Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:35:10 (4035)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þessi brtt. gerir ráð fyrir því að 6 millj. kr. verði settar undir liðinn Hafnamál, hafnarmannvirki og merktar sérstaklega aðgerðum til að bæta aðstöðu smábáta í Árneshreppi. Verði undirliður svo merktur: Árneshreppur, hafnaraðstaða smábáta. Flutningur þessarar brtt. á sér þá skýringu að smábátaútgerð er afar mikilvæg þessu byggðarlagi sem um margt hefur mikla sérstöðu í hópi íslenskra byggða. Útgerð smábáta má heita eina umtalsverða búbótin eða eini umtalsverði tekjuaukinn sem íbúar þessa byggðarlags hafa fyrir utan hefðbundinn landbúnað, en aðstöðu fyrir þessa útgerð er í ýmsu ábótavant. Sérstaklega á það við nú eftir að nokkrar úrbætur hafa farið fram á Norðurfirði. Á það við um Gjögur og Djúpuvík. Fyrir þessa fjárveitingu ætti að vera unnt að gera þarna nokkrar úrbætur og því legg ég til að þessi viðbót verði þarna sett inn undir þennan framkvæmdalið.