Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 18:01:59 (4049)

     Sigurður Þórólfsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Við umræður hér á Alþingi um brtt. 512 sl. laugardag kom fram hörð andstaða við hana frá hæstv. heilbrrh. og einnig frá hv. þm. Svavari Gestssyni. Hæstv. heilbrrh. staðhæfði að SÁÁ væri reiðubúið að kaupa Staðarfell og staðgreiða kaupverðið. Ég kannaði þetta mál hjá forstöðumönnum SÁÁ og eins og ég átti von á staðfesti framkvæmdastjóri SÁÁ að ráðherrann færi þarna með rangt mál. Í byrjun árs 1992 skrifaði SÁÁ heilbrrn. og óskaði eftir að taka upp viðræður um kaup á Staðarfelli og þá að greiða kaupverðið á nokkrum árum. Þetta var gert til að tryggja framtíðaraðstöðu SÁÁ á Staðarfelli. Í ljósi þess sem fram hefur komið má vænta þess að hæstv. ráðherra hafi vilja til að greiða fyrir því að tryggja SÁÁ framtíðaraðstöðu á Staðarfelli. Ef þeir samningar takast sem leitað hefur verið eftir um kaup á jörðinni, kaupverð og greiðslukjör er því takmarki náð sem stefnt var að með flutningi þessarar tillögu. En þar sem óvíst er um afdrif tillögunnar hér á hinu háa Alþingi vil ég ekki taka þá áhættu að hún verði felld þar sem það gæti e.t.v. spillt fyrir framgangi málsins. Ég óska því eftir að draga tillöguna til baka.