Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 15:12:18 (3974)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vill svo til að ég get svarað hv. þm. Þorsteini Pálssyni með því að vitna í orð biskupsins yfir Íslandi og lesa fyrir ráðherrann það sem herra Ólafur Skúlason sagði um framgöngu dómsrh. í kirkjugarðsgjaldsmálinu. Biskupinn sagði, með leyfi virðulegs forseta: ,,Það urðu mér mikil vonbrigði þegar Þorsteinn Pálsson kirkjumrh. og Friðrik Sophusson fjmrh. stóðu ekki við yfirlýsingar sínar í fyrra. Þá á ég við blaðagrein Þorsteins og þingræðu Friðriks.`` Þannig að hæstv. dómsmrh. getur alveg sparað sér einhverjar yfirlýsingar um mig hérna. Biskupinn yfir Íslandi hefur dæmt hann. Ráðherrann er bara svo heppinn að lifa á síðasta áratug 20. aldarinnar. Hann hefði verið bannfærður hefði hann lifað hér fyrr á öldum. Því að það er auðvitað enginn dómsmrh. á síðari áratugum sem hefur fengið á sig aðrar eins yfirlýsingar frá biskupnum yfir Íslandi eins og núv. hæstv. dómsmrh.