Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 15:54:01 (3934)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Á forsætisnefndarfundi sem haldinn var fyrir nokkrum mínútum varð samkomulag um að leita leiða til að þessari umræðu mætti ljúka kl. 5, enda hefur hún verið ítarleg, og ég skal gera mitt til að reyna að stuðla að því að svo verði.
    Hv. 2. þm. Austurl. hefur flutt hér mjög ítarlega ræðu fyrir hönd minni hlutans í fjárln. og ég sé enga ástæðu til að endurtaka það sem hann sagði þar sem við höfðum haft gott samráð um samningu nál. minni hlutans. Afstaða okkar alþýðubandalagsmanna hefur verið mjög skýr varðandi það sem hér hefur verið að gerast í efnahagsmálum. Við erum á móti því að hert sé að almenningi í landinu á þann hátt sem gert hefur verið með niðurskurði í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu, almannatryggingakerfinu. Nú síðast fyrir nokkrum mínútum vorum við að auka enn álögur á fólk utan Reykjavíkur sérstaklega varðandi húshitun. Skattur hefur aftur verið settur á bækur og menningu og við erum auðvitað á móti því og þá ekki síður skatti á ferðaþjónustu og er satt að segja ekki séð fyrir endann á hver áhrif þetta hefur á ferðalög manna innan lands. Og eitt er víst, hæstv. forseti, að ég hygg að það væri ástæða til þess að líta á fjárhagsáætlun Alþingis. Ef fargjöld hér innan lands milli staða eiga að fara upp í 20 þús. kr., þá er ég hrædd um að við höfum vanáætlað fjárhagsáætlun fyrir Alþingi sjálft.
    Við höfum séð hvernig hefur farið fyrir jafnt grunnskólanum, framhaldsskólanum, háskólanum og þá ekki síst Lánasjóði ísl. námsmanna og við teljum að þetta séu vondar lausnir, þetta sé óæskileg tilfærsla fjármuna frá þeim sem litla fjármuni hafa til þeirra sem meiri fjármuni hafa og það teljum við rangt.
    Það er jafnframt ljóst að þó hér sé upp gefinn áætlaður halli á fjárlögum 6,1--6,4 milljarðar, þá er það með öllu óraunhæft. Ég vil minna menn á að langflestir kjarasamningar eru lausir frá áramótum og það er alveg ljóst að það verður órói á vinnumarkaðinum eftir það sem hér hefur gerst á þessu hausti, bæði vegna skattahækkana og niðurskurðar í velferðarkerfinu á öllum sviðum þannig að ég held að það sé alveg augljóst mál að um há fjáraukalög verði að ræða fljótlega eftir áramótin.
    Starfið í nefndinni hefur verið afar erfitt vegna þess að allt hefur breyst frá degi til dags, jafnt verðlagshorfur, þjóðhagsspá og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem hafa stundum verið tilkynning um niðurskurð sem síðan hefur verið hætt við og við höfum stundum orðið að bíða eftir því hverju við værum í raun og veru að skipta. Og ég get ekki annað en tekið undir ályktun eða bréf sem barst hér til þingsins frá frá hinum fjölmenna fundi í Verkamannafélaginu Dagsbrún þar sem því er haldið fram að stjórnarflokkarnir hafi svikið öll þau loforð sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar, skattar hefðu verið hækkaðir, eins og þar segir, stórkostlega með álagningu þjónustugjalda og hækkun lyfjakostnaðar og heilbrigðisþjónusta skert. Þetta er auðvitað allt saman rétt og satt og því miður er ég hrædd um að það verði órói og óánægja í landinu fljótlega upp úr áramótum og er raunar þegar orðin. En ég skal ekki hafa þennan almenna inngang lengri. Ég talaði við 2. umr. málsins og sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem ég sagði þá.
    Auðvitað er hægt að skera niður ríkisútgjöld, það er engin spurning um það. Ég hef margsinnis boðið mig fram til þess og bent á leiðir --- og ég sé að hv. þm. Einar Guðfinnsson hneigir höfuð sitt til samþykkis, enda sanngjarn maður. En það er eins og aldrei megi koma nálægt því sem ég kalla dauða peninga. Það þarf endilega að taka þá sem eru einhverjum til góðs. Og svo dæmi sé nefnt, þá liggur hér frammi tillaga frá okkur þremur alþýðubandalagsmönnum um að skera niður 100 millj. sem eiga að fara í nýtt hús Hæstaréttar og við leggjum til að það fari í grunnskólakerfið því að það er um það bil sú upphæð sem grunnskólakerfið vantar. Nú skal enginn halda að ég virði ekki Hæstarétt Íslendinga. En ég er sannfærð um að störf hans munu í engu skerðast þó að erfiðleikarnir í samfélaginu yrðu til þess að Hæstiréttur yrði að

bíða eftir nýju húsnæði um sinn. Auðvitað ber okkur að byggja hús yfir Hæstarétt þegar við mögulega getum. En ég sé enga brýna ástæðu til að gera það endilega núna.
    Svona má finna fé víða og oft er það nú einmitt svo að allar þessar kerfisbreytingar sem gerðar eru í miklu skyndi kosta ótrúlegt fé og það var kannski svolítið hráslagalegt að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna og stjórn hans fór fram á tugi millj. hækkun á fjárlögum vegna útgjalda við kerfisbreytingu og álags á starfsfólk. Þessu var neitað því að hv. þm. Karl Steinar Guðnason, formaður fjárln., sá að þetta náði auðvitað ekki nokkurri átt á sama tíma og verið er að herða svo að námsmönnum að 700 námsmenn hafa hrökklast frá námi eða 8% námsmanna á einu ári. Þannig liggja þessir peningar víða og það er auðvelt að finna þá og ég fæ ekki betur séð með lauslegum útreikningi en að þær skattabreytingar og kerfisbreytingar sem liggja hérna fyrir framan okkur í frumvörpum muni kosta íslenska ríkið ekki undir 50--60 millj. í kerfiskostnað. Þetta þykir mér illa farið með peninga og það yrðu margir aðilar í þjóðfélaginu glaðir að fá þessar 60--70 millj. eða hvað það er til skiptanna til hinna ýmsu mála. Mér nægir að nefna alls kyns menningarstarfsemi eins og íþróttamál, alls kyns starfsemi sem er til uppeldismála og æskulýðsmála og alls þess sem við viljum helst halda gangandi til góðs fyrir börnin í landinu. En við verðum auðvitað á einhverjum tímapunkti að viðurkenna að meiri hlutinn á rétt á að fá sína stefnu fram og þess vegna held ég að það sé skynsamlegt að reyna að ljúka þessari umræðu nú kl. 5 svo að hv. þm. megi dveljast eins og eina nótt í þessari viku heima hjá sér.
    Ég skal þess vegna ekki gera mikið mál úr hinni almennu niðurstöðu þessa fjárlagafrv. Við munum auðvitað sitja hjá eins og hv. 2. þm. Austurl. sagði vegna þess að við viljum ekki bera ábyrgð á mörgu af því sem þar er að sjá. Auðvitað er ein og ein tillaga sem við munum styðja sem við teljum til bóta og mér finnst engin ástæða til þess að vera að tíunda það.
    Ég ætla að víkja hér aðeins að tveimur málum og ég skal lofa því að vera búin að ljúka ræðu minni eftir um 6 mínútur. Í dagblaðinu Tímanum í gær er forsíðufrétt sem ég tel ástæðu til að vekja athygli á, en það er hörmungarsaga húss sem byggt var fyrir þá sem kallaðir eru gjörfatlaðir, en fyrir þá sem ekki vita eru það sjúklingar sem hafa orðið svo hroðalega illa úti í slysum eða af öðrum ástæðum að það er bókstaflega engin leið að hafa þá hvorki í heimahúsum né á venjulegum sjúkrastofnunum. Það hafði verið baráttumál okkar hæstv. félmrh. um árabil að fá einhverja stofnun fyrir þetta fólk, það er sem betur fer ekki margt en við vissum um að a.m.k. 7--8 manns voru satt að segja í miklum hremmingum. Þá vildi svo til að Lions-menn söfnuðu fyrir fjórum árum hátt í 30 millj. til þess að koma húsi yfir sex til sjö einstaklinga af þessu tagi. Og við skyldum nú halda að það nægði fyrir litlu, notalegu húsi fyrir sjö sjúklinga eins og það var ætlað og starfsmenn sem þeir þurfa því slíkir sjúklingar þurfa manninn með sér hverja mínútu og ætla ég ekki að lýsa því frekar. Svo fór þó að þegar hið opinbera komst í málið og fór að nýta þessar 30 millj., þá urðu þær 70 áður en við var litið. Og nú stendur uppi í Mosfellssveit, uppi við Reykjalund, fallegt hús, það vantar ekki, það er meira að segja aðalstræti eftir því miðju með götuljósum og tilheyrandi. Allt er það nú gott og blessað ef menn vita ekkert hvað þeir eiga að gera við peningana. En látum það nú vera.
