Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 22:42:49 (4082)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig full ástæða til þess við umræðu um þetta frv. um málefni aldraðra að rifja upp sögu. Og kannski ekki aðeins þá sögu sem hér hefur verið rifjuð upp heldur að fara pínulítið lengra aftur í tímann og minna á það hvernig þessi sjóður varð til.
    Þessi sjóður varð þannig til að þáv. hæstv. ríkisstjórn hafði hér mjög knappan meiri hluta á Alþingi. Hún hafði í raun og veru ekki starfhæfan meiri hluta um skeið. Niðurstaðan varð sú að ég flutti þá sem heilbrrh. frv. til laga um Framkvæmdasjóð aldraðra, sem var tekið út úr frv. um málefni aldraðra sem hafði þá legið fyrir í ráðuneytinu um skeið. Þarna var gert ráð fyrir sérstökum nefskatti í þessi verkefni, málefni aldraðra og uppbyggingu stofnana í þeirra þágu. Og mér er það enn í minni að það voru tveir þingmenn Sjálfstfl., sem þó voru í stjórnarandstöðu þá báðir, sem ákváðu að styðja þetta frv. og þessar tillögur sem þarna lágu fyrir. Það voru hv. þm. Albert Guðmundsson og hv. þm. Matthías Bjarnason. Og niðurstaðan varð sem sagt sú að þessi sjóður var myndaður. Hann var stofnaður og menn geta séð á þeim blöðum sem liggja fyrir, m.a. með nál. 2. minni hluta heilbr.- og trn., að þessi sjóður hefur auðvitað skilað stórfelldum árangri hér á undanförnum árum.
    Ef menn velta fyrir sér ástandinu í málefnum aldraðra eins og það var þegar sjóðurinn varð til annars vegar og hins vegar núna þá sjá menn að það eru gríðarlegar breytingar á þessum tíma. Ef menn skoða t.d. það hvernig þetta hefur þróast, segjum í Reykjavíkurhéraði, þá var fjöldi rúma fyrir aldraða að mati heilbrrn. árið 1991 1.122 þegar allt er talið, bæði þjónusturými og hjúkrunarrými. En í ársbyrjun 1981 voru þessi rúm ekki 1.122 heldur um 850. Ef við tökum t.d. Vesturlandshérað þá voru rúm þar fyrir aldraða í upphafi Framkvæmdasjóðs aldraðra 137, 10 árum seinna 250. Ef við tökum Vestfirði þá voru rúm fyrir aldraða í upphafi laganna 57 en 10 árum seinna meira en tvisvar sinnum fleiri eða 115. Ef við tökum Norðurland vestra þá voru rúm fyrir aldraða þar í upphafi sjóðsins 26 en í lok áratugarins hvorki meira né minna en 200, hafði fjölgað úr 26 í 199 á tíu árum. Ef við tökum Norðurlandshérað eystra þá voru þar 303 rúm fyrir aldraða 1. jan. 1981, en 1. jan. 1991 voru þau orðin 433. Ef við tökum Austurland þá voru rúm fyrir aldraða 45 1. jan. 1981 og 1. jan. 1991 hins vegar 171. Ef við tökum Suðurland þá voru þar 315 rúm fyrir aldraða 1981 en 482 rúm 1. jan. 1991. Og ef við tökum Reykjaneshérað sérstaklega þá voru rúm fyrir aldraða 240 1. jan. 1981 en 460 tíu árum seinna. Þannig að það er augljóst að þessi sjóður hefur skilað stórfelldum árangri á tíu árum og það er nauðsynlegt að menn muni það líka að um hann var mjög góð sátt. Fólk var tilbúið til að borga þennan aukskatt.
