Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 13:57:59 (3956)

     Frsm. minni hluta allshn. (Jón Helgason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég sagði áðan í framsöguræðu minni fyrir nál. minni hlutans að vissulega væri um nokkra upphæð að ræða sem ætti að greiða atkvæði um en þó væri annað sem væri miklu stærra atriði í sambandi við þessa atkvæðagreiðslu og það væri að greiða ætti atkvæði um það hvort ætti að gera loforð hæstv. kirkjumálaráðherra á kirkjuþingi í fyrra ómerk þar sem hann sagði, með leyfi hæstv. forseta: ,,En við fjárlagagerð næsta árs verður þessi tekjustofn óskertur eins og ég skýrði biskupi frá fyrir nokkru að í undirbúning væri.`` Ég tel að óhæfa sé að setja alþingismenn í þá stöðu að verða að greiða atkvæði um það hvort þessi orð eiga að standa eða ekki. Það er alger misskilningur hjá hv. 5. þm. Austurl. að samráð hafi verið haft við kirkjuna. Þeim var sagt að það ætti að taka þetta af þeim eins og á þessu ári og þá var spurning um það hvaða leiðir ætti að fara. Á fundi allshn. og eins á fundi samstarfsnefndar kirkjunnar og Alþingis fyrir nokkru kom fram að auðvitað hefði kirkjan mótmælt þessu en hún legði bara ekki í þá orrustu aftur sem hún gerði í fyrra. Þetta kom líka fram í orðum hæstv. kirkjumálaráðherra í framsöguræðu hans fyrir frv. fyrir fáeinum dögum þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Kirkjuráð . . .  taldi skárri kost að búa óumflýjanlegum tilflutningi kostnaðar það tímabundið form sem frv. gerir. ráð fyrir.`` Það var skárri kostur en það er langt frá því að þarna væri um samþykki eða samráð að ræða.