Byggingarframkvæmdir við sjúkrahúsið á Ísafirði

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 21:10:55 (4074)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir tvær ræður í nokkuð löngu máli hefur hæstv. heilbrrh. ekki komið fram með neina skýringu á því hvers vegna hann hefur dregið í tæpa 40 daga að fallast á þá tillögu þess faglega aðila sem með málið fer. Ég skora á hæstv. ráðherra og teldi það hyggilegra af hans hálfu að staðfesta þá tillögu sem fyrir liggur frá framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins. Það er ráðherranum til vansa að virða að vettugi fyrirliggjandi tillögu og ýta henni til hliðar. Ráðherann verður að hafa einhver rök í höndunum ef það á að vera niðurstaðan. Hann hefur þau ekki. Það liggur fyrir. Hæstv. ráðherra á þegar í stað að samþykkja þá tillögu sem fyrir honum liggur. Annað er fullkomlega óboðlegt. Ef hæstv. ráðherra lætur verða af hótun sinni um að liggja á þessu máli yfir hátíðirnar þá bætir hann enn einni fjöðrinni í sinn skrauthatt síðan hann varð ráðherra hvað varðar einstakar ákvarðanir sem snerta Vestfirði. Ég gæti rakið það upp fyrir ráðherranum ef hann vill endilega fá að vita það.