    Auðvitað varð að sækja fé í Framkvæmdasjóð fatlaðra til að fylla upp í kostnað við þetta hús og það var sorglegt vegna þess að Lions-menn höfðu sannarlega safnað nægu fyrir þessu húsi. En þar með er ekki öll sagan sögð. Þetta hús er nú búið að standa, ég má segja í tvö ár autt og engum til gagns vegna þess að ekki hefur fengist fé fyrir rekstri þess. Þetta er auðvitað gjörsamlega fáránlegt og sparnaður getur það alla vega ekki verið. Þetta hús er fullkomlega óarðbær fjárfesting og þetta vesalings fólk, sem er eiginlega ekki hægt að lýsa hvernig líður eða við hvaða aðstæður verður að búa, er jafnilla sett eftir að þetta glæsihús var fullbyggt.
    Ég vil mælast til, ég er ekki að koma fram með brtt., en ég vil mælast til þess við hæstv. ríkisstjórn og hæstv. heilbrrh. að menn stetjist nú niður og reyni að finna fé því að einhvers staðar eru nú sameiginlegir sjóðir í heilbrrn. þar sem ég efast ekki um að mætti finna nægilegt fé til þess að unnt verði að ráða starfsfólk í þetta hús. Því að það er auðvitað gjörsamlega óviðunandi að halda þessu húsi, auðvitað kyntu, það þarf að hafa eftirlit með húsinu að sjálfsögðu eins og menn á Reykjalundi hafa margbent á. Þetta er eins illa farið með fé eins og hugsast getur. Ég legg kannski of mikla áherslu á fjármunina vegna þess að aðalatriðið er að það er mikil þörf fyrir að koma þessu vesalings fólki, sem getur ekki tjáð sig og getur ekki neitt og þarf að hafa manneksju með sér hverja mínútu sem það lifir, í aðstæður sem þessar og til þess ætluðust Lions-menn sem af miklum myndarskap söfnuðu stórfé til þessa húss. Ég skal ekki tíunda það meira en af því að hæstv. félmrh. er hér, sem hefur öðrum fremur unnið að málefnum fatlaðra og gjörþekkir þetta mál, þá vil ég mælast til að hún og hæstv. heilbrrh. í sameiningu reyni að finna lausn á þessu vandræðalega máli sem er okkur öllum til vanvirðu.
    Aðeins eitt lítið mál sem ég átti í dálitlum þrætum með við hæstv. samgrh. á síðasta ári sem var sala Skipaútgerðar ríkisins. Ég hef óskað eftir því í fjárln. að fá skýrslu um hvað hefur gerst í uppgjöri á því fyrirtæki. Það væri freistandi að lesa þessa skýrslu en þeir sem áhuga hafa geta fengið hana ljósritaða hjá mér. Hún er alllöng og tekur nokkurn tíma að lesa hana en þær eignir sem hér var um að ræða voru Askja, Hekla og Esja, þ.e. skip Skipaútgerðarinnar, skemma við Grófarbakka í Reykjavík, lausafé sem var selt til Samskipa hf., starfsmanna Ríkisskipa og selt til annarra, eins og hér segir. Síðan voru hlutabréf seld, hlutabréf í Gagnamiðlun hf., Eimskipum, Íslenskri endurtryggingu og stofnsjóðseign í Samvinnutryggingum. Hér

segir að af þessum eignum séu óseld skipin Hekla og Esja, hlutabréf í Gagnamiðlun hf. og stofnsjóðseign í Samvinnutryggingum. En eitt skip Ríkisskipa hefur verið selt. Það var m/s Askja sem var seld til Noregs. Söluverðið var 7,8 millj. norskra króna eða rúmar 70 millj. kr. og komu til frádráttar um 8 millj. íslenskar vegna viðgerðarkostnaðar og ég get ekki neitað því að mér þykir þetta lítið verð fyrir skipið. Mér finnst almennt lítið hafa komið inn fyrir þessar eignir. Hér er talað um að ekki hafi tekist að selja Heklu og Esju. Hins vegar er búið að selja skemmu Ríkisskipa á Grófarbakka. Hún var seld 2. des. sl. Fiskkaupum hf. sem greiddu 75 millj. kr. fyrir húsið og mér finnst það líka lítið. Við undirritun voru greiddar 5 millj. kr. og innan árs greiðast aðrar 5 millj. kr. Afgangurinn verður síðan greiddur með verðtryggðu skuldabréfi með 15 afborgunum og er sú fyrsta 1. nóv. 1994. Skuldabréfið verður gefið út við undirritun afsals og vextir eru 6%. Mér þykir ekki minna hagsmuna mjög vel gætt. Mér þykir það of lágir vextir. En það virðist ekki vera gengið jafnhart að kaupendum á eignum ríkisins eins og okkur sem erum að basla við að borga okkar eigin skuldir, við þættumst harla góð með 6% vexti.
