Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 22:06:23 (4078)

     Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 518 er birt nál. mitt um frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 82 1989, með síðari breytingum. Sú sem hér stendur telst vera 2. minni hluti heilbr.- og trn. og skilar séráliti vegna þessa máls.
    Fyrsti minni hluti hefur þegar gert grein fyrir áliti sínu og þar kemur fram að þeir eru ekki andvígir þeirri breytingu sem fyrirhuguð er. Því er ekki svo háttað með mig því að ég er þvert á móti andvíg því að þessi breyting sé gerð sem tillaga er um í því frv. sem hér er til umfjöllunar.
    En nál. mitt er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Nefndin hefur fjallað um frv. á fundum sínum og fengið umsagnir frá Landssambandi aldraðra, stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, Öldrunarráði Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagsmálaráði Reykjavíkur og Félagi eldri borgara.
    Með frv. er verið að skerða Framkvæmdasjóð aldraðra með því að fela honum aukin verkefni án þess að auka tekjur sjóðsins. Er þetta nú gert öðru sinni, en árið 1991 var farið inn á þá braut að heimila að rekstrarframlög væru tekin úr sjóðnum. Sjóðurinn er fjármagnaður með 3.800 kr. nefskatti á alla skattgreiðendur 16--70 ára óháð tekjum. Forsenda þessarar skattlagningar var á sínum tíma að ástandið í húsnæðis- og vistunarmálum aldraðra væri svo bágborið að gera þyrfti sérstakt átak og nota til þess sérstakan tekjustofn. Ef það er núna skoðun stjórnarflokkanna að þessar forsendur séu ekki lengur fyrir hendi, verkefnum sem sjóðnum voru falin í upphafi sé lokið, eru forsendurnar fyrir sérstakri skattlagningu líka brostnar. Eðlilegast væri þá að leggja nefskattinn af, marka sjóðnum nýtt hlutverk og nýjan tekjustofn.
    Annar minni hluti er þó ekki þessarar skoðunar. Enn er mikið verk óunnið í uppbyggingu þjónustu fyrir aldraða, ekki síst í Reykjavík, þar sem enn vantar 260 hjúkrunarrými til að sinna þeim öldrunarsjúklingum sem eru í brýnni þörf fyrir hjúkrun. Þá er ástæða til að benda á að sjóðurinn hefur tekið á sig miklar skuldbindingar sem hann ætti, ef allt væri með felldu, að greiða á næstu 3--5 árum. Þessar skuldbindingar nema nú 1.109 millj. kr. Til sambanburðar má geta þess að á árinu 1993 verða tekjur sjóðsins 425 millj. kr. Ef meira en helmingi af tekjum sjóðsins verður varið til reksturs stofnana aldraðra á næstu árum er borin von að sjóðurinn geti sinnt nýjum verkefnum í uppbyggingu í þágu aldraðra eða staðið við fyrri skuldbindingar. Jafnframt er ástæða til að benda á að verkefni sjóðsins munu án efa aukast á komandi árum, annars vegar vegna þess að mjög ört fjölgar í hópi aldraðra og eins vegna hins að þær stofnanir sem þegar hafa verið byggðar munu kalla á aukið viðhald og endurbætur á komandi árum.
    Vegna alls þessa leggst 2. minni hluti gegn þeirri breytingu á Framkvæmdasjóði aldraðra sem fyrirhuguð er og vísar auk þess til umsagna um frv. sem allar voru á einn veg, andsnúnar frv.``
    Þetta er mitt nál., virðulegi forseti, og fyrst ég er komin hér til að tala fyrir þessu áliti, sem sker sig nokkuð úr hvað varðar álit annarra nefndarmanna, þá vil ég ekki láta hjá líða að útskýra það aðeins í frekara máli. Mig langar m.a. til þess að gera aðeins að umtalsefni þá þörf sem vissulega er fyrir hjúkrunarrými í Reykjavík.
