Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 23:51:44 (4095)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki nokkur vafi á því að það er verulegur skortur á hjúkrunarrýmum og þjónusturýmum hér í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu, þar með talið Reykjanes. Það eru auðvitað nokkur tíðindi fyrir okkur sem höfum talið --- og það verið fullyrt hvað eftir annað af málsmetandi mönnum --- að brýn þörf á hjúkrunarrýmum á Reykjavíkursvæðinu sé á milli 250 og 300. Ef niðurstaða vistunarmats sýnir að samanlögð þörf fyrir hjúkrunarrými í Reykjavík, ekki bara brýn þörf, ekki bara mjög brýn þörf heldur einnig brýn þörf sé 157 hjúkrunarrými eða um það bil helmingi minna heldur en fullyrt hefur verið að brýn þörf fyrir slík hjúkrunarrými hafi verið og sé í Reykjavík, þá eru það nokkur tíðindi og ég vona að menn forláti mér það þó að ég vilji hafa fullan fyrirvara um að sú niðurstaða sé rétt.
    Það eru líka nokkur tíðindi að það skuli vera niðurstaða úr vistunarmati heimaaðila á ýmsum þeim stöðum þar sem við erum í fjárfrekum framkvæmdum við byggingu hjúkrunarheimila að þar skuli ekki vera þörf fyrir eitt einasta hjúkrunarrými. Og ég vona að menn skilji að það er ekki að ástæðulausu að heilbrrn. vill skoða þau mál.