    Ég man eftir því, af því að ég fór þá með þann málaflokk, að ríkisstjórnin þáv. var gagnrýnd fyrir þennan skatt. Hún var gagnrýnd fyrir hann m.a. af verkalýðshreyfingunni á þessum tíma vegna þess að það væri verið að leggja á skatta umfram það sem samið hefði verið um við verkalýðshreyfinguna. Niðurstaðan varð engu að síður þessi og ég er sannfærður um að þegar þetta er allt skoðað þá viðurkenna menn að hér var um farsæla niðurstöðu að ræða og heildartölurnar segja allt sem segja þarf. 1981 voru í landinu öllu alls tæplega 2.000 rúm fyrir gamalt fólk. Tíu árum seinna voru þau 3.300. Þannig að það er hægt að halda því fram að í vistunarmálum aldraðra hefur átt sér stað á þessum áratug bylting fyrir tilverknað þessa sjóðs.
    Menn skulu gera sér grein fyrir því líka að málefni aldraðra voru ekki mikið hér á dagskrá í þessari stofnun um áratuga skeið. Það var eftirlátið félagasamtökum og einkaaðilum að reisa elliheimili hér á Íslandi. Þessi mál voru aldrei tekin hér fyrir. Ég held að það sé óhætt að halda því fram að þegar lögin um Framkvæmdasjóð aldraðra voru samþykkt hafi það verið fyrstu almennu lögin um málefni aldraðra sem voru samþykkt hér á Alþingi, fyrstu almennu lögin. Og þegar lögin um málefni aldraðra voru svo samþykkt var brotið í blað í þessum málum hér á landi og ég held að menn þurfi að gera sér grein fyrir því að þarna var um að ræða gífurlega breytingu.
    Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar síðan ákvað, þegar ég hygg Albert Guðmundsson var fjármálaráðherra, að taka upp staðgreiðslukerfi skatta þá var ákveðið að taka Framkvæmdasjóð aldraðra og gjaldið sem átti að fara í hann, inn í staðgreiðsluna. Ég mótmælti því strax. Fyrst og fremst vegna þess að ég óttaðist að þá mundi þessi skattur hverfa inn í staðgreiðsluna og hann yrði í raun og veru að engu smátt og smátt vegna þeirra almennu þarfa sem ríkissjóður hefur alltaf til þess að bæta við sig tekjum. Því miður þá varð það niðurstaðan samt sem áður að taka þetta inn í staðgreiðsluna. Ég flutti svo frumvarp um þetta mál þegar það var til meðferðar í hv. efri deild Alþingis. Sú tillaga mín og það frv. var fellt, að halda framkvæmdasjóðnum áfram sem sérmerktum skatti.
    Það varð síðan niðurstaða síðustu ríkisstjórnar að leggja á gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra á nýjan leik. Og það var vissulega skattahækkun, það er engin spurning, vegna þess að þeir peningar sem voru áfram teknir inn í staðgreiðsluna voru áfram á sínum stað. Þannig að það var alveg rétt sem hv. 8. þm. Reykv., Geir Haarde, hélt fram á sínum tíma að menn hefðu í raun og veru skattlagt tvisvar í þágu þessa málefnis, það var út af fyrir sig alveg hárrétt. Ég taldi hins vegar að það væri réttlætanlegt að leggja á skattinn í Framkvæmdasjóð aldraðra aftur vegna þess að þá yrði auðveldara að verja hann. Það var mín skoðun þá og það er mín skoðun enn þá að það sé betra að verja skattinn í þágu málefna aldraðra ef hann er þannig sérmerktur með þessum hætti.
