Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 13:59:59 (3957)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt eins og ég mun koma að í ræðu minni á eftir að ég gerði tillögur um það þegar ég var fjmrh. að hluti af þessum tekjum væri notaður til þess að standa undir ýmiss konar kostnaði við kirkjuna. Þá sá biskup Íslans, herra Ólafur Skúlason, ástæðu til þess að fara í sjónvarpið og skora á þjóðina að kjósa ekki stjórnmálaflokka sem legðu slíkt til. Það var merkileg yfirlýsing hjá herra biskupi Íslands en engu að síður gerði hann það.
    Forustumenn Sjálfstfl. mótmæltu þessari skattlagningu mjög rækilega og hæstv. núv. dómsmrh. fór á kirkjuþing, hvorki meira né minna, æðstu stofnun kirkjunnar í veraldlegum efnum hér á landi, til þess að gefa það fyrirheit að frá þessu yrði horfið á árinu 1993. Með þessu frv. er verið að ómerkja algerlega yfirlýsingu dómsmrh. á kirkjuþingi. Í síðustu ríkisstjórn var engin slík yfirlýsing gefin á kirkjuþingi, hvorki af fjmrh. né kirkjumálaráðherranum. Ég vil spyrja hv. þm. séra Gunnlaug Stefánsson, hv. 5. þm. Austurl., hvort það sé rétt skilið að hann hafi sagt það hér áðan að kirkjan væri fyrir sitt leyti búin að samþykkja þetta? Hvar hefur það komið fram? Mér þætti mjög fróðlegt að vita það vegna þess að ég bjó við það þegar ég var fjmrh. að biskupinn yfir Íslandi skoraði á þjóðina að kjósa ekki stjórnmálaflokka sem stæðu að löggjöf af þessu tagi og það er nokkuð sjaldgæft að biskupinn yfir Íslandi blandi sér inn í pólitík með þessum hætti.