufargjald á leið eins og Reykjavík um Höfn til Egilsstaða með fjörðum fer í 14.000 kr.
    Ég held að það séu flestir sammála um að það sé hvorki réttlátt né skynsamlegt að skattleggja þessa þjónustu. Það eykur á aðstöðumun fólks í landinu og dregur úr og takmarkar möguleika þeirrar atvinnugreinar Íslendinga, ferðaþjónustunnar, sem mestar vonir hafa verið bundnar við á undanförnum árum til nýsköpunar. Þetta er því að flestra dómi, eins og fram kemur í umsögnum, afar óskynsamleg skattlagning. Óréttlátur skattstofn og vond fjárfesting fyrir framtíðina hjá okkur Íslendingum. Það eru auðvitað dapurleg örlög hæstv. samgrh. að þurfa að standa að þessari aðgerð, manni sem hér á Alþingi fyrir nokkrum árum síðan barðist fyrir því að létt yrði sköttum af ferðaþjónustunni og starfsskilyrði hennar bætt.
    Ég segi því nei, hæstv. forseti, ég er sannfærður um að þessi skattlagning eru mikil mistök sem menn hljóta að reyna að leiðrétta á næstu árum ef af verður nú.