    Engin ástæða til þess að lasta það að mikið hefur verið byggt upp af hvers kyns þjónustu við aldraða á undanförnum árum og þjónustuíbúðir og hjúkrunarheimili hafa m.a. verið byggð en þörfin í Reykjavík er engu að síður mjög brýn enn þá og hefur alls ekki verið fullnægt eins og kemur fram í nefndaráliti mínu þar sem minnst er á að það vanti enn um 260 hjúkrunarrými fyrir aldraða í borginni. Talan 260 hjúkrunarrými er fengin úr könnun sem Félag íslenskra öldrunarlækna gekkst fyrir á vistunarmálum aldraðra langdvalarsjúklinga á árinu 1991, en í þessari könnun kemur fram að hinn eiginlegi fjöldi hjúkrunarrýma í Reykjavík sé 5,2 rými á 100 íbúa 70 ára og eldri og þá eru hvíldarrými meðtalin. Í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi, er talið þurfa 7,5 rými á 100 íbúa 70 ára og eldri og í Kanada 9 rými á 100 íbúa 70 ára og eldri. Við erum með öðrum orðum talsvert undir því sem gerist í nágrannalöndum okkar, þ.e. hér í Reykjavík.
    Þær upplýsingar, sem hér voru tilteknar, koma fram í umsögn um þetta frv. sem sent var heilbr.- og trn. Alþingis frá félagsmálaráði Reykjavíkurborgar. En þar var samþykkt samhljóða umsögn um málið þar sem eindregið er lagst gegn þeirri breytingu sem hér er gerð tillaga um. Í félagsmálaráði eiga sæti fulltrúar bæði meiri hluta og minni hluta í borgarstjórn Reykjavíkur og ekki verður séð að þar hafi nokkur maður verið á móti því, burt séð frá því hvar í flokki þeir standa.
    Þessi álitsgerð, sem félagsmálaráð gerði að sinni, var samin af Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur sem er yfirmaður öldrunarþjónustudeildar Reykjavíkurborgar. Umsögnin er um margt mjög fróðleg og þar kemur m.a. fram sú mikla þörf sem er í Reykjavík á hjúkrunarrými og þjónusturými og er ýmist flokkuð í brýna þörf eða mjög brýna þörf. Þar kemur fram að í brýnni þörf og mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými séu nú um 132 einstaklingar og í brýnni þörf eða mjög brýnni þörf fyrir þjónustuhúsnæði séu nú 127 einstaklingar í Reykjavík. Þarna eru því um 260 einstaklingar sem eru í brýnni eða mjög brýnni þörf fyrir einhver vistunarúrræði í Reykjavík. Á sama tíma hefur Reykjavíkurborg aðeins yfir að ráða, og þá er ég að hugsa um borgaryfirvöld sem slík, 102 rýmum í þjónustuhúsnæði og 79 hjúkrunarrýmum. Þessi brýna þörf sem er fyrir hendi er því allnokkuð meiri en sem nemur þeim rýmum sem eru til ráðstöfunar og það segir sig sjálft að þau losna ekki öll á einu bretti heldur gerist það hægt og bítandi.
    Í álitsgerðinni frá félagsmálaráði segir m.a. í lokaorðum, með leyfi forseta: ,,Með hliðsjón af ofangreindu`` --- þ.e. þessari þörf sem er í borginni --- ,,og einnig því að samkvæmt mannfjöldaspám mun fjöldi 70 ára og eldri í Reykjavík aukast um 23% fram til 2001, og 80 ára og eldri um 33% á sama tíma. Verður það að teljast vafasöm aðgerð að breyta Framkvæmdasjóði aldraðra í rekstrarsjóð. Hér er verið að leysa tímabundinn vanda á kostnað framtíðarinnar.     Á undanförnum árum hefur verið lögð mikil áhersla á uppbyggingu stofnana fyrir aldraða á landsbyggðinni. Nú þegar athygli manna beinist að þörfinni, sem er mest í Reykjavík, í þeirri von að lögð verði áhersla á skipulega uppbyggingu hjúkrunarheimila þar, kemur fram tillaga um að breyta framkvæmdasjóði í rekstrarsjóð eins og fyrr segir. Telja má líklegt að verði það samþykkt verði það ákvörðun til frambúðar.
