Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 22:41:17 (4081)

     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Ég verð nú bara, forseti, að vitna til þess sem ég sagði áðan. Það er auðvitað búið að byggja í tvö ár síðan þetta var og þar fyrir utan, náttúrlega, er ástandið þannig í efnahagsmálum að það hlýtur að koma alls staðar niður og þar á meðal á þessum sjóði, því miður. Við verðum að una því.
    Hitt er annað mál að eins og ég sagði áðan, þá tapaði ég þessum slag og menn verða nú annað slagið í stjórnmálum að sætta sig við það að hafa ekki sitt fram. Og þess vegna hefur þessum skatti verið viðhaldið í þessi ár, alveg frá 1989, og sl. þrjú ár eða frá árinu 1991 með þeirri skerðingu í reksturinn sem allir þekkja. Nú er sett á þetta ákveðið þak, 55% samkvæmt tillögu meiri hluta heilbr.- og trn. og við það miðað að þetta verði í þrjú ár. ( Gripið fram í: Það er hækkað.) Já, já, það er hækkað upp í 55%. Allir vita hver ástæðan er fyrir því. Það er þetta almenna fjárhallæri hjá ríkissjóði sem því veldur. En ég tel, sem betur fer, að nú sé búið að byggja það vel upp á þessu sviði að þessar stofnanir eða þessi starfsemi megi við því að taka þessa peninga í rekstur eins og nú háttar til að öðru leyti í okkar þjóðfélagi.