Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 15:20:28 (3980)


     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég er dauðhræddur um að hæstv. dóms- og kirkjumrh. hafi misskilið kirkjuyfirvöldin. Hins vegar skildu kirkjuyfirvöldin hann í fyrra, það hefur verið vitnað til þeirra orðaskipta sem urðu á kirkjuþingi. Og mig langar til, herra forseti, að vitna til ummæla biskupsins yfir Íslandi sem birt eru í Morgunblaðinu laugardaginn 26. okt. í fyrra. ,,Biskup Íslands, herra Ólafur Skúlason, sagði heimsókn Þorsteins á kirkjuþing vera tímamótaheimsókn.`` Hann kemur á miðju kirkjuþingi því hann á erindi við okkur. Ekki aðeins til að bera hönd yfir höfuð sér heldur til að boða tvennt: Annars vegar að ekki verði lengur um skerðingu á sóknar- og kirkjugarðsgjöldum að ræða frá 1993 og hins vegar að tekið verði á þessu viðkvæma en þýðingarmikla máli sem er eignir kirkjunnar. Hann gerði það að tillögu sinni að nefnd yrði skipuð af beggja hálfu til að gera tillögur í eignamálum kirkjunnar. Þorsteinn sýnir mikinn velvilja og skilning á hlutverki kirkjunnar bæði í dag og þeim arfi sem gerir íslenska þjóð að því sem hún nú er,`` sagði biskup.``
    Mér er í minni sjónvarpsviðtal við biskupinn yfir Íslandi þar sem hann veitti dóms- og kirkjumrh. syndakvittun í þessu tilefni fyrir þá atlögu sem ríkisstjórnin gerði í fyrra að kirkjunni. Nú er sú syndakvittun væntanlega fyrir bí þegar aftur er höggvið í sama knérunn. Og ég hef sannarlega áhyggjur af þessu með hæstv. dómsmrh. Ég vona að ekki verði úr bannfæringu. Það ætla ég sannarlega að vona. Og ég ætla að vona að sálarheill ráðherrans sé ekki stefnt í voða. Því til staðfestingar hef ég gert vers undir þessari umræðu:
            Það er betur hann finni ekki brennisteinsþef
            er berst honum hinsta kallið.
            Hann átti í fyrra aflátsbréf,
            það er nú úr gildi fallið.