Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 15:08:25 (3931)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (frh.) :
    Herra forseti. Þegar ég gerði hlé á ræðu minni fyrir hádegið var ég staddur í þeim kafla álits minni hluta fjárln. sem fjallaði um tekjuhlið fjárlaga. Ég hafði lokið við að gera grein fyrir þeim skattaálögum sem öllum almenningi í landinu eru ætlaðar, jólagjöfum ríkisstjórnarinnar til allra þar sem enginn er undanskilinn en ég var kominn að þeim kafla í nál. sem fjallar um viðbótarjólagjafirnar sem eru ætlaðar þeim sem þurfa að fara til tannlæknis, þeim sem þurfa að kaupa lyf, greiða meðlag eða eiga börn, en þá á ég við þær breytingar sem liggja fyrir Alþingi í frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og fela í sér þessar viðbótarjólagjafir til þessara hópa í þjóðfélaginu. Það mun reyndar verða gerð nánar grein fyrir þessum jólapökkum síðar í umræðunni þannig að ég get stytt mál mitt um þetta hér í upphafi þegar ég tala fyrir áliti minni hluta fjárln. En auðvitað eru aðfarirnar við þetta mál kapítuli út af fyrir sig og væru reyndar efni í langa ræðu, sem ég ætla þó ekki að flytja að sinni. Því það er eins með þetta mál og svo mörg önnur sem varða þetta frv. að þar stendur engin ákvörðun lengur en daginn, kannski í mesta lagi svona tvo daga eða yfir eina helgi, þannig að eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá hefur þetta verið nefndinni mjög erfitt í hennar störfum.
    Önnur atriði sem varða tekjuhlið fjárlaga vildi ég aðeins minnast á. Það er ætlað að hafa tekjur af arðgreiðslum frá orkufyrirtækjum. Þær breytingar sem voru gerðar milli 2. og 3. umr. í því máli voru þær að arðgreiðslur Landsvirkjunar sem voru áætlaðar 100 millj. kr. voru felldar niður, en arðgreiðslur Rafmagnsveitna ríkisins sem voru 30 millj. kr. halda sér. Ástæðan fyrir niðurfellingunni á Landsvirkjun var vafalaust slæm staða afkoma þess fyrirtækis en það er afar sérkennileg ákvörðun að gera Rafmagnsveitum ríkisins að greiða 30 millj. kr. í arð því auðvitað kemur það fram í verði á orku frá Rafmagnsveitum ríkisins og er þó ekki á bætandi. Eins og síðar verður að vikið eru Rafmagnsveiturnar með mjög mikil verkefni í höndunum vegna viðhalds dreifilína á því svæði.
    Í tekjuhliðinni eru líka áætlanir um að afla 1.500 millj. kr. tekna með sölu ríkiseigna. Það skýrðist ekkert við þessa yfirferð fjárln. fyrir 3. umr. hvort þessar 1.500 millj. í tekjur af sölu ríkiseigna ganga eftir. Það voru sett áform um miklar tekjur af sölu ríkiseigna á yfirstandandi ári, um 500 millj. kr., það stóðst ekki. Nú er þessi upphæð þrefölduð og skilyrði fyrir því að þessi upphæð gangi eftir er sú að það takist

að selja lánastofnanir í eigu ríkisins. Það er skilyrði fyrir þessu að það takist að selja Búnaðarbankann. Nú væri fróðlegt að heyra það frá hv. stjórnarliðum í þessari umræðu og hæstv. fjmrh. hvort nú er komið samkomulag í ríkisstjórnarflokkunum um að selja lánastofnanir. Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. félmrh. einnig hvort nú er samkomulag um þetta atriði. Ég man ekki betur en að hæstv. félmrh. hafi lýst sig algjörlega andvígan þessari sölu og munar um minna, enda hefur sú sala ekki gengið eftir enn þá vegna andstöðu eins ráðherra í ríkisstjórninni. Þar er ekki um neinn óbreyttan þingmann að ræða þannig að það væri mikilvægt að fá það upplýst við þessa umræðu og mundi þá skýra hvort þessi upphæð stendur ef það fengist fram. Það skiptir líka miklu máli hvort þessi upphæð skilar sér vegna þess að í frv. eru sérstök ákvæði um það að 330 millj. kr. sem ætlunin er að verja til rannsóknaverkefna til Rannsóknasjóðs, Vísindasjóðs og Rannsóknaráðs skilyrt því að þessi sala gangi eftir.
