Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:03:53 (4020)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að þessi tillaga sé óþörf og vek athygli á að það er nýverið búið að samþykkja í næstu tillögu þar á undan í tölul. 31 hækkun um nákvæmlega 70 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs aldraðra sem er ætlaður til reksturs Eirar þannig að þar er búið að ráðstafa nákvæmlega því fé sem hv. þm. Svavar Gestsson og fleiri leggja til í brtt. á þskj. 524 við 4. gr. og hér er til umræðu. Ég vil aðeins taka það fram að það er ekki rétt að það sé búið að leggja fyrir fjmrn. rekstraráætlun. Af þeirri ástæðu einni saman var tekin sú ákvörðun að fara frekar þá leið sem búið er að afgreiða en að efna til sérstaks fjárlagaliðar. Ég vek athygli hv. þm. á því að í tillögu hv. þm. Svavars Gestssonar og fleiri er ekki unnt að sundurliða framlagið til hjúkrunarheimilisins Eirar í laun og annan rekstur eins og ber að gera til slíkra stofnana. Ástæðan fyrir því er sú að tillögurnar liggja ekki fyrir. Það er gert ráð fyrir því í 31. tölul. að umræddum 70 millj. kr. verði varið til reksturs hjúkrunarheimilisins Eirar. Þessi tillaga er þarflaus.