    Ef túlkun laganna um hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra veitir svigrúm til slíkrar notkunar á sjóðnum hefur frekar verið haft í huga að sjóðurinn gæti komið inn í rekstur stofnana sem teknar eru í notkun á síðari hluta árs þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir fjárveitingu á fjárlögum yfirstandandi árs. Við gerð fjárlaga nú er því eðlilegra að reikna með fjárveitingu til reksturs stofnana fyrir aldraða á næsta ári á fjárlögum og ætla Framkvæmdasjóði aldraðra áfram það hlutverk að fjármagna byggingu stofnana þar sem þeirra er þörf.``
    Virðulegi forseti. Í þessum orðum finnst mér vakin athygli á staðreynd sem sérstaklega er ástæða fyrir þingmenn Reykjavíkur að hafa í huga, þ.e. að þegar kemur að því að það þarf að sinna uppbyggingunni í Reykjavík í einhverjum mæli, þá fara menn og taka æ stærri hlut af þessum sjóði í rekstur og skilja þar af leiðandi mun minna eftir en áður í uppbygginguna. Mér finnst að Reykjavík hafi setið á hakanum bæði hvað varðar uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða og eins í heilsugæslumálum almennt og finnst mér það auðvitað mjög miður sem þingmanni Reykjavíkur.
    Þá er í umsögninni frá félagsmálaráði bent á að hætta sé á því að verði þessi tillaga samþykkt þá verði það ákvörðun til frambúðar. Sú var hugmynd ráðherrans samkvæmt frumvarpinu sem hér lá fyrir. Meiri hluti heilbr.- og trn. hefur lagt til að þetta verði ákvörðun til þriggja ára og 1. minni hluti að þetta verði ákvörðun í eitt ár og þetta þurfi því að skoðast á ári hverju. En ég held að ástæðan fyrir því að félagsmálaráð Reykjavíkurborgar segir þetta sé kannski sú að einmitt árið 1991 var tekin ákvörðun hér á þingi um það að heimila að taka ákveðinn hlut úr sjóðnum í rekstur til stofnana fyrir aldraða og það var þá gert þannig að taka mætti rekstrarfé til stofnana sem breyta eða hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst, þ.e. til að mæta uppákomum af því tagi. Þetta fór þá inn í lögin og hefur verið þar síðan þannig að þegar er búið að brjóta þennan ís. Með því að gera þetta var ísinn auðvitað brotinn og farið í sjóðinn og sótt þangað rekstrarframlög. Nú koma menn af enn meiri krafti og nú á ekki að taka bara til stofnana sem eru teknar í notkun um mitt ár heldur á beinlínis að sækja fé í sjóðinn sem nemur 55% af framlögum í hann til þess að reka almennt stofnanir aldraðra. Mér finnst dálítið sérkennilegt að sjá það að sjálfstæðismenn á þinginu skuli samþykkja þetta því að ef ég man rétt þá voru þeir andvígir breytingunum 1991, andvígir því að gengið væri í sjóðinn og rekstrarframlög tekin úr sjóðnum. Þetta kom þá mjög skýrt fram í umræðum á þinginu og þess vegna segi ég: Fljótt skipast nú veður í lofti ef þeir láta þetta nú ganga yfir sig án þess að æmta eða skræmta.
