Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 14:46:07 (3966)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu formanns Alþb., fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Það kom mér kannski ekki á óvart að hann lét það vera að skýra frá því hver afstaða hans væri til þessa máls núna. Hann eyddi löngum tíma í það að skýra út fyrir okkur, hv. þm., hver hefði verið afstaða nokkurra sjálfstæðismanna og hver væri afstaða þeirra núna og hver væri afstaða Sjálfstfl. yfir höfuð í málinu. Ég beið eftir því að hann færi að fjalla um það hvernig hann sjálfur ætlaði að greiða atkvæði á hinu háa Alþingi í þessu máli. E.t.v. á það ekki að koma á óvart að hv. þm. hafi ekki gert afstöðu sína að umræðuefni hér í þinginu vegna þess að hún hefur legið svo lengi ljós fyrir. Hann er arkitektinn að þessari ráðstöfun. Hann var sá sem ýtti þessari ráðstöfun fyrst á flot og aflaði til hennar fylgis, m.a. fékk hann mig til fylgis við þessa ráðstöfun í árdaga þegar hún fyrst kom til umræðu. Ekki trúi ég því nú að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi skipt um skoðun eins og nokkrir aðrir fylgismenn stjórnarandstöðunnar sem segja eitt í gær og annað í dag og svo veit maður ekkert hvað þeir segja á morgun.

Ég trúi því enn þá að hann sé svo samkvæmur sjálfum sér að hann fylgi enn þeirri sannfæringu að þetta hafi verið gott mál í upphafi og sé það enn að hans mati þó að við samþykkjum það e.t.v. með hryggð á vör.