Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 14:48:20 (3967)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég sagði það hvað eftir annað hér í ræðu minni að ég er enn sömu skoðunar og ég hefði verið fyrir nokkrum árum, þ.e. að á erfiðleikatímum væri eðlilegt að tekjustofnar kirkjunnar tækju þátt í lausn efnahagsmálanna eins og aðrir þættir í efnahagskerfi þjóðarinnar. Ég tel mig hafa sagt það nokkrum sinnum í ræðunni þannig að sú meginstefna mín liggur alveg ljós fyrir. Það er reyndar í samræmi við ýmislegt annað sem við alþýðubandalagsmenn höfum sagt og gert bæði í ríkisstjórn og hér í stjórnarandstöðu. Við höfum verið okkur samkvæmir í því. Við höfum stutt hér þau tekjuöflunarfrv. sem eru í samræmi við það sem við stóðum að þegar við vorum í ríkisstjórn en höfum ekki tekið þátt í þeim hringlandahætti að vera með eina skoðun í ríkisstjórn og aðra í stjórnarandstöðu. En vegna þess að Sjálfstfl. hefur ályktað um það í áratugi að hann sé helsta brjóstvörn þjóðkirkjunnar í íslenskum stjórnmálum, hv. þm., og hv. þm. veit það auðvitað að Alþfl. hefur ekki verið talinn vera það né aðrir stjórnmálaflokkar að dómi Sjálfstfl. heldur hefur Sjálfstfl. talið að hann einn allra flokka væri þessi brjóstvörn kirkjunnar. Þess vegna tel ég það vera nokkur tíðindi þegar það gerist eftir yfirlýsingar dómsmrh. á kirkjuþingi og yfirlýsingar forustumanna Sjálfstfl. að það afhjúpist svo rækilega í þingsölum að Sjálfstfl. er að spila með stofnanir kirkjunnar. Við hinir fulltrúar annarra flokka höfum hins vegar reynt að fylgja þeirri línu sem við höfum haft. Það verður svo að metast í einstökum atriðum hvaða afstöðu menn hafa til einstakra greina í þessu frv., það kemur í ljós í atkvæðagreiðslunni, en ég hef ekki farið dult með þá meginstefnu sem ég fylgi og hef fylgt í þessu máli.