Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 16:34:00 (4007)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hér er um að ræða að lækka þann skatt sem sérstaklega var lagður á sjávarútveginn og margir hafa skírt upphafið að auðlindaskatti. Þessi skattstofn hefur ekki reynst jafntraustur og menn ætluðu og því hefur ríkisstjórnin orðið að lækka hann. En ég vil vekja athygli á því að ríkisstjórnin lýsti því yfir í sumar að þessi skattur yrði endurgreiddur í einu eða öðru formi. Tilkynning um það heyrðist fyrst eftir fund á Flateyri á sl. sumri og mátti skilja á hæstv. forsrh. að það væri nánast framkvæmdaratriði hvenær og hvernig það yrði gert. Þremur ráðherrum var síðan falið að útfæra það með hvaða hætti þetta yrði endurgreitt, en ekkert hefur síðan spurst til málsins. Þar sem engin slík heimild er í fjárlögum, þá munum við fulltrúar Framsfl. greiða atkvæði gegn þessari brtt. en ég vænti þess að þetta mál komi til athugunar og umfjöllunar við afgreiðslu lánsfjárlaga eins og svo mörg önnur mál sem ekki hafa hlotið fullnaðarafgreiðslu. Við munum því greiða atkvæði á móti þessari breytingu.