Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 14:18:41 (3923)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hér er tillaga um það að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu manna við íbúðarhúsnæði á byggingarstað. Það er rétt fyrir hv. alþm. að gera sér grein fyrir afleiðingum þessarar samþykktar. Hún mun leiða til þess að mati Þjóðhagsstofnunar að byggingarvísitala mun hækka um 3% og lánskjaravísitala mun því hækka um 1%. Skuldir ríkisins munu við þessa ákvörðun hækka um 600 millj., verðtryggðar skuldir ríkisins. Íbúðarlánasjóðirnir hafa lánað út á annað hundrað milljarða. Það má því reikna með að skuldir við þessa sjóði hækki við þessa einu ákvörðun um rúman milljarð. Það hafa verið gefnir út níu flokkar af húsbréfum upp á tæpa 40 milljarða og þau húsbréf hækka við þessa ákvörðun um 400 millj. Síðan munu að sjálfsögðu eignir þeirra sem eiga peninga hækka að sama skapi. Þetta er ekki í neinu samræmi við ástand þjóðfélagsmála og lýsir best hversu röng verðtryggingin er við þessar aðstæður.
    Ég vil jafnframt benda á umsögn Landssambands iðnaðarmanna en þar segir m.a.: ,,Ekki bætir úr skák að í þessu frv. er vegið að hag húsbyggjenda og byggðingariðnaðarins úr mörgum fleiri áttum, þ.e. með skerðingu vaxtabóta, skerðingu skattfrádráttar vegna húsnæðissparnaðarreikninga og sérstakri skattpíningu og órökréttum skattareglum varðandi atvinnurekstur í eigin nafni.`` Þetta er dæmi um viðbrögð sem eru í þjóðfélaginu vegna þessa máls og sýnir best hversu rétt athugasemd Vinnuveitendasambands Íslands er í þessu máli. Ég vildi gera grein fyrir þessari afstöðu minni hlutans og við munum greiða atkvæði gegn þessari grein frv.