    Í fylgiskjali III með nál. fylgja ítarlegar upplýsingar um útgjöld til rannsókna- og þróunarverkefna og hvernig staða þeirra mála er. Þar fylgja upplýsingar í súluritum um framlög til Rannsóknasjóðs og fjárveitingar ríkisins til rannsóknastofnana. Það er mjög brýnt við þær aðstæður sem nú eru í atvinnumálum að efla þessa starfsemi og framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs og formaður þess komu til viðtals við nefndina þar sem ítarlega var farið í gegnum þau mál. Þeir bundu miklar vonir við þessa fjárveitingu sem er skilyrt, en er þó engin vissa um að komi til. Hún er algjörlega háð því hvort þessar 1.500 millj. kr. tekjur skila sér. Það er rétt að þetta komi mjög skýrt fram við þessa umræðu því þegar talað er um aukið fjármagn til rannsókna og þróunar þá er þessi fyrirvari fyrir hendi og hann er háður meiri óvissu heldur en liggur í augum uppi vegna þess ósamkomulags sem hefur verið í stjórnarliðinu um þessi mál. Þar að auki er engin samstaða um það í þjóðfélaginu að selja þessar bankastofnanir en það er önnur saga sem ég ætla ekki að rekja nánar núna.
    Nefndin fékk greinargerð frá Þjóðhagsstofnun um helstu breytingar á efnahagshorfum frá því að greinargerð stofnunarinnar var gefin út þann 23. nóv. sl. í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í atvinnumálum. Í greinargerðinni kemur fram að atvinnuleysi er meira en gert var ráð fyrir og fer sívaxandi. Af þessu leiðir tvennt: Í fyrsta lagi að útgjöld ríkissjóðs vaxa vegna aukinna atvinnuleysisbóta og tekjur dragast saman vegna minnkandi veltu.
    Um önnur atriði varðandi tekjuhliðina vísast í álit minni hluta efh.- og viðskn. sem er afar ítarlegt og ekki síður þau fylgiskjöl sem fylgja því áliti, en það álit er samkvæmt þingsköpum birt sem fylgiskjal með áliti meiri hluta fjárln.
    Ef ég vík svo að gjaldahlið frv. þá flytur nefndin sameiginlega nokkrar tillögur til hækkunar og lækkunar á gjaldahlið frv. Formaður fjárln., hv. 6. þm. Reykn., var nokkuð hreykinn af því áðan að fjárln., meiri hluta fjárln. sérstaklega, hefði gengið í það verk að skera niður útgjöld um 900 millj. kr. Það er ekki allt sem sýnist í þeim efnum því að 400 millj. kr. af þessum niðurskurði, sem hv. formaður fjárln. var svo hreykinn af, voru aldrei til nema í hugmyndum ríkisstjórnarinnar, það var aldrei komið inn í frv. Þetta var í því fólgið að byggja upp loftkastala, dreyma dagdrauma og skera þá svo niður einn góðan veðurdag. Hins vegar var svo farið í ýmsa liði aðra og nokkur atriði tínd til, þegar búið var að skera niður til viðbótar vegagerðaráformin sem ríkisstjórnin birti í haust og voru inni í fjárlagafrv., um 250 millj., þá eru komnar 650 millj. Þá voru 250 millj. eftir sem voru teknar hér og þar, lækkaðar heimildir 6. gr. og tekin nokkur atriði og tíndar 10--15 millj. af nokkrum þáttum. Við minnihlutamenn gátum vel verið sammála þeim þáttum því að við álítum að það þurfi vissulega að hafa aðhald eins og nú standa sakir þannig að við erum sammála þeim niðurskurði nema við tökum ekki þátt í þeim leikfléttum sem varða yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og áform hennar um atvinnuskapandi aðgerðir sem svo er horfið frá einn góðan veðurdag í einu vetfangi. Við tökum ekki þátt í þeim hringlandahætti.
