Afstaða Spánar til EES-samningsins

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 18:25:44 (4054)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég skal reyna að virða hér öll mörk og hæversku en það eru mikil tíðindi að gerast. Ég skal ekki rekja þau sérstaklega í sambandi við samskipti okkar við önnur ríki og bandalög. Við höfum nú beðið æðilengi eftir fréttum þaðan og ljóst er að okkar þinghald hlýtur að markast með einhverjum hætti af því sem þar er að gerast, t.d. þannig að það getur varla verið þegar það liggur fyrir að það verða a.m.k. einn eða tveir mánuðir þangað til mál skýrast erlendis til þess að við getum tekið þau til skoðunar. Ég hef haldið því fram æðioft hér í þessum ræðustól að enn hefðum við ekkert nema drög eða slitur af svokölluðum EES-samningi. Það er enn þá ljósara nú en nokkru sinni áður og einnig ljóst að við mundum hætta stjórnarskrá okkar ef við ánetjuðumst þessum stofnunum sumum hverjum erlendum og það mundi ég ekki vilja óska neinum alþingismanni að gera óviljandi eða viljandi og gæti varla óskað mönnum gleðilegra jóla og því síður gleðilegs nýs árs og nýrra ára með því að eiga það á hættu.
    Ég þakka forseta fyrir að leyfa mér að segja þessi orð sem eru um þingsköp. Vona ég að við fáum a.m.k. eins eða tveggja mánaða frið til þess að hugleiða þessi mál, framtíð Íslands, kannski um alla framtíð, einhver merkilegustu og mikilvægustu mál sem Alþingi hefur haft alla vega frá lýðveldisstofnun og kannski miklu, miklu, stærri og alvarlegri mál. En ég tek nú alla vega þá áhættu --- og ekki áhættu, ég er þess fullviss að það er hægt að gera það --- og óska því öllum hv. alþm. gleðilegra jóla og góðs árs og síðast en ekki síst forsetanum.