Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 21:04:53 (4072)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta nokkuð furðuleg svör. Engu tilboði var tekið í sumar vegna þess að framkvæmdadeildin lagði til að engu tilboði yrði tekið. En núna er engu tilboði tekið af því að framkvæmdadeildin hefur ákveðið lagt til að einu tilboðinu, sem er lægst, verði tekið. Þarna fer ekki saman rökstuðningur í málinu hjá hæstv. ráðherra. Samkvæmt því sem hann segir er hann að hugsa

um að liggja á þessu máli og láta sig dreyma vel um jólin og ákveða sig ekki fyrr en eftir áramót. En af því að áðan var spurt um hvort sveitarfélagið væri e.t.v. með aðra skoðun þá er ég ekki viss um að ráðherrann muni koma með réttar upplýsingar eftir því sem ég þekki til hans. Ég ætla því að koma með upplýsingar sem eru úr bréfi frá bæjarsjóði Ísafjarðar og byggingarnefnd heilsugæslustöðvar og Fjórðungssjúkrahúss á Ísafirði og er stílað á Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í bréfi yðar, dagsettu 13. nóv. sl., stílað á bæjarstjórann á Ísafirði kemur fram að tilboð í framkvæmdir við lokafrágang lyflækninga- og hjúkrunardeildar HSÍ og FSÍ hefði verið opnað 29. okt. sl. Lægsta tilboð var 57.854.836 kr. og mælt er með að tilboði lægstbjóðanda verði tekið þar eð ekkert leiddi í ljós við athugun á fjárhagsstöðu tilboðsaðila sem mælir því gegn. Litið var á umrætt bréf sem tilkynningu en ekki sem beiðni um svörun sem þó kom í ljós með símtali. Og tilkynnist því að samkvæmt öllum umræðum, viðræðum og ályktunum sem fram hafa farið um þennan áfanga milli þeirra aðila sem hér um ræðir að mælt er með því að gengið verði til samninga nú þegar þannig að unnt verði að hefja framkvæmdir í síðasta lagi um næstkomandi mánaðamót.`` Undir þetta skrifa f.h. bæjarsjóðs Smári Haraldsson og fyrir hönd byggingarnefndar heilsugæslustöðvar og Fjórðungssjúkrahúss á Ísafirði Fylkir Ágústsson, formaður stjórnar. Það fer því ekki á milli mála að heimaaðilar hafa líka mælt með lægsta tilboði.