    Varðandi gjaldahliðina er ljóst að það er algjör óvissa um hve háa upphæð Jöfnunarsjóður sveitarfélaga þarf að greiða til Innheimtustofnunar sveitarfélaga vegna aukinna vanskila sem stafa af hækkun meðlagsgreiðslna sem fylgja frv. til laga um almannatryggingar. Samskipti ríkisins og sveitarfélaganna halda áfram að vera með miklum eindæmum og það mætti í rauninni tala langt mál um þann þátt en ég vil drepa á eitt eða tvö atriði. Einn þátturinn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. nóv. var sá að framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga yrði skorinn niður og framlag til Jöfnunarsjóðsins yrði lækkað um 110 millj. Það kemur fram í ályktunum frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga frá 11. des. að það hefur ekki verið haft samráð með fullnægjandi hætti við sveitarfélögin um þetta mál og þetta brýtur algjörlega í bága við þann griðasáttmála sem formaður Sambands ísl. sveitarfélaga gerði við forsrh. og félmrh. þann 10. okt. sl. Hér segir í ályktun stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 11. des., í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga frá 10. okt. sl. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Aðilar eru sammála um að framvegis verði tillögur um meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem kveðið er á um í lögum eða gert hefur verið sérstakt samkomulag um, teknar til umfjöllunar í sérstakri samráðsnefnd þeirra.`` --- Síðan segir: ,,Aðgerðir ríkisstjórnarinnar ganga þvert á nýgert samkomulag. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga krefst þess að ríkisstjórnin hverfi frá öllum áformum um að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Mikilvægt er að hann geti áfram og að óskertu gegnt sínu þýðingarmikla jöfnunarhlutverki. Nú er þegar óskað eftir formlegum viðræðum við ríkisstjórnina um þetta mál.``
    Þannig standa sakir varðandi griðasáttmálann sem gerður var þann 10. okt. að þann 11. des. sjá forráðamenn Sambands ísl. sveitarfélaga sér þann eina kost vænstan að biðja aftur um viðræður við ríkisstjórnina um þessi samskipti. Og það er ekki nóg með þetta heldur er ljóst að hækkanir meðlagsgreiðslna munu auka mjög vanskil í Innheimtustofnun sveitarfélaga og auka greiðslur Jöfnunarsjóðs til Innheimtustofnunarinnar.
    Við fengum af því fregnir í hv. félmn., sem ég á sæti í jafnframt fjárln., að einhverjar viðræður hefðu farið fram milli formanns Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar um að þak á greiðslum Jöfnunarsjóðsins til Innheimtustofnunar ætti að vera 300 millj. Við fengum af þessu óljósar fregnir í fjárln. en ekkert sem hönd má festa á og ljóst er þó að það gangi eftir að allt þar umfram verður að greiðast úr ríkissjóði. Um málefni Jöfnunarsjóðsins og fjárútlát ríkissjóðs í tengslum við Jöfnunarsjóðinn er því fullkomin óvissa. Þetta mál er allt saman eitt spurningarmerki á gjaldahliðinni og sannleikurinn er sá að samskiptin við sveitarfélögin eru að verða eitt allsherjarklúður vegna þess að það er alveg sama þó að gert sé samkomulag, undirritað af ráðherrum og forustumönnum sveitarfélaga, þá er hafist handa strax og blekið er þornað við að reyna að komast hjá því að uppfylla þær sjálfsögðu samskiptareglur sem eiga að vera þar á milli.
    Það vakti nokkra undrun þegar við vorum í miðjum klíðum að vinna fjárlagafrv. að þá birtist viðtal við hæstv. fjmrh. í Morgunblaðinu, þann 13. des. þar sem hann segir að þessari fjárlagavinnu sé alls ekki lokið, það séu veigamiklar breytingar fram undan, og hann tekur til ýmsa þætti í heilbrigðismálum og húsnæðismálum sem þurfi að taka á, svona svipað og gert hafi verið í landbúnaðarmálum og er það vafalaust kveðja til hæstv. ráðherra Alþfl. sem fara með þessi mál.
    Ég kem nánar að því síðar hvernig var tekið á húsnæðismálunum en áður ætla ég að minnast á nokkrar B-hluta stofnanir og kem þá fyrst að Lánasjóði ísl. námsmanna. Framkvæmdastjóri hans kom á fund nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Það er nú svo að vegna gengisbreytinga og verðlags þurfa fjárveitingar til lánasjóðsins að hækka um 92 millj. kr. og er þessu mætt með aukinni fjárveitingu, um 50 millj. kr. auknum lántökum sjóðsins. Stjórn lánasjóðsins leggur til að rekstrarkostnaður hækki úr 73 millj. kr. í 87 millj. Þetta er í kjölfar breyttra laga og úthlutunarreglna sem hafa í för með sér sérstakt vinnuálag og hafa kallað á kerfisbreytingar í ár og á næsta ári. Það var ekki orðið við þessari hækkun en breytt lög og úthlutunarreglur lánasjóðsins hafa orðið til þess að gera námsmönnum með lítil efni ókleift að stunda nám þannig að margir hafa orðið að hverfa frá námi og margir hafa ekki byrjað. Það er sorgarsaga í sjálfu sér. Auk þess hefur þessi breyting kostað ómælda fjármuni. Og það eru ekki lagðir fram fjármunir til að standa straum af henni þannig að þó þetta sé ekki há upphæð miðað við allar þær milljónir sem eru í lánasjóðnum þá kemur það auðvitað á lánasjóðinn að standa straum af þessu með einhverjum hætti.
    Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að gjaldskrá Ríkisútvarpsins verði hækkuð um 4%. Áætlanir forráðamanna stofnunarinnar gera ráð fyrir 10% hækkun. Og það verður að geta þess þrátt fyrir ræðu formanns fjárln. hér í morgun að aldrei kom til framkvæmda 4,5% galdskrárhækkun sem fjárlög þessa árs gerðu ráð fyrir og áætlanir voru miðaðar við. Í frv. er gert ráð fyrir samdrætti í rekstri stofnunarinnar sem nemur um 30 millj. kr. Það er mjög ámælisvert út af fyrir sig að neitað sé um að láta hækkanir, sem ákveðnar eru í fjárlögum og stofnanir miða sínar áætlanir við, koma til framkvæmda. Það segir sig náttúrlega sjálft að það er miklum erfiðleikum bundið svo ekki sé meira sagt að reka stofnanir með þeim hætti.
    Þá kem ég að framlagi til Byggingarsjóðs verkamanna og að því hvernig húsnæðismálin eru leyst í þessu frv. Framlag til Byggingarsjóðs verkamanna var lækkað um 50 millj. kr. Og það er nú hin furðulegasta leikflétta hvernig er farið að því, eins og segir í nál., ,,að halda uppi óbreyttum framkvæmdum þrátt fyrir þennan niðurskurð``. Það er farið þannig að því að útlán Byggingarsjóðs ríkisins til dagvistarheimila fyrir börn og aldraða eru lækkuð um 50 millj. kr. og lántökur Byggingarsjóðs ríkisins lækka um þessa upphæð. Á móti eru lántökur Byggingarsjóðs verkamanna hækkaðar um 50 millj. kr. og ríkisframlagið til sjóðsins lækkað um 50 millj. á móti. Þannig er farið að því að halda uppi fullum dampi eftir því sem menn segja. Jafnframt hafa hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. gefið félmrh. það loforð að á árinu 1994 verði framlag til Byggingarsjóðs verkamanna aukið á ný. Þetta eru sannarlega hinar furðulegustu leikfléttur og kúnstir. Það er greinilegt að þetta hefur verið