Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 17:38:02 (3946)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir það að vekja athygli á sölu kirkjujarðarinnar á Görðum. Það hlýtur að vera ástæða til að skoða betur sölumál kirkjujarða, ekki einvörðungu þessa sölu heldur jafnvel líta aftur í tímann og athuga hvernig með hefur verið farið.
    Eins og kunnugt er er andvirði seldra kirkjujarða hluti af stofnfé Kristnisjóðs. Þessir peningar renna í Kristnisjóð sem undirstrikar eignarhald kirkjunnar á þessum kirkjujörðum þannig að hér eru mjög miklir hagsmunir í húfi fyrir starfsemi kirkjunnar í landinu. Ekki einvörðungu hagsmunir heldur spurningin um það að lögin gildi.
    Ég vil varpa fram þeirri hugmynd að hún verði skoðuð, e.t.v. flyt ég um það frv. til laga, að þegar sala kirkjujarða eigi sér stað þá verði kvaddir til sérstakir matsmenn, óháðir aðilar er meti land og gögn og gæði og kveði upp úr um verð og skilmála. Þegar um tvo óskylda aðila er að ræða í viðskiptum eins og í þessu sambandi sem er mjög óvenjulegt, þ.e. landbrn. ber ábyrgð á sölunni, en andvirðið rennur ekki í ríkissjóð heldur rennur andvirðið í Kristnisjóð. Það sem í raun og veru er að gerast er það að landbrn. er að selja

fyrir Kristnisjóð eða þjóðkirkju Íslands. Vegna þess að svona er í pottinn búið þá þarf langtum fremur að koma í veg fyrir allan vafa og koma í veg fyrir allar efasemdir og tryggja það að óháðir matsmenn kveði upp endanlegan úrskurð.