Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 16:09:17 (3998)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Nú þegar atvinnuleysið er hér að halda innreið sína á Íslandi og að mörgu leyti fyrir tilverknað núverandi ríkisstjórnar, þá hefur það sést hvernig slíkt ástand skapast erlendis, að ýmiss konar starfsemi íþrótta- og æskulýðsfélaga er besta vörnin til þess að glíma við þá fylgifiska sem atvinnuleysinu eru samfara, t.d. ýmiss konar neyslu vímuefna. Það sem þessi tillaga gerir ráð fyrir er að þessar tvær fjöldahreyfingar, Ungmennafélag Íslands og Íþróttasamband Íslands, fái á næsta ári sömu krónutöluupphæð á fjárlögum og þær höfðu á þessu ári. Mér finnst það koma úr hörðustu átt hjá stjórnarliðinu ef það beitir sér núna fyrir því á þessum viðsjárverðu tímum að lækka beina krónutölu framlaga til þessara samtaka. Ég segi því já.