kokkað á einhverjum næturfundum í Stjórnarráðinu. Það er áreiðanlegt að hæstv. fjmrh. hefur orðið dálítið örðugt að ná fram þessum 50 millj. Enda sendi fjmrn. minnisblað þann 14. des. þar sem gerð er grein fyrir þessum málum og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Við fjárlagagerð 1991 vegna 1992 var fallist á tillögu félmrh. og aðstoðarmanns fjmrh. varðandi úthlutun á fjölda félagslegra íbúða, framlag ríkissjóðs, lánskjör og leiðir til að draga úr vaxtamun inn- og útlána.``
    Þar kom m.a. fram að framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna verði 1.000 millj. kr. árið 1992 og við það miðast --- og takið nú eftir --- af hálfu ríkisstjórnarinnar að sú fjárhæð haldist sem árlegt framlag til frambúðar. Ég veit ekki hvernig hæstv. fjmrh., sem er ekki í salnum núna og vildi ég mælast til að hann yrði aðvaraður um að vera hér og hlusta á þessa umræðu. Ég veit ekki hvernig hæstv. fjmrh., þó ég viti að hann hafi átt í miklum örðugleikum í þessu efni, ætlar að efna það að þetta framlag haldi sér til frambúðar. Ég veit ekki til að hann hafi umboð nema fram að næstu kosningum og hann getur varla lofað að þetta fjárframlag haldist fyrir komandi kynslóðir. Og það er klikkt út með þeirri setningu að árið 1994 verði framlag Byggingarsjóðs verkamanna hins vegar aukið þannig að kleift verði að standa við samþykkt ríkisstjórnarinnar sem kynnt var húsnæðismálastjórn þann 26. maí sl.
    Forsvarsmenn Rafmagnsveitna ríkisins komu á fund fjárln. en lakari afkomu Rafmagnsveitnanna er mætt

með 4% gjaldskrárhækkun. Það er hins vegar ljóst að verulegur vandi blasir við vegna styrkingar flutningslína í sveitum á milli byggðarlaga á svæði Rafmagnsveitnanna. Forsvarsmenn Rafmagnsveitnanna lögðu fram ítarlegar tillögur sem birtast í fskj. IV með áliti minni hluta fjárln. þar sem settar eru fram ýmsar hugmyndir um fjáröflun vegna þessarar styrkingar og upplýsingar um fjárfestingu og fjárfestingarþörf. En þar kemur m.a. fram að ef mæta á þessari þörf með því að hækka eingöngu gjaldskrá hjá þeim aðilum sem eru notendur hjá umræddum dreifikerfum þá þyrftu taxtar Rafmagnsveitna ríkisins að hækka um 25--30%, en ef það ætti að vera flöt hækkun á alla gjaldskrárliði fyrirtækisins væri hækkunarþörfin 6%. Þar eru einnig hugmyndir um að fjármagna þetta með verðjöfnunargjaldi innan orkugeirans og dreifa þessum miklu verkefnum á rekstur orkugeirans allan. En auðvitað þarf að taka á í þessum efnum.
    Það hefur komið fram í umræðum hér á Alþingi að þau fjárframlög sem eru til þessara verkefna á fjárlögum eru ekki nema hér um bil einn tíundi af þörfinni og við höfum á hverjum einasta degi fréttir af því að þessar dreifilínur fari niður og rafmagnstruflanir séu mjög miklar, síðast í gær þar sem rafmagnstruflanir voru og miklar bilanir um allt austanvert landið og Suðausturland. En það er í þessu efni ein ljósglæta að nýjustu línurnar milli byggðarlaga, eins og byggðalínan sem er byggð eftir strangari kröfum, standast og er sáralítið um bilanir á þeim.