    Niðurstaðan varð síðan sú að í síðustu ríkisstjórn var ákveðið að taka hluta af þessum framkvæmdasjóði í rekstur þegar um væri að ræða stofnanir sem yrðu tilbúnar á fjárlagaári og ekki hefði verið ætlað til á fjárlögum, sérstaklega. Ég taldi þetta varasamt vegna þess að ég óttaðist að þar með væru menn að stíga inn á þá braut að menn mundu taka þennan sjóð smátt og smátt í rekstur. Og niðurstaðan hefur í raun og veru orðið sú að menn eru að halda áfram á þessari braut. Og ég tel að það hafi líka verið rétt hjá hv. þm. Geir Haarde á sínum tíma að þarna hafi verið um að ræða vafasamt skref vegna þess að það er svo erfitt að stöðva sig, það sýnir reynslan, þegar menn eru á annað borð lagðir af stað með þessum hætti.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að það sé nauðsynlegt þegar menn skoða þessi málefni aldraðra, Framkvæmdasjóð aldraðra, að setja þetta allt saman í heildarsamhengi og átta sig á því hvað hér er að gerast. Staðreyndin er auðvitað sú að þessi tillaga sem Sjálfstfl. og Alþfl. flytja hér núna er í fullkomnu ósamræmi við málflutning Sjálfstfl. hér á síðasta kjörtímabili, alveg í lóðréttu ósamræmi við þann málflutning. Það er alveg sama hvort þar er um að ræða hv. 8. þm. Reykv. nú eða einhverja aðra þingmenn Sjálfstfl., sá málflutningur sem þeir höfðu uppi þá er allur annar en hann er núna. Og þegar frumvarpið var lagt hér fyrir frá hæstv. ríkisstjórn í haust þá var gert ráð fyrir því að það mætti í raun og veru taka allan sjóðinn í rekstur, allan, því að þá stóð í frumvarpinu, með leyfi forseta, að það væri heimilt að veita rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða án nokkurrar takmörkunar. Ég vakti á þessu athygli strax við 1. umr. um málið og ég sagði sem svo: Ég trúi því t.d. ekki að hv. 16. þm. Reykv., Guðmundur Hallvarðsson, hafi staðið að þessu. Og ég sagði: Ég trúi því heldur ekki að einstakir aðrir þingmenn Sjálfstfl. hafi staðið að þessu, miðað við þá stöðu eða afstöðu sem Sjálfstfl. tók í þessum málum á síðasta kjörtímabili.
    Niðurstaðan verður svo sú að við meðferð málsins í nefnd tekst að fá þessu ákvæði breytt. Og ég skil það svo að nú sé þak á þessu þannig að það megi aldrei taka nema 55% eða 230 millj. kr., sýnist mér, af þeim 425 millj. sem sjóðurinn á að hafa. Og ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að miðað við allar skuldbindingar þessa sjóðs þá sé hér allt of langt gengið. Skuldbindingar sjóðsins eru alveg feikilegar. Ef við tökum t.d. bara eitt kjördæmi, Reykjaneskjördæmi, þá er það þannig að eftirstöðvar vegna einstakra verkefna þar eru þannig að í Kópavogi eru þetta sýnist mér einar 60 millj. Í Hafnarfirði er um að ræða verulegar upphæðir, í Sandgerði einnig verulegar og í Garðvangi sömuleiðis verulegar upphæðir. Bara í Reykjaneskjördæmi eru eftirstöðvarnar 104 millj. sem þessi sjóður á eftir að standa undir. Í Reykjavíkurkjördæmi eru eftirstöðvarnar 620 millj. Og á Vesturlandi eru eftirstöðvarnar 48 millj. Á Vestfjörðum eru eftirstöðvarnar sýnist mér um 40 millj., Norðurlandi vestra mikið lægri tala eða innan við 6 millj., Norðurlandi eystra 86 millj., Austurlandi tæpar 100 millj., bara á Austurlandi, og þar er langhæsta talan sýnist mér Vopnafjörður og Búðahreppur og Eskifjörður. Búðarhreppur t.d. með tæplega 40 millj. Og síðan er Suðurland, eftirstöðvar á Suðurlandi eru 106 millj. Eftirstöðvarnar eru samtals 1,1 milljarður kr. Og miðað við þær upphæðir sem hér er gert ráð fyrir að veita í sjóðinn þá er hann fimm til sex ár að klára þessar eftirstöðvar og þá má ekki hleypa af stað neinum nýjum verkum. Ég tel þess vegna að hér séu menn á afar hættulegri braut. Og ég tel að það væri ómaksins vert fyrir þingheim að fá að hlýða á það hvernig maður eins og hv. 16. þm. Reykv. hugsar sér að verja það að sjóðurinn er að svona stórum hluta til tekinn í almennan rekstur við þær aðstæður sem þarna blasa við.
    Það liggur líka fyrir, virðulegi forseti, að öldruðum, sem þurfa þjónustu, mun fara fjölgandi á næstu árum. Þessi vandi mun vaxa. Þegar menn nota ekki sjóð af þessu tagi, sem þjóðin er reiðubúin, er viljug til að borga í, þá er auðvitað mjög hætt við því að menn lendi í því að vandinn vaxi ár frá ári án þess að það sé í raun og veru hægt að sporna við að einu eða neinu leyti. Þess vegna verð ég að segja það fyrir mitt leyti að ég tel að það sé algjört svarta hámark að ganga það langt eins og við gerum þarna, ég og hv. þm. Finnur Ingólfsson, í brtt. sem við flytjum á þskj. 504. Sú tillaga gerir ráð fyrir því að það verði heimilt að nota 160 millj. kr. af þessum sjóði á árinu 1993 í þessu skyni. Ég vil í tilefni af þessu, virðulegi forseti, inna hæstv. heilbr.- og trmrh. eftir talnaflóðinu í kringum þessi mál sem ég átta mig ekki algjörlega á.
    Samkvæmt frumvarpinu, brtt. meiri hluta heilbr.- og trn., er gert ráð fyrir því að taka 55% í þennan rekstur eða um 230 millj. kr. Samkvæmt minnisblaði um sparnað í heilbrrn., sem ég hef undir höndum frá hæstv. heilbrrh. eins og aðrir heilbrigðisnefndarmenn, þá er gert ráð fyrir því að niðurskurðurinn á Framkvæmdasjóði aldraðra verði ekki 160 millj. heldur 90 millj. Þarna ber á milli 70 millj. Síðan ber aftur 70 millj. á milli tölunnar 160 millj. og 230 millj. sem menn eru með í öðrum gögnum þessa máls. Ég held að það væri mjög æskilegt að hæstv. heilbrrh. skýrði hvernig þessar tölur ganga upp, hvaða rök eru á bak við þennan talnasamsetning eins og hann hér lítur út.
    Hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson mælti hér áðan fyrir nál. meiri hlutans og ég vil aðeins víkja að því þessu næst, virðulegi forseti, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Tillagan felur í sér að b-lið 1. gr. frv. verði breytt á þann hátt að heimild til að nýta fé framkvæmdasjóðs til reksturs verði bundin við árin 1993--1995 og að upphæðin verði tilgreind í fjárlögum. Jafnframt er gert ráð fyrir að þetta framlag nemi ekki meira en 55% af heildarúthlutun sjóðsins á ári hverju. Áfram er þó í lögunum heimild til að veita tímabundið rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða sem breyta eða hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst.``
    Samkvæmt þessu, og samkvæmt frv., ef það verður að lögum eins og meiri hlutinn gerir tillögu um, þá er í raun og veru áfram hægt að taka allan sjóðinn í rekstur innan árs. Það er hægt. Í fyrsta lagi er heimilt að taka 55% eða u.þ.b. 230 millj. kr. En í öðru lagi er hægt að taka verulegan hluta sjóðsins í rekstur til stofnana sem hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst. Á því er ekkert þak. Og þess vegna spyr ég hæstv. heilbr.- og trrh.: Hvað gerir hann ráð fyrir að mikið fé verði til ráðstöfunar úr sjóðnum á árinu 1993, eins og þetta hér lítur út?
    En í áliti meiri hluta heilbr.- og trn. segir einnig með leyfi forseta:
    ,,Meiri hluti nefndarinnar vill leggja áherslu á að miðað við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að Framkvæmdasjóður aldraðra fjármagni meira en hingað til rekstur stofnana aldraðra. Jafnframt er ljóst að enn er veruleg þörf á fjármagni til uppbyggingar í húsnæðismálum aldraðra og með hliðsjón af því hefur heilbr.- og trmrh. lýst yfir því að hann muni beita sér fyrir könnun á högum aldraðra á áðurgreindu tímabili (1993--1995) og enn fremur verði á sama tímabili gerð áætlun um þjónustu- og byggingarþörf og að framkvæmdir í samræmi við þá áætlun hefjist fyrir lok tímabilsins.`` Þetta er sérkennilegur texti, með leyfi forseta. Ætli þetta geti kallast kattarþvottur á íslensku máli, eða hvað?
    Hér er gert ráð fyrir því að þessari skerðingu verði haldið áfram út kjörtímabilið, þ.e. út árið 1995. Og svo er gert ráð fyrir því að hæstv. heilbrrh. láti gera könnun á högum aldraðra. Hvaða könnun, hæstv. ráðherra? Hvernig verður staðið að þeirri könnun? Hver mun framkvæma þá könnun? Hæstv. ráðherra þarf ekki sérstaka yfirlýsingu í nál. til að þetta verði gert vegna þess að þetta er ákvæði í lögunum um málefni aldraðra. Það er gert ráð fyrir því að svona könnun verði gerð hvort eð er.
    Síðan er gert ráð fyrir því að gerð verði áætlun um þjónustu- og byggingarþörf og framkvæmdir í samræmi við þá áætlun. Hver mun vinna þessa áætlun um þjónustu- og byggingarþörf og framkvæmdir í þágu aldraðra? Hver mun gera það? Verður það heilbrn.? Verður heilbr.- og trn. Alþingis kölluð til í þessum efnum? Hverjir munu koma að þessu verki?

    Auðvitað er það svo, virðulegi forseti, að þegar menn eru að lenda málum pólitískt þá vill það oft verða erfitt í stjórnarsamstarfi eins og gengur, ekki síst á þeim tímum sem núna eru uppi, sem eru vissulega mjög erfiðir. Það er greinilegt að hluti af stjórnarliðinu hefur átt mjög erfitt með að sætta sig við tillöguna eins og hún lítur hér út. Þess vegna hefur verið gert svona pólitískt samkomulag. Pólitískt samkomulag sem gengur út á hvað? Það gengur út á það í fyrsta lagi að þetta verði 55%, að þetta verði bara árið 1993, 1994 og 1995, og að gerð verði könnun á högum aldraðra. Ég geri ráð fyrir því að meiri hlutinn ætli að reyna að fleyta sér eitthvað á þessu að það eigi að kanna hagi aldraðra. Þetta er satt að segja svo gagnsær plástur að það hefði verið betur gert að sleppa því að reyna að líma hann á sárið í þessu efni. Vegna þess að þetta segir ekki nokkurn skapaðan hlut. Hér eru menn að reyna að bjarga sér á hundasundi með mál sem þeir vita að er vont, og eiga í raun og veru mjög erfitt með að standa að og reyna þess vegna að búa til plástra af þessu tagi.
    Nei, virðulegi forseti, ég held að þessar yfirlýsingar í nál. meiri hlutans séu fjarska ómerkilegar. Ég held að menn eigi ekki að vera að reyna að vinna sér það til hægari verka að blekkja þjóð og þing með yfirlýsingum af þessu tagi. En ég hef lagt til heilbrrh. nokkrar spurningar um þetta atriði, hvernig eigi að standa að þessari könnun o.s.frv. þannig að það megi sjá hvernig þeim hlutum er háttað.
    Virðulegi forseti. Alveg frá því að lögin um Framkvæmdasjóð aldraðra voru sett á sínum tíma, 1981--1982, þá hefur það verið vitað að vandinn væri langsamlega mestur hér í Reykjavík. Það hefur verið vitað allan tímann. Það var gerð könnun á högum aldraðra árið 1981 og á ári aldraðra var hún birt. Það hefur legið fyrir allan tímann að vandinn hefur verið langsamlega stærstur hér í Reykjavík og nágrenni. Þess vegna var það t.d. að þann tíma sem ég var í heilbrrn. var lögð á það áhersla að veita talsverða fjármuni til framkvæmda í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu. Þeir fjármunir fóru til Hrafnistu, þeir fóru til Sunnuhlíðar, þeir fóru til B-álmu Borgarspítalans og fleiri slíkra aðila. Verulegur hluti sjóðsins fór þá til Reykjavíkur og nágrennis og ég man eftir því að landsbyggðarþingmenn úr öllum flokkum gagnrýndu mig mjög mikið fyrir þessa einhliða Reykjavíkuráherslu sem menn töldu að væri þá á þessum sjóði. Enda má segja að það hafi nokkuð skipt um eftir að skipt var um ráðherra 1983. Þá fór áherslan frá Reykjavík annað, m.a. út á land.
    Nú ætla ég út af fyrir sig ekki að segja að þær byggingar, sem þar hafi verið reistar á undanförnum árum eða áratug, hafi verið óþarfar, það er langt frá því. Ég viðurkenni það hins vegar, að ég hefði haft forgangsröðina öðruvísi. Og ég bendi á að sú ákvörðun að láta verulegan hluta sjóðsins fara til Reykjavíkur og nágrennis var samkvæmt tillögu stjórnar sjóðsins á þeim tíma. Ég breytti tillögum stjórnar sjóðsins aldrei heldur fór eftir tillögum stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra í öllum atriðum. Og af hverju var það? Jú, það var vegna þess að stjórnin hafði heildarupplýsingar um ástandið í málefnum aldraðra í landinu öllu. Þar lá fyrir að vandinn var langmestur hér og þess vegna gerði stjórnin tillögu um það að langmestir fjármunir færu hingað til Reykjavíkur og það var gert.
    Síðan komu aðrir menn að þessum verkum og mér skilst að á síðustu árum hafi það gerst aftur og aftur að ráðherrarnir hafi breytt út frá tillögum Framkvæmdasjóðs aldraðra, sem þó voru teknar og ákveðnar á grundvelli vandaðra, faglegra upplýsinga. Og ég tel að það sé satt að segja mjög mikið umhugsunarefni að menn láti kjördæmaviðhorf en ekki fagleg heildarviðhorf ráða úrslitum í málum af þessu tagi.
    Ein sú stofnun sem við veittum fé til úr sjóðnum á þessum tíma var B-álma Borgarspítalans. Hún var byggð að talsverðu leyti fyrir fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Það var greinilega skoðun fjöldamargra aðila, m.a. á Borgarspítalanum, að það væri eiginlega hið versta mál vegna þess að Borgarspítalinn ætti ekkert að vera með þau mál með þeim hætti sem við gerðum tillögu um. Forustumenn Borgarspítalans töldu, að það væri miklu skynsamlegra að Borgarspítalinn sneri sér að öðrum almennum verkefnum í hinum ýmsu sérgreinum læknisfræðinnar. Niðurstaðan varð sú að ég fann þá að forustumenn Borgarspítalans vildu helst nota B-álmuna í annað. Og þess vegna ákvað ég að skrifa Borgarspítalanum og borgaryfirvöldum í Reykjavík bréf þar sem sagði að ég liti svo á að ef B-álman yrði tekin undir annað en aldrað fólk, þá ætti borgin, eigandi spítalans, að greiða þessa peninga til baka, upp á nokkur hundruð millj. kr.
    Ég man ekki satt að segja, virðulegi forseti, hvort að þetta kemur hér fyrir í yfirlitinu, hversu mikið hefur farið í B-álmuna, en það eru umtalsverðir fjármunir. Ég geri ráð fyrir því að þar sé um nokkur hundruð millj. kr. að ræða .  ( Gripið fram í: Og miklu meira en leyfilegt er samkvæmt reglum sjóðsins.) og auk þess meira en leyfilegt er samkvæmt reglum sjóðsins eins og þær eru núna. Ég bendi á það reyndar að þeir fjármunir sem fóru til B-álmunnar fóru ekki eingöngu í minni tíð heldur var bætt við nokkurri upphæð sem var á mörkunum samkvæmt reglum sjóðsins, að mínu mati, í ráðherratíð Matthíasar Bjarnasonar. En niðurstaðan varð engu að síður þessi, og ég er þeirrar skoðunar og vil láta það koma fram: Borgaryfirvöld, borgarsjóður Reykjavíkur skuldar Framkvæmdasjóði aldraðra þessa peninga. Hann skuldar Framkvæmdasjóði aldraðra nokkur hundruð millj. kr. Ég vil inna hæstv. heilbrrh. eftir því hvort hann hyggist leggja í innheimtulotu á borgarsjóð Reykjavíkur fyrir þessum peningum til þess að bæta stöðu Framkvæmdasjóðs aldraðra. Það er auðvitað algjörlega fráleitt að láta borgina sitja með þessa peninga eins og hún líka fer með fé og hefur farið með fé á síðustu árum.
