Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 11:49:25 (3952)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að vekja athygli hv. þm. og þjóðarinnar allrar á því að það er kannski ekki að ástæðulausu að hér hafa orðið allnokkrar umræður. Hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að kalla það málþóf og þær raddir hafa einnig heyrst frá hv. þm. meiri hlutans. En ég vil vekja athygli á því hvernig undirbúningi mála er varið hjá þessari hv. ríkisstjórn. Hér er verið að skila úr nefnd frv., stjfrv. um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumrn. þar sem lagt er til að 1.--29. gr. verði felldar úr. Síðar í dag verður líka skilað úr nefnd 285. máli sem varðar almannatryggingar og fleiri mál sem varða heilbr.- og trmrn. Þar er heill kafli felldur út. Það segir okkur að ekki veitir af að ræða þau mál sem lögð eru fyrir á hinu háa Alþingi.
    Í frv. stóð til að fella niður embætti hreppstjóra án þess að í nokkru væri séð fyrir hverjir ættu að gegna störfum þeirra þegar þessi embætti höfðu verið felld niður. Nú hefur þessu verið bjargað sem betur fer og svo geta menn ráðið því hvort þeir kalla það málþóf. Við kjósum að kalla það nokkurn árangur í meðferð mála á hinu háa Alþingi.
    Það væri ástæða til að minnast aðeins á málefni kirkjunnar en hv. 2. þm. Suðurl. hefur gert það

og ástæðulaust að tefja tímann með því að endurtaka það. En við alþýðubandalagsmenn viljum ekki taka þátt í því einu sinni enn að skerða kirkjuna um 20% af sóknar- og kirkjugarðsgjöldum. --- Nú sé ég að hv. 5. þm. Austurl., prestlærður maður, biður um orðið. Ég býst við að þetta hljóti að vera með hans samþykki og ekkert við því að segja. Við það bætist svo að enn á að taka úr sjóðum kirkjunnar laun umsjónarmanns kirkjugarða og þau skulu nú greidd úr Kirkjugarðasjóði.
    Ég skal ekki fara frekar efnislega út í þessi mál en ég endurtek: Ég vil vekja athygli allra sem af sanngirni vilja fjalla um málefni hins háa Alþingis að við erum ekki að stunda málþóf, við erum að bjarga því sem bjargað verður til þess að óundirbúin og flumbruleg mál fjúki ekki í gegnum þingið öllum til skaða.