    Þetta er náttúrlega mun stærra skref en var tekið árið 1991 því að það var í sjálfu sér saklaust miðað við þetta sem nú er verið að gera. Talað var um þetta mál í þinginu 19. febr. 1991 og þá var Guðmundur G. Þórarinsson framsögumaður meiri hluta heilbr.- og trn. en framsögumaður 2. minni hluta heilbr.- og trn. var þá Ragnhildur Helgadóttir. Virðulegi forseti, ég held að ástæða sé til þess að rifja aðeins upp orð Ragnhildar Helgadóttur af þessu tilefni, en þá sagði hún ( Gripið fram í: Með leyfi forseta.) --- með leyfi forseta, að sjálfsögðu. ( Gripið fram í: Hæstvirts.) Hæstvirts, svo ekki sé nú minnst á það. En hún sagði:
    ,,Herra forseti. Afstaða 2. minni hluta heilbr.- og trn. þessarar deildar er afar einföld. Við erum andvíg þessu frv. Ég heyrði að hv. síðasti ræðumaður talaði um hinn góða tilgang í því. Sá góði tilgangur er nú þegar í lögum sem ég sé enga ástæðu til að breyta vegna þess að það hlutverk sem sjóðnum er falið með gildandi lögum er svo stórt að því hefur engan veginn verið fullnægt. Þess vegna er alls ekki tímabært að bæta nýjum hlutverkum á þennan sjóð. Það þýðir í raun og veru það sama og að skerða fjármagnið til þeirra framkvæmda sem honum er ætlað að sinna. Þess vegna getum við ekki stutt þetta frv. á sama tíma og hundruð aldraðra borgara bíða eftir hjúkrunarplássum. Þess vegna greiðum við einfaldlega atkvæði gegn því.``
    Það eru nú ekki nema tæp tvö ár síðan þetta var sagt og ekki hefur fjölgað plássum fyrir aldraðra um hundruð síðan þannig að rökin ættu að standa eftir sem áður.
    En ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég sakna þess mjög að enginn sjálfstæðismaður skuli vera í salnum. Ég held að ástæða væri til þess að þeir hlýddu á þetta mál mitt og þessa upprifjun á afstöðu þeirra í málinu á undanförnum þingum. ( Forseti: Eru það einhverjir sérstakir hv. þm. Sjálfstfl. sem hv. þm. óskar eftir að verði hér og hlýði á mál?) Ég vildi, virðulegi forseti, óska eftir því ef ekki er mjög mikið óhagræði að því að hv. þm. Geir Haarde yrði viðstaddur vegna þess að hann kom nokkuð við sögu málsins á þessum tíma. En það kann þó vel að vera að hann sé á þingflokksformannafundi eða einhverju slíku og ætla ég ekki að tefja ef menn eru að reyna að ná einhverjum sáttum þar. En ég held að það væri ráð að athuga hvort hann gæti verið viðstaddur. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir strax til þess að athuga hvort hann getur verið viðstaddur umræðuna.)
    Meðan forseti er að kanna það þá hef ég hugsað mér að lesa aðeins áfram úr ræðu Ragnhildar Helgadóttur sem er reyndar glettilega góð og sjálfsagt að halda henni til haga. Hún segir hér áfram, með leyfi forseta:
    ,,Fram til þessa hefur ætlunin verið, og bæði rétt og skylt reyndar, að sjá fyrir því fjármagni sem þarf til að sinna þeim skyldum sem nefndar eru í þessu frv. til viðbótar þeim skyldum sem áður voru, þ.e. til þess að halda við og reka þær stofnanir sem reistar verða fyrir fé sjóðsins. Fyrir þessu hefur verið séð og á að sjá með öðrum hætti. Segjum nú að jafnvel væri hugsað fyrir nýju fjármagni vegna þessara nýju hlutverka, sem alls ekki er, í því felst hin mikla blekking. Það er ekki séð fyrir nýju fjármagni heldur einungis fyrir nýjum skyldum. Þetta er því einungis feluleikur sem reyndar kom í ljós með öðrum hætti þegar fjármagnið var skert á lánsfjárlögum.``
    Síðan fer Ragnhildur Helgadóttir nokkuð út í aðra sálma en kemur með dálítið skemmtilega útskýringu á því hvers vegna sé ekki unnt að nýta með viðhlítandi hætti þau hjúkruanrrými sem bætt verður við vegna þess að það fáist ekki fólk til að sinna umönnun og hjúkrun. Það var reyndar á þeim tíma og ég hygg að það hafi breyst nokkuð í því atvinnuástandi sem síðan hefur skapast. En hún segir hér og ég tel ástæðu til að leyfa því að fljóta með:
    ,,Ég er þeirrar skoðunar að hvaða kenningar sem menn hafa um aðferðir til að mennta þessar stéttir þá leysi framkvæmd þeirra kenninga alls ekki úr þessu máli. Sá þröskuldur sem hæstur er og stendur þarna raunverulega í vegi er gamalt viðhorf --- þið afsakið ég segi það, kæru þingsystkin, er gamalt viðhorf karlmanna í heilbrigðiskerfinu, ekki síst til hefðbundinna kvennastétta í þeim sömu greinum. Það er ósköp einfaldlega það að menn halda enn, þess verður enn þá vart, að konur hafi einhvern veginn í húðinni og fingrunum tilfinningu fyrir því hvernig á að hjúkra þeim sem verst eru haldnir af sjúkdómum og elli en vanmeta hins vegar allar þær miklu framfarir sem ýmsir þeir sem lagt hafa stund á nám í þessum greinum hafa svo eignast hlutdeild í.`` --- Þetta sagði Ragnhildur Helgadóttir í febrúar 1991 og eru þetta vissulega orð að sönnu og eiga fyllilega við enn þann dag í dag.
