Afstaða Spánar til EES-samningsins

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 18:28:43 (4056)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Á fundi utanrmn. sem haldinn var hér á laugardagseftirmiðdag með sjútvn. lét ég í ljós þá skoðun að það væri skynsamlegt að bíða eftir niðurstöðu ráðherrafundar Evrópubandalagsins áður en menn tækju ákvarðanir um framhaldið. Mér sýnist að þeir atburðir sem gerst hafa í dag hafi sýnt það að þessi ábending hafi átt rétt á sér. Ég vil hins vegar eindregið taka undir með hæstv. utanrrh. þegar hann segir að menn eigi ekki að flýta sér að draga ályktanir. Ég vona að það eigi einnig við hæstv. ráðherra því það er auðvitað alveg ljóst að með þessari ákvörðun sinni hefur ráðherraráð Evrópubandalagsins ómerkt nánast allt það sem ráðherrann hefur sagt hér við þingið á undanförnum vikum. Ráðherrann hefur sagt það við þingið að það væri skilyrði fyrir aðgangi Íslands að framhaldinu að við staðfestum EES-samninginn. Það er nú alveg ljóst að það er ekki rétt. Nú er það komið í ljós að Evrópubandalagið

ætlar ekkert að staðfesta EES-samninginn á næstunni, ekki einu sinni á næstu mánuðum. Og það kemur í ljós í fréttatilkynningu, sem ég vænti að sé einnig rétt, að utanríkisráðherrum Svíþjóðar, Finnlands og Austurríkis verður boðið á næsta ráðherrafund Evrópubandalagsins til þess að hefja viðræður við þessi lönd um aðild að EB. Með öðrum orðum á sama tíma og ráðherraráð Evrópubandalagsins setur EES-samninginn í frysti tekur það ákvörðun um að bjóða utanríkisráðherrum þeirra þriggja EFTA-landa sem sótt hafa um aðild á næsta ráðherrafund EB til að ræða framhaldið. Þar með eru aðildarumsóknir þessara þriggja landa teknar fram fyrir EES-samninginn af hálfu Evrópubandalagsins. Það er nú varla hægt að tala skýrar af hálfu Evrópubandalagsins í þessu máli heldur en hér hefur verið gert. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að forustumenn allra flokka á Alþingi ræði saman í rólegheitum á næstu dögum og vikum um hagsmuni Íslands í þeirri stöðu sem nú er komin upp því að það er alveg ljóst að bæði Evrópubandalagið og frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa núna ákveðið að hefja allt aðra göngu og hæstv. utanrrh. getur engu breytt um það. Þetta eru bara staðreyndir. Ég vona þess vegna að ráðherrann geri þessi orð sem hann mælti hér einnig að einkunnarorðum fyrir sitt atferli á næstunni og menn flýti sér nú ekki með neinar ályktanir og bíði bara í rólegheitum þangað til Evrópubandalagið talar næst í málinu og það verður ekki fyrr en í febrúar.