    Það sem vekur líka athygli mína og mér finnst óeðlilegt með öllu er að það er fenginn fasteignasali, Jón Guðmundsson, til að sjá um sölu skemmunnar fyrir ríkissjóð. Ég hélt að til þess væri Innkaupastofnun ríkisins að annast slíkt fyrir nú utan allan lögfræðingaherinn í ráðuneytunum. Og það er ekki ónýtt að fá starf á borð við þetta því að hlutur fasteignasalans --- og nú athugaði ég það ekki en almennt er um að ræða 2% af söluverði, það er það a.m.k. þegar húseignir eru seldar --- fyrir að skrifa undir þessa samninga tekur fasteignasalinn ekki minna en 1,5 millj. kr. Mér þykir þetta ekki vel farið með peninga heldur. Ég hefði ekki tímt þessu. Ég held að það hlyti að hafa verið hægt að finna einhverja löglærða menn til þess að ganga frá þessum samningum í vinnutímanum sínum. En því er ég að ragast í þessu að svona fara margar krónur í okkar þjóðfélagi. Og ef það kæmi allt saman, þá væri kannski ekki mikil ástæða til þess að skerða kjör barna, sjúklinga, einstæðra mæðra og ellilífeyrisþega. Það er ótrúlegt sukk með fé í okkar landi og eftirlitsleysi.
    En ég ætla ekki að lesa lengra í þessu plaggi. Það er svo sem ýmislegt sem óneitanlega vekur athygli og ég skal viðurkenna að í önn þessara daga hef ég ekki haft tækifæri til að kynna mér það, en það kann að vera einhver skýring á setningu sem hér stendur, því að frá áramótum til 31. okt. sl. voru greidd laun vegna Skipaútgerðarinnar 95 millj. 366 þús. kr. Ég veit ekki hvort ég er svona saklaus í peningamálum en mér finnst þetta alveg óskapleg upphæð.
    Síðan er sagt: ,,Til áramóta má ætla 11 millj. til viðbótar eða alls á þessu ári 106 millj. Á næsta ári falla til biðlaun`` --- það er sjálfsagt ekkert við því að segja --- ,,upp á 5 millj. og frá og með áramótum verða aðeins greidd vinnulaun eins manns á vegum Skipaútgerðarinnar.`` --- Ég var að fá hér undarleg skilaboð. Ég er ekkert að flýta ræðu minni ef svo er, en ég vil spyrja hæstv. forseta, hér fæ ég upplýsingar um að ég hafi ekki verið að segja satt frá hér áðan, hér kemur fram að ekkert hafi enn verið talað við þingflokksformenn. Gæti forseti kannað það hvort það er engin fyrirætlun um að ljúka hér fundi kl. 5? Þá get ég haft ýmislegt að segja og er ekkert að . . .   ( Gripið fram í: Ég held að það sé rétt að ræðumaður haldi áfram.) Ég var að reyna heldur að hraða máli mínu og sýna drengskap í því sem talað var um áðan og ég óska eftir að fá upplýsingar um hvort þessar viðræður séu ekki að fara í gang. Annars eru ekki hundrað í hættunni. Ég skal reyndar standa við mitt loforð því að ég uppgötva það nú að ég get þá beðið um orðið aftur ef hér á að vera sjöttu nóttina í röð að þinga.
    Ég skal láta máli mínu lokið. Ég hef áður talað um að það megi víða finna peninga í þjóðfélaginu til að spara. Við getum verið án þess að hafa glænýtt og glæsilegt dómhús. Ég vil heldur að það gangi til þess að vel sé búið að börnunum okkar í grunnskólanum og það væri ósköp auðvelt að finna víða allnokkrar upphæðir til þess að koma saman fjárlögum sem hefðu einhverja möguleika á að standast.
    Virðulegi forseti. Í trausti þess að forsætisnefnd hafi ekki verið að engu höfð og verið sé að funda með þingflokksformönnum ætla ég að standa við mitt loforð en ég tek þá til máls síðar ef umræðan á að halda áfram.