Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 21:07:15 (4073)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég nýt ekki þess vafasama heiðurs að hafa hvorki skrautlegan né óskrautlegan feril í þessum málum því ég hef bara engan feril í þessum málum sem hv. 6. þm. Vestf. var að tala um, hvorki skrautlegan né óskrautlegan.
    Það sem að gerist er einfaldlega þetta: Lagt var til í sumar að farið yrði í ákveðið útboð um viðgerðir. Ég gerði það á grundvelli tillagna þar um. Tillöguaðilar snúa hins vegar við blaðinu þegar öll tilboð eru komin og óska eftir því að engu tilboði verði tekið heldur verði sest yfir verkið að nýju vegna þess að bæði kostnaðaráætlanir og verkáætlanir séu út í hött. Síðan er framkvæmt annað útboð samkvæmt ráðleggingum sömu aðila og í ljós kemur að öll tilboðin eru talsvert fyrir ofan kostnaðaráætlun og þá er mér sagt að kostnaðaráætlun sé sennilega röng. Ég taldi rétt að gera nákvæmlega það sem hér kom fram, þ.e. að óska eftir því við deildarstjóra byggingardeildar heilbrrn. að hann skoðaði málið með tilliti til fyrri reynslu, ræddi við heimaaðila, þ.e. bæjarstjóra, formann sjúkrahússtjórnar, eftirlitsaðila, kannaði fjárhagsstöðu, reynslu og möguleika aðila til þess að vinna það verk sem þeir höfðu boðið í. Þetta hefur deildarstjórinn gert og hann skilaði mér sl. föstudag skýrslu með tillögum og niðurstöðum. Ég hef því miður ekki haft tíma til þess að fara í gegnum það, en ég mun gera það því það er skylda mín. Það að ráðherra hefur heimild til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum eins og ég gerði í sumar. Það er er ekkert óeðlilegt miðað við fyrri reynslu að ég óski eftir því að deildarstjóri byggingardeildarinnar kanni málið, m.a. með viðtölum við heimamenn. Það hefur hann gert.
    Það hefur ekki gerst í heilbr.- og trmrn. að byggingardeildin hafi tekið við hlutverki framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins um útboð og eftirlit með verkum. Hins vegar hefur byggingardeild heilbrrn. með fullu samþykki framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins tekið við öllum verkundirbúningi af framkvæmdadeildinni. Nákvæmlega það er verið að gera í þessu máli. Það er verið að vinna að verkundirbúningi. Auðvitað er það framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins sem býður út, en byggingardeild ráðuneytisins er með verkundirbúninginn samkvæmt samningi við framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins. Því hefur verið staðið að þessu máli með fyllilega eðlilegum hætti þó ég viðurkenni það, virðulegi forseti, að það hefur dregist úr hömlu að taka ákvörðunina, en ástæðan var sú að deildarstjóri byggingardeildar var heila viku fjarverandi að vinna að því að reyna að finna lausn á þeim málum varðandi viðhald sjúkrahússins á Ísafirði sem ég lýsti áðan.