Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 22:38:01 (4079)

     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir að rifja upp ágætar ræður mínar frá fyrri tíð. Það er nú þannig að maður stendur nú orðið sjaldan upp hér til þess að ræða um efnishliðar mála, eins og kunnugt er. Hún rifjaði þetta mál alveg ágætlega upp og ég heyri ekki betur en að allt sem þarna var rifjað upp hafi haft fullkomlega við rök að styðjast á þeim tíma.
    Hitt er annað mál að ég tapaði þessu máli. Þetta mál tapaðist og nefskatturinn var aftur tekinn upp.

Ég man eftir því, af því ég sé hér hv. 9. þm. Reykv., að þegar verið var að kynna staðgreiðslufrumvarpið fyrir stjórnarandstöðuflokkunum á þeim tíma þá komu fulltrúar þeirra í fjmrn. og það var greint frá því að það stæði til í staðgreiðslunni að fella niður þessa litlu skatta og taka þá með inn í staðgreiðsluna. Og ég man að hv. þm., Svavar Gestsson, sagði þá: Ég er á móti þessu því að ég tel að nefskatturinn fyrir málefni aldraðra sé vinsæll skattur og hann hefur alveg sinn tilgang. Og það var auðvitað alveg sjónarmið.
    Það sjónarmið varð síðan ofan á tveimur árum síðar að þessi skattur var tekinn upp á nýjan leik en við nokkrir, sem höfðum tekið þátt í því að fella hann inn í staðgreiðsluna, vorum á móti því á þeim tíma. Það er rétt sem lesið var hér upp, skatturinn var felldur niður og staðgreiðslan hækkuð sem því nam. Síðan var hann tekinn upp að nýju en staðgreiðslan var ekki lækkuð á móti. Þetta er allt saman rétt. Ég var á móti þessu á þeim tíma en málið tapaðist. Síðan hefur þessi skattur verið við lýði og við höfum sætt okkur við það. Allir vita hvernig ástandið er nú í efnahagsmálum og hvaða þrengingar ganga hér yfir. Allir vita það líka að á þeim árum sem síðan eru liðin hefur verið byggt upp töluvert fyrir þennan sjóð sem betur fer, þannig að það eru svolítið önnur viðhorf. Og eins og staðan er núna þá höfum við fallist á að taka þennan hluta af þessum sjóð til að reka þessar sömu stofnanir. Það er nú málið. Ekki vegna þess að uppbyggingunni sé alveg lokið, henni er nú því miður ekki lokið, a.m.k. ekki hérna í Reykjavík, þannig að það þarf að halda áfram að byggja. En það þarf líka að kosta reksturinn á þessum stofnunum, hann er mjög dýr. Og þess vegna höfum við talið að það væri réttlætanlegt að taka þennan hluta til rekstursins eins og frv. gerir nú ráð fyrir.