    Í þessari umræðu hefur líka tekið til máls, sé ég er, Guðrún Helgadóttir, hv. þm., og haft efasemdir um að rétt væri að ganga á þennan sjóð með þessum hætti og það skorti þarna ákveðna yfirsýn til þess að gera þetta og vænti ég þess að hún sé enn sama sinnis þar sem um svo mikla skerðingu er að ræða eins og hér er gerð tillaga um.
    Getur forseti kannski upplýst mig eitthvað um ferðir Geirs Haarde og hvort að hann er væntanlegur í salinn eða einhver? ( Forseti: Forseti skal spyrja eftir því hvað dvelur hv. þm. --- Það mun vera þingflokksfundur hjá Sjálfstfl. --- Honum er lokið, segir hæstv. sjútvrh., þannig að við vonumst til þess að hv. þm. Geir Haarde birtist innan tíðar. Hann er kominn.)
    Hv. þm. Geir Haarde er kominn, þá er... ( GHH: Er ég einhver málflytjandi hér?) Nei, ég ætlaði að lesa hér upp úr ræðum hv. þm. sem hann flutti á þinginu 20. febr. 1991 einmitt um það mál sem nú er til umfjöllunar þó að það væri örlítið annars eðlis en þá var verið að ganga á fé Framkvæmdasjóðs aldraðra og skerða það og taka hluta af því í reksturinn og þingmaðurinn skilaði þar nefndaráliti með minni hluta heilbr.- og trn. þar sem lagst var eindregið gegn þessu. Ég er búin að lesa aðeins upp úr ræðu Ragnhildar Helgadóttur, fyrrv. þingmanns og framsögumanns minni hluta í heilbr.- og trn. þar sem hún varaði mjög við þessu. Og ég er einmitt komin að því sem hv. þm. Geir H. Haarde sagði um þetta mál í þinginu en þá sagði hann m.a., með leyfi forseta:
    ,,Hér er verið að samþykkja frv. um að skerða raunverulegt ráðstöfunarfé sjóðsins með því að bæta á hann nýjum verkefnum án þess að auka tekjurnar. En saga þessarar ríkisstjórnar í tengslum við þennan sjóð er orðin slík að ég held að hún ætti nú að skammast sín fyrir að taka þennan sjóð á dagskrá þingsins eins og búið er að féfletta hann og eins og búið er að fara með lagaákvæði sem að honum lúta.`` --- Þetta sagði þingmaðurinn í þessari umræðu. ( GHH: Þetta er allt saman rétt.) Þetta er allt saman rétt, segir hann, og þá stendur það enn þann dag í dag og ekki batnar sjóðurinn við það að vera féflettur núna þriðja sinni eins og hér eru uppi fyrirætlanir um.
