Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 16:10:51 (3999)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það verður ekki hjá því komist að gera athugasemd við ummæli hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar hér í atkvæðagreiðslunni áðan þar sem hann fullyrðir að tillaga þessi leiði til þess að framlög til annarra félagasamtaka muni lækka á móti. Það er rangt hjá honum og undarlegt af fjárlaganefndarmanni að bera svona á borð fyrir þingheim og þá aðra sem fylgjast með þessari atkvæðagreiðslu. Hér er gerð tillaga um hækkun á framlögum til þessara samtaka tveggja um 3,6 millj. kr. Vissulega mundi það að öðru óbreyttu leiða til þess að hallinn á ríkissjóði hækkaði um þessar 3,6 millj. kr. Það sem mér sýnist nú einsýnt að tillaga þessi sé því miður fallin --- ég hygg að ég sé seinastur í atkvæðagreiðslunni fyrir utan hæstv. forseta --- þá fagna ég yfirlýsingu hæstv. menntmrh. hér áðan um að hann muni skoða hugsanlegar viðbótarfjárveitingar til þessara tveggja samtaka en ég vil samt sem áður láta vilja minn koma í ljós við þessa atkvæðagreiðslu og segi því já.