Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 23:53:25 (4096)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Vegna ræðu hv. 10. þm. Reykv. vil ég aðeins fá að bæta við að eitt af því sem ég held að skorti mjög átakanlega í öllum þessum málum er skilgreiningin á hvað sé hjúkrunarrými, sjúkrahús, vistheimili.
    Sannleikurinn er sá að mér finnst alltaf dálítið erfitt að sætta mig við að veikt fólk eigi ekki að vera á sjúkrahúsi. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. heilbrrh.: Hvað verð ég gömul þegar ég fæ ekki lengur að fara á sjúkrahús af því að ég á bara að fara á eitthvert hjúkrunarheimili fyrir aldraða? Ég hélt að það eðlilegasta væri að veikt fólk sem þyrfti á sjúkrahússvist að halda færi þangað. Ég þekki það mætavel frá árum mínum í Tryggingastofnun ríkisins að fjöldinn allur af vistmönnum á elliheimilum landsins voru settir í þann greiðsluflokkinn sem gaf til kynna að þeir væru hjúkrunarsjúklingar. Síðan voru þeir á almennri vist eins og ekkert væri en þannig lyfti stofnunin greiðslunni frá Tryggingastofnun því að það er dýrari vist fyrir hjúkrunarsjúklinga heldur en dvalarsjúklinga eða vistmenn eins og þeir eru kallaðir.
    Ég held að það sé fyrir löngu mál til komið að gera sér grein fyrir hvers konar þjónustu við veitum landsmönnum og þá leyfi ég mér bara að setja alla landsmenn undir einn hatt. Ég geri mér alveg grein fyrir að fatlað fólk sem á litla von um bata er á sérstökum heimilum sem eru til þess gerð, við því er ekkert að segja. Sama má segja um gamla langlegusjúklinga sem kannski lítil von er til að verði færir um að bjarga sér sjálfir en þurfa ekki kannski beinlínis læknishjálp dagsdaglega. En ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir að þegar við erum að tala um þessar hjúkrunardeildir, þá eru til lög um heilbrigðisþjónustu sem setja stofnunum ákveðin skilyrði um starfsfólk, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og aðra slíka. Og allt er þetta óskilgreint, frú forseti, enda einn endemis hrærigrautur allt saman.