Afstaða Spánar til EES-samningsins

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 18:34:44 (4060)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Mér skilst að menn hafi kvatt sér hér hljóðs um gæslu þingskapa til þess að beina máli sínu til forseta og ályktunarorð þeirra eru þau að vegna fréttatilkynningar sem ráðherraráð Evrópubandalagsins hefur þegar birt og liggur hérna fyrir, þá sé þeim tilmælum beint til forseta að breyta áformum um þinghald. Fyrir því eru engin rök og það hafa engin rök verið nefnd því til staðfestu vegna þess að í þessari fréttatilkynningu frá fundi, sem reyndar er ekki lokið og var ekki lokið seinast þegar ég vissi, lá ekkert fyrir um það að málið sé komið í einhvern nýjan farveg, að málinu hafi verið hafnað. Þvert á móti, eins og ég hef þegar gert grein fyrir og menn geta sjálfir lesið af þessari fréttatilkynningu, þá lýsir ráðið vilja sínum til að hefja þessar samningaviðræður, að gera það sem allra fyrst og hraða afgreiðslu málsins. Það er engin forsenda fyrir því að beina einhverjum tilmælum til forseta Alþingis um að breyta þinghaldi af þessum sökum, hvað þá heldur að vera uppi með einhverja sleggjudóma eða fullyrðingar út í loftið um að upplýsingar sem gefnar hafi verið hafi ekki reynst réttar o.s.frv.
    En ég endurtek það, og menn hafa tekið undir það, það er ástæðulaust að hrapa að einhverjum ályktunum. Það eru mjög margir hér sem hafa ekki einu sinni séð þessa fréttatilkynningu ráðherraráðsins. Utanrmn. ætti að vera á fundi nú þegar, ef hún er það ekki, ef hún gæti fengið fundarfrið fyrir utandagskrárumræðum. Það sem ég hef fyrst og fremst um málið að segja er það að ég tek mönnum vara við því að taka þetta fyrir eitthvað annað en það er, ótímabært upphlaup.