Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:29:20 (4032)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er um nokkuð breytt vinnubrögð að ræða og þar sem ég tók þátt í því að skipta upp þessum lið, þá vil ég gera nokkra grein fyrir því. Það var ákveðið að ræða þessi mál og ef samkomulag væri um það að breyta þá vinnubrögðum þannig að mönnum væri gert að skyldu að sækja formlega um þessa styrki sem nokkur misbrestur hefur verið á undanfarin ár. Ég er út af fyrir sig sammála því að koma betri skipan á þessi mál en ég tel þó að við þessa úthlutun hefði ekki átt að byrja á því án þess að gera mönnum viðvart, þannig að ég tel að við þessa úthlutun hefðu menn átt að taka mið af úthlutun sl. árs og gera mönnum síðan grein fyrir því að fyrirhugað væri að taka upp breytt vinnubrögð. Í þessu tilfelli var einstaklingum, samtökum eða sveitarfélögum ekki gefinn kostur á því að vita um þessi breyttu vinnubrögð. En þar sem hér er ekki um lækkun á liðnum í heild sinni að ræða, segi ég já.