    Ég heyrði það að hæstv. heilbr.- og trmrh. var að búa sig undir málaferli út af verksvikum, eftirlitssvikum og vinnusvikum vestur á Ísafirði. Það er spurning hvort að hæstv. ráðherra ætti ekki að íhuga

það mjög alvarlega að búa sig undir málaferli gegn Reykjavíkurborg vegna þjónustusvika við gamalt fólk í þessu kjördæmi, í þessu byggðarlagi. Það væri talsvert mikið annað upplit á Framkvæmdasjóði aldraðra ef borgin borgaði aftur þá peninga sem lagðir voru í B-álmu Borgarspítalans en eru ekki að öllu leyti notaðir í þágu gamals fólks.
    Þetta er auðvitað þeim mun brýnna og eðlilegra að mínu mati, virðulegi forseti, vegna þess að eins og margoft hefur verið sagt hér þá er ástandið í málefnum aldraðra langlakast hér í þessu byggðarlagi. Um það liggja fyrir tölur, ítarlegar tölur. Það er fróðlegt að bera saman stöðuna hér í Reykjavík annars vegar og í öðrum kjördæmum hins vegar. Hvernig er sú staða? Hjúkrunarrými á hverja 100 íbúa 70 ára og eldri á landinu öllu eru 10,4 að meðaltali. Í Reykjanesi eru þau 12,6, á Suðurlandi eru þau 14, í Austurlandshéraði 11,7, Norðurlandi eystra 10, Norðurlandi vestra 17, Vestfjörðum 14, Vesturlandi 10 en í Reykjavík eru þessi rými í raun milli 6 og 7 á hverja 100 íbúa 70 ára og eldri. Með öðrum orðum, þau eru helmingi færri en í öllum öðrum byggðarlögum og það er þess vegna líka, virðulegi forseti, sem við þingmenn Reykvíkinga hljótum að leggja meiri áherslu á þessi mál heldur en kannski flestir aðrir, m.a. líka á það og ég legg á það alveg sérstaka áherslu, að hæstv. heilbrrh. upplýsi hvort hann ætlar að fara í rukkunarherferð á hendur borgarsjóði Reykjavíkur fyrir hundruð millj. kr. sem liggja í B-álmu Borgarspítalans og eru ekki notuð í þágu aldraðra heldur í þágu almennrar sjúkrahússtarfsemi.
    Virðulegi forseti. Ég stend hér ásamt hv. þm. Finni Ingólfssyni að brtt. um að takmarka þessa skerðingu við 160 millj. kr. á árinu 1993. Ég skora á aðra þingmenn að standa að þessari afgreiðslu með okkur ef það mætti verða til þess að skapa hér nýjan meiri hluta. Ég segi það hins vegar að fari það svo að þessi samkomulagstilraun okkar verði felld þá munum við, eða ég mun fyrir mitt leyti alla vega, standa gegn þeim breytingum á lögunum sem hér er verið að gera tillögu um. Ég tel að þörfin fyrir þjónustu við aldraða á þessu svæði sé svo brýn að við getum ekki leyft okkur að ganga eins langt og hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera og þess vegna mun ég fyrir mitt leyti, verði tillaga okkar hv. þm. Finns Ingólfssonar felld, standa gegn því að lögunum verði breytt með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn gerir hér ráð fyrir.