    Svo segir Geir Haarde í ræðu sinni:
    ,,Ég bendi enn á það, eins og ég hef ítrekað gert hér í þingræðum, að skatturinn í þennan sjóð er innheimtur tvisvar sinnum.`` --- Þetta er mjög athyglisvert atriði sem er ástæða til þess að gera aðeins að umtalsefni. --- ,,Annars vegar sem sérstakt gjald og hins vegar sem hluti af hinni almennu staðgreiðslu sem allir greiða. Því hefur ekkert verið breytt þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar manna eins og hæstv. utanrrh.,`` --- þáv. og núv. --- ,,sem var að sjálfsögðu ekkert að marka, óþarft að taka það fram, og ýmissa annarra ráðherra um að hið sérstaka gjald í Framkvæmdasjóðinn ætti ekki rétt á sér.``
    Þarna er þingmaðurinn að koma inn á mjög athyglisverðan hlut sem er sá að upphaflega var gert ráð fyrir framlögum í Framkvæmdasjóð aldraðra, eins og ég kom inn á hér áðan, sérstakri skattheimtu sem átti að mæta þeirri brýnu þörf sem væri fyrir vistunarrými fyrir aldraða í landinu. Það væri sérstök þörf á því að auka þetta og því væri ástæða til að leggja á sérstakan nefskatt sem var lagður á alla skattgreiðendur óháð tekjum og sem víkur í rauninni í mjög veigamiklum atriðum frá almennum grundvallarprinsippum á bak við skattheimtu sem er sú að skattur skuli fara stighækkandi. Þetta var lagt jafnt á alla til þess að fjármagna þessi tilteknu atriði, þ.e. uppbyggingu þjónustu fyrir aldraða. Þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp voru allir slíkir skattar teknir inn í staðgreiðsluna og aflagðir, með öðrum orðum þessir skattar áttu að vera undir staðgreiðslunni.
    Það gerðist hins vegar eftir að staðgreiðslan var tekin upp að fjárframlögin í Framkvæmdasjóð aldraðra skiluðu sér ekki og þá ákváðu menn að taka aftur upp nefskattinn. ( GHH: Það er ekki ástæðan.) Það er ekki ástæðan --- þingmaðurinn mun þá væntanlega útskýra hver rökin voru en hitt er rétt að nefskatturinn var tekinn upp aftur og er núna 3.800 kr. á alla skattgreiðendur. Hafi þetta verið tvísköttun 1991 þá er þetta væntanlega tvísköttunn enn þann dag í dag og ekki síður nú þar sem hann á ekki einu sinni að sinna þessum sérstöku verkefnum heldur á hann bara að fara í rekstrarhítina, 55% af sjóðnum. Búið er að samþykkja það á fjárlögum að taka 230 millj. kr. í reksturinn beint inn í hítina úr þessum sjóð sem er upp á 425 millj. kr. og það á ekki að nýtast í uppbyggingu þjónustu fyrir aldraða.
    Hv. þm. Geir Haarde gerir að sérstöku umtalsefni hlut þáv. og núv. utanrrh. í þessu máli vegna þess að hann var fjmrh. þegar staðgreiðslan var tekin upp. Og hann segir hér:
    ,,Alþfl. er uppvís að því að ekki hefur reynst að marka eitt né neitt sem formaður flokksins hefur ítrekað látið frá sér fara um þetta mál. Það kemur náttúrlega fæstum hér á óvart en er engu að síður staðreynd.`` ( ÓRG: Þetta er bara eins og EES . . .  ) Þetta er kannski bara eins og verið væri að tala um það ástand sem við stjórnarandstæðingar erum stundum að reyna að lýsa og er kallað málþóf, þras og þingskapaleiðindi. ( GHH: Það er allt rétt í þessu máli.) Það er allt rétt í þessu máli, segir hann, en það er ekki allt búið enn, hv. þm. Víða má bera niður þegar þessi mál eru annars vegar. Ég ætla nú að bera niður 1989 því þá var einmitt umræða um þetta þegar þessi nefskattur var tekinn upp aftur og þá talaði hv. þm. Geir H. Haarde heilmikið um þetta mál. Þá var hann framsögumaður minni hluta heilbr.- og trn. þingsins og gerir heilmikið mál út af því, sem var full ástæða til, að verið væri að taka upp þennan skatt aftur og þar af leiðandi væri um tvísköttun að ræða til sama verkefnisins. Og hann sagði þá, með leyfi forseta:
    ,,Minni hlutinn leggst hins vegar eindregið gegn þeirri viðbótarskattlagningu á almenning sem ríkisstjórnin hyggst knýja fram með frumvarpi þessu og reynt hefur verið að fara í felur með af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hér er í raun verið að hækka tekjuskatta um 200 millj. kr. svo lítið beri á.`` --- Ég minni á að við erum að tala um 230 milljónir núna sem teknar eru úr sjóðnum.
    ,,Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hinn sérstaki skattur í Framkvæmdasjóð aldraðra verði tekinn upp að nýju og verði 2.500 kr. á mann. Skattur þessi var síðast lagður á með álagningu vegna tekna ársins 1986, en er staðgreiðsla skatta var tekin upp var innheimtu hans hætt og sjóðnum tryggðar samsvarandi tekjur af innheimtu staðgreiðslufé.
    Rétt er að minna á að þegar staðgreiðslan var tekin upp féllu niður fjórir smáskattar og urðu hluti staðgreiðslunnar og hækkaði álagningarhlutfall hennar sem þeim nam.`` --- Þarna er þetta sem ég var að lýsa áðan, það sem gerðist í þessu máli. Og hann segir síðar í sömu ræðu:
    ,,Að auki er alveg skýrt að þeir peningar, sem hér á að innheimta, eru nú þegar teknir af almenningi. Það er hrein brigð gagnvart gjaldendum að taka þennan skatt upp að nýju og gengur þvert gegn þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið af öllum þeim sem ábyrgð bera á staðgreiðslukerfinu, upptöku þess og framkvæmd. Eigi að leggja hinn sérstaka skatt á að nýju er að sjálfsögðu lágmarkskrafa að innheimtuhlutfall í staðgreiðslu lækki á móti.``

    Þetta er allt rétt hjá þingmanninum og hann ítrekar það hér úr salnum, og ég get tekið undir það, en þetta á þá líka við enn þann dag í dag. Það hefur í sjálfu sér ekkert breyst, hv. þm. En við munum væntanlega heyra um allar þær gífurlegu breytingar, sem orðið hafa, hér á eftir í máli þingmannsins.
    Ég veit ekki hvort ég á að bera víðar niður í þessum umræðum. Þó var það eitt sem vakti sérstaka athygli mína í þessum ræðum og það eru einmitt orðahnippingar annars vegar á milli þáv. framsögumanns minni hluta heilbr.- og trn. Geirs H. Haarde og þáv. þm. Friðriks Sophussonar og hins vegar þáv. og núv. utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, vegna þess að þeir reyndu að brýna ráðherrann upp í pontuna til að ræða þessi mál við sig, þessa tvísköttun, sem hann bæri m.a. ábyrgð á þar sem hann hefði verið fjármálaráðherra þegar staðgreiðslan var tekin upp, og þar sem hann bæri sem formaður Alþfl. ábyrgð á þeirri tvísköttun sem þarna væri um að ræða. Þeir eggjuðu hann hér lögeggjan upp í pontuna og hvorki gekk né rak þar til að svo virðist sem hv. þm. Friðriki Sophussyni, núv. fjmrh., hafi verið nóg boðið. Og það má kannski segja að orð hans sem þá voru töluð --- ja, við í stjórnarandstöðunni gætum kannski gert þau að okkar orðum við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi hér í þinginu. En þá segir hann og vitnar til þess einmitt, Friðrik Sophusson, að Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþfl. og þáv. utanrrh., tali ætíð þannig að það sé eins og enginn vinni nokkur verk nema hann. Þannig hafi hann haldið því fram að þegar verið var að koma á staðgreiðslu skatta hafi ekki nokkur ráðherra í þáv. ríkisstjórn unnið verkin sín nema hann einn. Og ég held að við könnumst svolítið við þetta núna vegna þess að nú fáum við að heyra það að hér vinni ekki nokkur maður verkin sín nema utanrrh. einn. Og hér segir Friðrik Sophusson, og vitna ég í ræðu hans frá 20. maí 1989, og hann er að tala um þáv. og núv. utanrrh.:
    ,,Hann hefur lagt sig svo mikið fram að hann hefur barið sífellt á heilum stjórnmálaflokkum og stjórnmálaforingjum fyrir það að þeir hafi ekkert gert annað en að vera í fríi í útlöndum á sama tíma og hann, einn manna í fyrrv. ríkisstjórn, hafi gert það sem gert var þar. Hann hefur sagt aftur og aftur þegar hann var spurður að því hvað þetta eina væri sem gert var: Það var frumvarp um skattamálin, það var staðgreiðslukerfið . . .  `` Hann einn vann hér heima meðan aðrir voru að frílista sig í útlöndum, hann einn vann verkin. Núna er það öfugt, hann einn er að frílista sig í útlöndum og vinna verkin þar meðan við hér heima vinnum ekki neitt, þannig er nú útlistunin núna.