    Fjárlagafrv. fyrir árið árið 1993 kemur nú til lokaafgreiðslu. Sumar breytingar sem gerðar hafa verið á frv. einkum á tekjuhlið þess valda mikilli röskun á högum almennings í landinu. Metur Þjóðhagsstofnun kaupmáttarrýrnunina um 4,5% en í spám Alþýðusambands Íslands um sama efni er þetta mat miklu hærra og metur ASÍ kaupmáttarrýrnunina allt að 7%. Verðbólguspá Þjóðhagsstofnunar er um 4%, en ASÍ telur að verðbólgan verði nokkuð meiri. Spá Þjóðhagsstofnunar frá því í október gerir ráð fyrir 4% atvinnuleysi á árinu 1993. Nýjustu upplýsingar benda til að þetta hlutfall eigi eftir að hækka og vinnur Þjóðhagsstofnun nú að endurskoðun á spá sinni um atvinnuleysi í tengslum við heildarendurskoðun á þjóðhagsspá fyrir næsta ár. Af þessari heildarendurskoðun hafa verið nokkrar fréttir. Það hafa fengist nokkrar vísbendingar, m.a. hefur forstjóri Þjóðhagsstofnunar mætt á fund fjárln. til að gera grein fyrir horfunum, og þær eru ekki bjartar. Í minnisblaði frá Þjóðhagsstofnun til fjárln., dags. 17. des. sl., og er fskj. I með þessu nál., eru eftirfarandi lokaorð, með leyfi forseta:
    ,,Af þessu má sjá að flest af því sem hefur breyst frá fyrri áætlunum er ekki til uppörvunar. Það má því reikna með því að sú endurskoðun þjóðhagsspár sem nú er unnið að leiði til þess að dregin verði upp heldur dekkri mynd af horfunum en gert var í síðustu spá.``
    Þetta getur varla gefið ástæðu til bjartsýni um að fjárlagafrv. sé raunhæft plagg. Allra síst vegna þess að þetta plagg er þannig í eðli sínu að samþykkt þess og þeirra skattafrv. sem fylgja og var verið að afgreiða hér til 3. umr. núna rétt áðan mun auka deilur og sundurlyndi í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin hefur misst af gullvægu tækifæri sem hún hafði í haust til að ná víðtækri samstöðu í þjóðfélaginu. Það var það andrúmsloft um það leyti og rétt áður en Alþýðusambandsþing var haldið að það hefði verið möguleiki að ná víðtæku samkomulagi um nokkurs konar þjóðarsátt í þeim erfiðu málum sem fram undan eru. Ríkisstjórnin kaus ekki að fara þá leið, hún kaus að hlífa þeim sem hafa breiðu bökin, kaus að fresta því að leggja á fjármagnstekjuskatt. Í yfirlýsingunni frá 23. nóv. var skýrt tekið fram að hátekjuskattur væri takmarkaður og tímabundinn en það var einmitt þetta sem verkalýðshreyfingin lagði áherslu á að betur væri tekið á í þessu efni og frv. til laga um almannatryggingar hleypti auðvitað illu blóði í verkalýðshreyfinguna. Hér rignir inn harðorðum ályktunum, m.a. frá Verkamannafélaginu Dagsbrún sem oft hefur verið vitnað til hér og þar segir m.a. ,, . . .  ella fari ríkisstjórnin frá og Alþingi verði sent heim og efnt til nýrra kosninga eins og fram kom á fundinum og tekið var undir með lófaklappi``. Það rignir yfir okkur slíkum ályktunum þessa dagana. Og það sýnir að það er sprengiefni í þessum frv. sem við erum með í höndunum, fjárlagafrv., frv. til laga um breytingar á almannatryggingalögum og frv. um skattamál sem við vorum með hér rétt áðan. Ég hef einhvern veginn trú á því að ef ríkisstjórnin uggir ekki að sér þá springi þetta allt framan í hana einn góðan veðurdag. Við munum því í minni hlutanum sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þetta frv. Við sjáum ekki að þetta sé raunhæft plagg. Þetta er í rauninni stórhættulegt plagg sem við viljum ekki bera neina ábyrgð á.
    Minni hluti efh.- og viðskn. þingsins gengur enn lengra í áliti sínu um tekjuhliðina, leggur til að henni verði vísað til ríkisstjórnarinnar vegna þess hve hún er illa unnin.
    Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir áliti minni hluta fjárln. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993. Minni hlutinn mun sitja hjá, eins og ég hef áður sagt, við lokaafgreiðslu frv. en áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.
    Undir álit minni hlutans skrifa Guðmundur Bjarnason, Jón Kristjánsson, Guðrún Helgadóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.