Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 14:02:01 (3958)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spurði mig um það hvort ég hefði sagt í ræðu minni að kirkjan hefði samþykkt þessa skerðingu. Það sagði ég aldrei. Það sem ég sagði var að hæstv. kirkjumálaráðherra hefði haft samráð við kirkjustjórnina er hann undirbjó þessa ráðstöfun í þriðja sinn. Rétt er að ítreka það af því að það hefur kannski ekki komið nógu greinlega fram í umræðunni að enn er einungis verið að tala um ráðstöfun er mun vara í eitt ár. Það er skýrt og greinilega tekið fram í þessu frv. að þetta á einungis að gilda í eitt ár. En það er rétt að þannig hefur verið staðið að þessari skerðingu í þau tvö skipti áður. Vonandi má svo úr rætast í þjóðarbúinu að þetta verði bráðabirgðaaðgerð eins og til hennar var stofnað af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni þegar hann gegndi embætti fjmrh. og ég veitti honum á þeim tíma sem jafnaðarmaður fullan stuðning í þessu máli hvort sem var á vettvangi Alþfl. eða vettvangi kirkjunnar. Ég taldi þá og tel enn að ekki einvörðungu kirkjan heldur allar stofnanir í þjóðfélaginu sem mega sín nokkurs verði að leggja sitt af mörkum til þjóðarsáttar svo komast megi út úr þeim efnahagserfiðleikum sem þjóðin býr við um þessar mundir. Þar á kirkjan ekki að láta sitt undir höfuð leggjast.