Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 15:53:50 (3991)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Tillagan sem hér er flutt um 50 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til Lánasjóðs ísl. námsmanna er vegna þess að stjórn sjóðsins telur að gengisbreytingar nýlega hafi haft í för með sér 4% eða 58 millj. kr. hækkun á lánveitingum til námsmanna erlendis og aukin verðbólga innan lands leiði til 2% eða 34 millj. kr. hækkunar á lánveitingum til námsmanna á Íslandi. Lánveitingar hækka því samtals um 92 millj. kr. frá frv. eins og það liggur fyrir vegna ársins 1993. Auk þess telur stjórn lánasjóðsins að allar þær breytingar sem átt hafa sér stað á þessu ári vegna breyttra úthlutunarreglna hjá sjóðnum, aukin vinna því samfara hafi leitt til þess að verulega þurfi að hækka framlag til rekstrar skrifstofu lánasjóðsins eða sem nemur 14 millj. kr. frá því sem frv. gerir ráð fyrir og til að fullnægja þörf stjórnar lánasjóðsins að hennar mati. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárln. teljum nauðsynlegt að verða við þessum hækkunum og samþykkjum því þá hækkunartillögu sem hér liggur fyrir en tökum að öðru leyti enga ábyrgð á þeim heildarfjárveitingum sem sjóðnum eru ætlaðar og miða við þær úthlutunarreglur sem núv. ríkisstjórn hefur fengið fram og leitt hafa til skerðingar á lánum til skólafólks í stórum stíl. Þær skerðingar hafa þegar leitt til þess að verulega hefur dregið úr möguleikum ungs fólks til náms sem sést best á því að umsóknum hefur fækkað mjög á þessu ári og miklu færri nemar stunda nú nám á háskólastigi. Sú ráðstöfun er því algjörlega á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar.