Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 21:01:08 (4070)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Heyrði ég það rétt að það væri unnið þannig í heilbrrn. að hæstv. ráðherra sæti yfir tilboðum í einstakar framkvæmdir á vegum ráðuneytisins? Heyrði ég það rétt að hæstv. ráðherra hefði ekki getað komist í það verk að meta tiltekin tilboð af því að það hafi verið svo miklar annir á Alþingi? Heyrði ég það rétt að þetta væri sami ráðherrann og leggur til að Alþingi afgreiði á einni viku tillögu um byltingarkenndar breytingar á almannatryggingalögunum? Um að spara 430 millj. kr. í tannlækningum. Um að spara 230 millj. kr. í lyfjakostnaði. Um að hækka sérfræðingagreiðslur og taka upp tilvísanakerfi. Um að gjörbylta kerfi mæðra- og feðralauna og meðlagsgreiðslna. Er þetta virkilega sami ráðherrann og er 40 daga að velta því fyrir sér með hvaða hætti á að fara með tilboð í eitt verk vestur á Ísafirði? Þetta er með ólíkindum, virðulegi forseti, þegar hlutirnir eru auk þess þannig, eins og fram kom hér fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ráðherrann á tiltekinn faglegan grundvöll til að meta þessi mál á. Ráðherra á ekki að skipta sér af því hvaða tilboðum er tekið. Það er ekki hans hlutverk. Sé það svo að hæstv. ráðherra telji að Innkaupastofnun ríkisins hafi vanrækt verk á þessu sviði þá er málið stóralvarlegt. Það er ekki rétt aðferð að stefna í þeim efnum af hálfu ráðuneytisins. Það er rétt aðferð hjá ráðherranum að taka þetta upp við hæstv. fjmrh., sem er yfirmaður Innkaupastofnunar ríkisins, og ef hann lætur sér ekki segjast þá á hæstv. ráðherra að taka þetta mál upp á ríkisstjórnarfundi, það liggur þannig. En það liggur ekki þannig að hæstv. ráðherra heilbrigðismála eigi að kvotla með útboðspappíra undir jólatrénu hjá sér næstu daga til að finna út hvaða tilboði á að taka.