Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 14:06:53 (3919)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en komið hér og mótmælt þessari skattlagningu sem menn ætla að taka upp. Það hefur verið rökstutt í greinargerðum hér á undan með hvaða hætti þetta kemur við þá sem eiga hlut að máli, þ.e. menn eru auðvitað að hækka hjá öllum sem greiða fyrir þessa orku og það bætist jafnmikið ofan á hæstu reikningana eins og aðra reikninga. Það eru einungis þeir sem búa við lægstu taxtana sem fara betur út úr þessu, þeir sem búa við allægstu hitaveiturnar borga minnst í þennan skatt. En auðvitað er allur skatturinn fáránlegur og það er satt að segja alveg furðulegt að menn skuli hafa rökstutt það með því að það væri of flókið að hafa þetta ekki með í skattlagningunni. Er þá ekki flókið að búa til eitthvert endurgreiðslukerfi sem hér á að vera í gangi? Það hlýtur að kosta eitthvað líka. Auðvitað hefðu menn átt að láta vera að leggja þennan nýja skatt á og bæta ofan á allt of háa orkureikninga hjá mörgu fólki þegar það er líka rifjað upp að ríkisstjórnin hefur verið með yfirlýsingar um það að hún ætli sér að jafna orkukostnað landsmanna niður, að minnka hann, þá gengur hún fram í hækkunum af þessu tagi. Hún hefur gengið fram í hækkunum á annarri orku líka, en samt halda menn sömu ræðurnar aftur og aftur um það að þeir séu að standa í því að lækka orkuverð. Ég er mjög undrandi á að sjá það sem komið hefur fram við þessa atkvæðagreiðslu að þeir menn skuli standa að því að bæta þessum skatti ofan á allt of há gjöld sem hér hafa þegar greitt atkvæði með þessari tillögu. Ég mótmæli þessu og segi nei.