Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 23:33:40 (4088)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég get tekið undir flest af því sem hv. þm. sagði. Sá hængur hefur nefnilega verið á að eitt af meginefnum í lögum um málefni aldraðra hefur aldrei verið framkvæmt og það er það vistunarmat sem þarf að fara fram áður en ákvarðanir eru teknar um þjónustu og byggingar. Fyrstu tölur um slíkt vistunarmat hafa nú verið lagðar til heilbrrn. frá flestum héruðum á landinu. Þær benda ekki til þess að þegar Alþingi hefur tekið ákvarðanir um byggingar, þá hafi Alþingi tekið þær ákvarðanir í samræmi við vistunarþörfina eins og heimaaðilarnir meta hana sjálfir. Við höfum verið of uppteknir við það Íslendingar að leysa öll okkar vandamál með því að kaupa steinsteypu. Við höfum ekki hugað að því að það er einmitt þýðingarmeira en að kaupa steinsteypu að reyna að fara þær leiðir sem hv. þm. vék að. Vistunarmatið sem verið er að gera nú og var í fyrsta skipti framkvæmt yfir landið allt gerir einmitt grundvöllinn að því að menn reyni að marka slíka stefnu vegna þess einfaldlega að sú þjónusta sem hægt er að veita öldruðu fólki á sínum eigin heimilum er haganlegust, alveg sama hvaða mælistiku menn leggja á hana, hvort það er mælistika kostnaðarins eða mælistika þjónustunnar eða mælistikan að hlusta eftir röddum gamla fólksins sjálfs. Þetta er sú könnun og athugun sem þarf að gera og ég leyfi mér að fullyrða það, virðulegi forseti, að ákvarðanir hins háa Alþingis um byggingar mannvirkja í öldrunarþjónustu eru ekki í neinu samræmi við það vistunarmat sem fram hefur farið og er unnið af læknum, hjúkrunarfræðingum og starfsmönnum félagsmálastofnana sveitarfélaga í viðkomandi heilsugæsluumdæmum. Og hverjir ættu að vita betur um þörfina eins og hún er en einmitt þessir aðilar?