Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:48:31 (4041)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Við þessa afgreiðslu fjárlaga er verið að taka ákvarðanir um að skera niður fjárveitingar til fjölmargra nauðsynjaverkefna og það er jafnframt verið að taka ákvarðanir hér í skattamálum af ríkisstjórnarmeirihlutanum um að leggja gífurlegar byrðar á barnfólk, aldraða, öryrkja, sjúklinga og fjölmarga aðra í þjóðfélaginu. Það hefur verið eins konar prófsteinn á það hvort menn meintu eitthvað með þessu tali eða ekki, hvort menn frestuðu hafnarframkvæmdum á Blönduósi. Þeir menn sem telja að nú sé til fjármagn í ríkissjóðnum til þess að hefja um það bil 200 millj. kr. hafnarframkvæmdir á Blönduósi eru

í reynd að segja við þjóðina að það sé lítið að marka allt annað sem þeir segja um aðhald í ríkisfjármálum.
    Hæstv. heilbrrh. er greinilega með vonda samvisku út af þessu máli og var að reyna hér áðan að koma því inn að þetta væri þriggja ára gömul ákvörðun. Það er rangt hjá honum. Það sem gerðist fyrir þremur árum síðan var það að þáv. hæstv. ríkisstjórn tók ákvörðun um að fara ekki í þessar hafnarframkvæmdir. Þá hittust þeir á sérstökum fundi, hv. þm. Pálmi Jónsson, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og hv. þáv. þm. Alexander Stefánsson, og gerðu um það samning, eitt fyrir mig, eitt fyrir þig og það þriðja fyrir Alexander. Þannig varð hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sérstaklega til þess að reyna að koma þessu í gang með þriggja manna baktjaldasamningi, þriggja þáv. nefndarmanna í fjárveitinganefnd. Þáv. ríkisstjórn neitaði að standa að þessu máli með þessum hætti og þessi þriggja manna samningur var aldrei staðfestur í þáv. ríkisstjórn. Þvert á móti var því lýst yfir af hálfu fjmrh. og þáv. samgrh. að þeir frábyðu sér samkomulag af þessu tagi. Það er því alveg ljóst að þegar núv. ríkisstjórn tók við var ekki á borðinu neitt samkomulag af neinu tagi um það að hefja 200 millj. kr. hafnarframkvæmdir á Blönduósi.
    Ef menn meina eitthvað með hagræðingu í þjóðfélaginu, hagræðingu í sjávarútvegvegi, hagræðingu í samgöngumálum og á öðrum sviðum, þá er auðvitað afar óskynsamlegt að fara í 200 millj. kr. hafnarframkvæmdir á Blönduósi þegar jafnstutt er til nærliggjandi hafnar og raun ber vitni. Og mér finnst satt að segja furðulegt að hæstv. utanrrh., sem ég veit nú ekki hvort hefur greitt atkvæði enn þá í þessari atkvæðagreiðslu og skil vel að hann vill vera fjarverandi, ætlar að fara að styðja það, maðurinn sem er að tala um nauðsyn hagræðingar. ( StG: Hvað er langt á milli hafnanna í kjördæmi ræðumanns?) Það er þess vegna alveg nauðsynlegt að það sé ríkisstjórnarmeirihlutinn einn og þeir aðrir sem vilja ganga þessa götu með honum sem bera ábyrgð á þessari orkanvitlausu framkvæmd. Ég greiði því ekki atkvæði.