Skattamál

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 14:26:21 (3925)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur verið samstaða um það með þjóðinni að skattlagning á umferð eigi að bera upp vegagerð í landinu. Ég taldi að um það væri víðtæk pólitísk samstaða. Hún er nú smám saman að verða minni og minni eftir því sem þessi ríkisstjórn gengur lengra í þeirri stefnu sinni að skerða fé til vegagerðar. Það er þannig að í fjárlagafrv. er 344 millj. kr. skerðing á mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar og núna er í viðbót sett á þessa tekjustofna sérstakt gjald, bensíngjald upp á 780 millj. kr. Samtals eru því af þessum stofni teknar 1.124 millj. kr. Á sama tíma boðar ríkisstjórnin sérstakt átak í vegamálum sem hún að vísu lækkaði úr 1.800 millj. núna í þessum fyrirætlunum niður í 1.550 millj. Þetta á að vera lán sem á síðar að greiða af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar. Þetta eru fáránlegar hundakúnstir sem menn eru að gera hér, að nota ekki eðlilegar tekjur af fé til vegagerðar í vegagerð. Í staðinn eru tekin lán sem á að greiða síðar til baka. Ég mótmæli þessu og segi nei við þeirri skattlagningu sem hér er verið að ákveða og fer fram á það að menn taki til endurskoðunar þessi vinnubrögð því það gengur náttúrlega ekki að halda áfram á þessari braut. Það sem ríkisstjórnin var að hæla sér af hér í haust, um átak til vegagerðar, er orðið að hlægilegum brandara með þessum hætti.