Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 14:07:09 (3961)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá yfirlýsingu sem forseti hefur komið með. Þessi umræða dróst á laugardaginn og ég er ánægð með að hún skuli vera tekin inn á dagskrá núna. En það sem ég vildi gera að umræðuefni undir heitinu þingsköp er það að þegar við þingmenn höfðum lokið störfum milli kl. 18 og 19 á laugardaginn þá fengum við eins og venjulega gusu frá hæstv. utanrrh. sem virðir okkur ekki þess núna að vera viðstaddur. Við fengum þessa gusu í fréttum í útvarpi og sjónvarpi það kvöld og reyndar líka daginn eftir. Ráðherra fannst ekki tiltökumál þó að þingmenn hefðu unnið daga og nætur sl. viku við að koma málum áfram. Honum fannst meiri ástæða til að kasta skætingi að því fólki sem var að ljúka erfiðri vinnuviku sem hann hafði ekki tekið þátt í sökum ferða erlendis. Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta, í kvöldfréttunum 19. des.:
    ,,Ef málið snýst um það að þingmenn vilji fara heim í jólaleyfi eins og venjulegt fólk þá geta þeir fengið sitt jólaleyfi með því að ljúka fyrst sínum skyldustörfum.`` Hann sagði einnig í hádegisfréttum 20. des., í gær, um hagsmuni Íslands sem hann telur tengjast EES og sjávarútvegssamningnum: ,,Þessir hagsmunir vega þyngra en spurningin um það hvort þingmenn komist heim í jólaleyfi. Þeim er þó í lófa lagið að svara því sjálfir. Menn geta farið í jólaleyfi þegar þeir hafa lokið sínum skyldustörfum.`` Enn endurtók hann þetta í kvöldfréttum í gærkvöldi: ,,Nú er bara sá tími liðinn að það dugi að tala um málið. Spurningin er þessi: Getur Alþingi Íslendinga gert skyldu sína og afgreitt mál?``
    Nú hlýtur hæstv. ráðherra að hafa eitthvað fyrir sér í því að þingmenn hafi ekki sinnt skyldum sínum þessa viku. Þó er tiltölulega auðvelt hjá honum að ganga úr skugga um það hvaða nefndafundir hafa verið haldnir, hvað þingfundir hafa staðið lengi o.s.frv. Þetta er allt skráð í þinginu. Við almennir þingmenn höfum hins vegar ekki tök á því að skoða hvort hæstv. ráðherra hefur sinnt skyldum sínum þar sem hann hefur verið síðustu daga og ég frábið mér slíkar athugasemdir og vísa þeim algerlega til föðurhúsanna.