    Og svo segir hér, og nú vitna ég áfram í Friðrik Sophusson:
    ,,Nú er verið að rústa þetta kerfi`` --- þ.e. staðgreiðslukerfið --- ,,og hæstv. ráðherra, sem hefur lagt pólitískt líf sitt undir og ríkisstjórna í þessu landi út af þessu og öðrum slíkum málum, er annaðhvort fárveikur og hefur misst málið eða þá að það hefur verið sest svo rækilega á hann að það er full ástæða til þess hér í þessum þingskapaumræðum og umræðum í dag að undirstrika það rækilega að í lok þessa þings hafi þessi einn mesti kjaftaskur allra tíma í íslenskum stjórnmálum nánast litið út eins og tunguskorinn.`` ( Gripið fram í: Hver segir þetta?) Þetta segir Friðrik Sophusson núv. fjmrh. um samráðherra sinn í þessari ríkisstjórn, hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson. Og það hefði kannski verið ástæða til þess að vita hvort að Friðrik Sophusson væri enn þessarar skoðunar á samráðherra sínum, að hann væri eins og hann segir, einn mesti kjaftaskur allra tíma í íslenskum stjórnmálum.
    Ég veit ekki hvort ég á að rekja þetta neitt frekar. Það er ljóst að það er verið að ganga mjög á þennan sjóð sem var stofnað til af sérstöku tilefni vegna þess að það var talið mjög bágt ástand í uppbyggingu þjónustu fyrir aldraða og það þyrfti að leysa úr því ástandi með nefnskatti á alla borgara. Fólk greiddi þetta held ég með nokkuð glöðu geði vegna þess að það fann að þörfin var brýn. Ef þessum verkefnum er nú lokið, ef menn líta svo á að uppbygging sé næg, það hafi verið vel fyrir þessum málum séð, þá eiga menn að sjálfsögðu að koma hér og leggja til að þessi skattur verði aflagður. Þá eiga þeir bara að leggja til að hann veðri aflagður, vegna þess að þetta er markaður tekjustofn í sérstakt verkefni og menn hafa ekkert leyfi til, siðferðilegt leyfi til, að taka hann til annarra hluta.
    Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar, eins og kemur fram í mínu nefndaráliti, ég held að það sé langur vegur frá því að þessari uppbyggingu hafi verið sinnt eins og þarf og ég vísa sérstaklega til ástandsins eins og það er í Reykjavík. Ég ætla líka að minna menn á að skuldbindingar þessa sjóðs eru mjög miklar á komandi árum og eins og kemur fram í mínu nál. þá eru þetta um 1.100 millj., sem ættu í rauninni að greiðast út úr sjóðnum á næstu 3--5 árum, og það segir sig sjálft að það verður ekki mikið greitt ef það á að taka meira en helming úr sjóðnum á ári hverju, þá eru 230 millj. eftir til ráðstöfunar.
    Vegna þessa, virðulegi forseti, þá greiði ég atkvæði gegn þessu frv. Bæði meiri hlutinn og 1. minni hluti flytja hér breytingartillögur sem eru heldur mildandi, getum við sagt, vegna þess að í öðru tilvikinu er lagt til að þetta skuli aðeins gerast í þrjú ár, hinu tilvikinu að þetta skuli bara gilda í eitt ár. Ég ætla ekki að eiga hlut að því máli, ég mun sitja hjá við þær tillögur en síðan mun ég greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild sinni.