Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 15:16:08 (3977)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseta. Umhyggja hv. 2. þm. Suðurl. fyrir velferð minni er mikil og hún er sannarlega metin. En hann getur alveg sparað sér þá umhyggju fyrir þá sök að dóms- og kirkjumrn. lagði fram alveg skýrar tillögur um heildarbreytingar í þessu efni, þ.e. verkefnabreytingar í fullu samræmi við þá stefnumörkun sem ég hafði lýst af minni hálfu á kirkjuþingi. En að ósk kirkjuráðs var þessi kostur valinn sem bráðabirgðaráðstöfun á næsta ári. Þannig að ef hv. 2. þm. Suðurl. ætlar að láta umhyggju fyrir mér ráða atkvæði sínu í þessu efni þá bendi ég honum á að hann getur mjög hæglega fyrir þær sakir greitt atkvæði með þessum tveimur greinum frv. enda í fullu samræmi við það sem ég hafði sagt í margnefndri ræðu á kirkjuþingi og þær tillögur sem ég hafði lagt fram. En að beiðni kirkjuráðs þá kaus ég að hafa þennan bráðabirgðahátt á á næsta ári. En ef hv. 2. þm. Suðurl. vill vera samkvæmur sjálfum sér og hafa þá samkvæmni frekar að leiðarljósi en umhyggju fyrir mér þá get ég ekki séð að hann komist að annarri skynsamlegri niðurstöðu en að styðja þessi ákvæði frv. jafnvel þó að hv. þm. Framsfl. hafi aldrei gefið jafnábyrga yfirlýsingu um afstöðu til fjárlagagerðar eins og Alþb. gerði fyrir skömmu.