Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 20:54:12 (4067)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér um ræðir lýtur að tilboðum sem opnuð voru fyrir alllöngu í framkvæmdir við lokafrágang lyflækninga- og hjúkrunardeildar við heilsugæslustöð og sjúkrahús á Ísafirði. Í þessu máli liggur fyrir að framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins hefur komist að þeirri niðurstöðu að það beri að taka lægsta tilboði í það verk. Sú tillaga framkvæmdadeildarinnar var kynnt í bréfi 13. nóv. sl. og síðan hefur ekki verið tekin ákvörðun um það af hálfu hæstv. heilbrrh.
    Þetta mál snýst raunar eingöngu um að unnið sé faglega að málinu. Það liggur í augum uppi að löggjafinn ætlast til þess að framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins hafi yfir þessum málum að segja. Í lögum um opinberar framkvæmdir er einmitt talað um að það sé hlutverk framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins að hafa yfirumsjón með málum af þessu tagi. Þess vegna hlýtur maður að álykta sem svo að þegar framkvæmdadeildin hefur farið tæknilega og fjárhagslega yfir þetta mál þá verði að vera mjög þung rök sem gera það að verkum að ráðherra kjósi að hunsa álit stofnunar af þessu tagi.
    Þess vegna tel ég að eðlilegast væri að hæstv. heilbrrh. hraðaði ákvörðun málsins til að eyða þeirri óvissu sem uppi er. Sá mikli seinagangur á málinu hefur gert það að verkum að þeir verktakar sem hér um ræðir, lægsti og næstlægsti, hafa ekki tekið eðlilegan þátt í útboðsmarkaðnum á Ísafirði og hafa þannig orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni. Ég tel þess vegna að eðlilegast væri að hæstv. heilbrrh. hraðaði þessu máli, lyki þessari óvissu þannig að ljóst yrði að hægt væri að hefjast handa um að vinna þetta verk sem svo mikið liggur á við Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði.